04.05.1925
Efri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2687 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Hæstv. fjrh. (JÞ) rakti sögu þessa gjalds og talaði fyrst um lögin frá 1894, um áritunargjaldið, hvað það væri. Jeg hirði ekki um að fara inn á þessi lög, af því áð þau hafa ekki áhrif á málið, en jeg ætla að snúa mjer strax að skýringaratriðum hæstv. fjrh., og verð jeg þá að byrja með því að segja það, að jeg lít svo alt öðruvísi á þetta mál en hann gerir, og svo munu svo að segja allir lögreglustjórar landsins gera. Það eru alls ekki nein tvímæli á því, hvernig þetta mál myndi fara fyrir dómstólunum. Það er náttúrlega rjett, sem hæstv. fjrh. segir um lögin frá 1921; þar er fastákveðið, að 50 aura gjald af hverri smálest eigi að fara til ríkissjóðs. En svo koma lögin um rjett til fiskiveiða í landhelgi; þar segir svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Fyrir skoðun skipsskjalanna skal greiða lögreglustjóra eða hreppstjóra gjald það, er ákveðið er í aukatekjulögunum. Síðan skal rita á skipshafnarskrá skipsins vottorð um skoðunina og greiðslu lögskipaðs gjalds.“

Jeg hefi skilið skýringu hæstv. fjrh. þannig, að þarna sje átt við lögin frá 1894. (Fjrh. JÞ: Hvortveggja þarna). En hjer er átt við ákvæðin í aukatekjulögunum. Það var það, sem jeg vildi sýna svo greinilega. Með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæðin um ákvörðun afgreiðslugjaldsins er lagt til, að sjeu ekki sett í lög þessi, en vísað til aukatekjulaga þeirra, sem í gildi eru á hverjum tíma, sbr. nú lög nr. 27, 27. júní 1921, síðustu málsgrein 54. greinar.“

Nú er í lögunum talað um aukatekjur, og svo er sagt, um hvaða lög sje að ræða. Hjer. er því átt við' lögin frá 27. júní 1921. Þar stendur það skýrum stöfum, að greiða skuli lögreglustjórum eða hreppstjórum gjaldið, og þar vil jeg sjerstaklega benda á, að í orðalaginu liggur það beinlínis, að þetta gjald eigi að ganga til þeirra sjálfra, því að það liggur í hlutarins eðli, að þeir heimta það inn, og þarf því ekki að geta þess sjerstaklega, að þeir eigi að taka við því, nema því aðeins, að það væri tilætlunin, að það ætti að renna í þeirra vasa. Ef hreppstjóri framkvæmir verkið, skal skifta gjaldinu jafnt á milli hans og lögreglustjóra. Ef þetta gjald ætti að renna í ríkissjóð, þyrfti ekki að skifta því á milli þeirra; jeg get ekki hugsað mjer, að nokkur dómstóll væri svo blindur að geta dæmt þetta öðruvísi. Hæstv. fjrh. sagði, að lögin um aukatekjur sýslumanna frá 1894 væru stundum kölluð aukatekjulögin, en það veit jeg, að þegar jeg var lögreglustjóri, þá var altaf átt við lögin, þar sem ákveðnar voru tekjur ríkissjóðs. Það er til svo fjarskalega mikið af öðrum lögum og reglum um það efni, en þarna er það beinlínis tekið fram, að gjaldið, sem átt er við í 2. gr., skuli fara til lögreglustjóranna sjálfra, þá er „motivið“ ekki það, að það sje átt við lögin frá 1894. Og loks kemur svo 3. athugasemdin, sem segir, að skifta skuli jafnt á milli þeirra; það eru þannig skýr lagaákvæði um það, að þessu gjaldi eigi að skifta á milli lögreglustjóra og hreppstjórans, sem heimtir það inn. Þegar menn bera saman lögin frá 1921 og 1922 er ekki um að villast, og jeg veit ekki til, að síðar hafi verið samþykt lög um þetta efni.

Jeg er sömuleiðis algerlega sannfærður um það, að ómögulegt er, að nokkur dómstóll dæmi öðruvísi en svona, og hæstv. fjrh. sagði, að hann skildi ekki, hvað við ættum við. Okkar álit er það, að þessi lagaákvæði, sem nú gilda, eigi að vera til hagsbóta fyrir lögreglustjórana; en að það þyrfti ekki að tala um það nú, er alveg rjett; það gera dómstólarnir, því að hæstv. fjrh. mun auðvitað úrskurða eins og hann hefir gert hjer í dag, en þá myndu lögreglustjórarnir ekki hafa önnur úrræði en að snúa sjer til dómstólanna með málið, og lögreglustjórarnir munu treysta svo vel málstað sínum, að þeir verða ekki hræddir við það. Auk þess trúa þeir á gamlar venjur í þessu efni. Það þarf þess vegna enginn að vera hræddur við að greiða atkvæði með þessari gr. frv., af hræðslu við það, að þeir verði ver úti, því að jeg er sannfærður um, að þeir fá hvern dómstól með sjer. Ef þessi brtt. á þskj. 428 yrði samþykt, myndi hún á engan hátt draga úr rjetti lögreglustjóranna, ef til dómstólanna kæmi, því að það væri auðvitað ekki meiningin að gefa lögreglustjórunum deteriores conditiones. Ef jeg aðeins gæti sjeð einhverja veilu í þessari skýringu minni, þá skyldi jeg ekki vera að halda þessu fram fyrir lögreglustjórana, en mjer er aðeins ómögulegt að sjá hana.

Mjer finst þetta svo ljóst og greinilegt fyrir þá. Jeg verð þess vegna að halda mjer fast við það, sem jeg hefi áður sagt, því að jeg er viss um, að lögreglustjórarnir mundu vinna, ef í hart færi, og jeg verð ennfremur að leggja áherslu á það, að hvort sem löggjafarnir hafa athugað það, hvað þeir voru að gera í þessu efni, þá verða borgarar landsins að reiða sig á orð laganna, og það má ekki vera hægt að segja það, að Alþingi sje að setja hjer lög, sem það viti ekkert hvað þýði. Það er svo mikil vantraustsyfirlýsing á það, að maður dirfist ekki að hugsa það nje halda því fram, að löggjafarnir hafi ekki vitað, hvað þeir voru að gera. Og jafnvel þótt svo hefði verið, þá verður Alþingi að vera bundið við þau lög, sem það hefir sett.

Annars eru margar ástæður til þess að leggja þann skilning í lögin, sem jeg hefi gert. Bæði er nú það, að gildi peninga hefir breyst mikið frá 1894, og svo er annað, að það er nú miklu meiri nauðsyn á að hafa eftirlit með þessum skipum en áður, og mætti meira treysta á, að þeir legðu rækt við starfið, þegar þeir fengju alt, sem inn kæmi, fyrir sitt erfiði. Hæstv. fjrh. taldi, að þessi launauppbót kæmi ekki rjettilega niður; það má vel vera, að lögreglustjórinn í Reykjavík beri fullmikið úr býtum, en því má heldur ekki gleyma, að það lögreglustjóraembætti er afarþýðingarmikið, ekki af því að hann er æðsti maður lögreglunnar hjer, heldur af því, að hann innheimtir mest allra lögreglustjóra á landinu, og um mann, sem hefir slíka ábyrgð og ríkið verður svo mjög að treysta, má hreint og beint telja það heppilegt og nauðsynlegt, að hann sje reglulega vel launaður, því að það eru miljónir króna, sem ganga í gegnum hendur hans, svo að það er ekki nema sjálfsagt, að maður, sem hefir mestalla tollheimtu á landinu, beri vel úr býtum. En það sýndi sig yfirleitt af upplestri hæstv. fjrh. áðan, að þessar tekjur koma fram á þeim embættum, sem mest hafa að gera, en það er líka eðlilegt og sanngjarnt, að þeir, sem hafa mesta ábyrgð og mest starf, hafi líka mestar tekjur. — Það sýnir óþolandi ranglæti í launalöggjöf ríkisins, að sýslumaðurinn í Dalasýslu skuli vera betur settur að því er launin snertir heldur en menn, sem sitja í embættum með afskaplegri fjárhagslegri ábyrgð og miklu meira starfi, þurfa t. d. að kveða upp fjölda dóma á ári. Og það hlýtur líka að hefna sín með tímanum, t. d. að hjeruð eins og Gullbringu- og Kjósarsýsla, Akureyri, Vestmannaeyjar og Ísafjörður skuli vera svo illa launuð; það má ekki ganga svo lengur. Jeg vil ekki óska hæstv. fjrh. þess, að hann eigi eftir að finna, hverjar afleiðingar það getur haft. Og eftir að hafa heyrt þessar tölur, sem hæstv. fjrh. las upp, þá verð jeg að segja það, að mjer finst það ekki vera neinar tölur, sem ástæða sje til að verða hræddur við, þegar á það er litið, að því betur verður unnið fyrir ríkissjóð og að því betur rækja þessir menn skyldu sína, sem þeir hafa sæmilegri laun; og þegar altaf er verið með nýjum og nýjum lögum að leggja þeim nýjar og nýjar skyldur á herðar, þá finst mjer, að þó að með einstöku lögum kunni að slæðast einhver tekjuauki, þá ætti Alþingi síst að sjá eftir því. Það kemur til að leiða spillingu yfir þetta land, og getur orðið stórkostlegur skaði fyrir það.

Hæstv. fjrh. kvaðst vera sammála mjer um það, að skrifstofufje þessara embætta hefði verið of lítið áður. Jeg hefi líka oft sýnt fram á það, að það hafa verið hafðar af þessum embættismönnum ríkisins þúsundir króna fyrir það, að þeir hafa ekki fengið það skrifstofufje, sem þeir áttu að fá að rjettu lagi. Það var ráðist allhart á mig hjer í hv. Nd., þegar jeg var fjrh., fyrir það, að jeg hefði látið þá hafa of mikið skrifstofufje, og þó ljet jeg þá ekki hafa meira en það, sem þeir höfðu orðið að leggja til úr eigin vasa það ár. Auk þess sje jeg ekki, að stjórnin þurfi neins samþykkis að leita hjá þinginu um það að greiða þessum embættismönnum meira skrifstofufje í ár. Í launalögunum frá á 1919 stendur, að dómsmálaráðherra ákveði skrifstofufje sýslumanna. eða hafi vald til að ákveða það, og fjárveitingavaldið verður að taka þær upphæðir í fjárlög, sem hann ákveður. Þannig stendur í lögunum, og tilætlunin með launalögunum frá 1919 var einmitt sú, að dómsmálaráðherra sæi þessum mönnum fyrir því skrifstofufje, sem þeir þyrftu til þess að geta annast embætti sitt sæmilega.

Hv. frsm. minni hl. (JJ) mintist á það, að þessir embættismenn hefðu haft tals verðan viðbúnað og skilið hjer eftir erindreka, til þess að tala við þingið. Var ekki kominn tími til þess, að lögreglustjórarnir færu að athuga þessi málefni sín rækilega, þegar kröfum þeirra hafði verið mætt með svo miklu skilningsleysi hjer á þingi? Það var alls ekki nema eðlilegt. að þeir skildu hjer eftir erindreka til þess að gefa upplýsingar. Mjer finst síst ástæða til að áfella þá fyrir þetta, því að það var algerlega rjett aðferð, sem þeir höfðu.

Jeg þykist svo ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta mál, en vildi mælast til þess, að hv. deild tæki þessar sanngjörnu kröfur til greina. Jeg lít svo á þetta mál, eins og þeir, að rjetturinn sje þeirra megin, sem. dómstólarnir kannske síðar þurfa að skera úr. Hjer er heldur ekki farið fram á annað en að sá rjettur, sem þeir lengi hafa haft, sje ekki tekinn af þeim, því að kröfur lögreglustjóranna ganga ekki lengra en að fara fram á það, að þeir megi halda þeim rjetti, sem þeir hafa haft. Það var álitið sjálfsagt, þegar launalöggjöfin gekk í gildi, að þeir, sem hefðu komið í embætti undir eldri lögunum, mættu halda áfram að búa undir þeim. Sama var tilfellið þegar vitagjaldið var tekið af lögreglustjórunum; þá átti það ekki að ná til þeirra lögreglustjóra, sem þegar voru komnir í embætti. Hjer er því ekki farið fram á annað en að fá að halda sama grundvelli, sem Alþingi altaf hefir staðið á í þessu máli, og að embættismennirnir fái að halda sama rjetti og verið hefir. Jeg fer svo ekki fleiri orðum um þetta. Jeg treysti þessari hv. deild til, á meðan þessi þjóð stendur á þeim grundvelli, sem nú er, að hún ekki taki þann rjett, sem hún hefir gefið.