29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Því miður hefi jeg ekki, sökum mikils annríkis undanfarið, fengið tíma til að búa mig undir þessa framsögu eins og skyldi, og bið hv. deild að afsaka það.

Í nál. hv. fjvn. Nd. er lokið lofsorði á hæstv. stjórn fyrir það, hve hún hafi búið frv. vel í hendur þingsins og áætlað tekjurnar varlega og stilt gjöldunum í hóf. Undir þetta er fjvn. þessarar deildar ljúft að taka, og er hún sammála hæstv. stjórn í því, að gera þurfi alt, sem hægt er, til að koma fjárhag ríkisins sem fyrst í betra horf, og að nauðsyn beri til að losna sem allra fyrst við lausu skuldirnar, og vill nefndin reyna að stuðla að því, að það verði mögulegt. Því hefir nefndin heldur ekki viljað auka tekjuhallann á frv. frá því, sem hann var, er frv. kom úr hv. Nd. Hinsvegar hefir nefndinni ekki ennþá unnist tími til að fara yfir og íhuga tekjuhlið frv., en mun gera það milli 2. og 3. umr. En jeg hygg, að tæplega muni ástæða til að hækka þá liði, ef annars á að fylgja þeirri gullnu reglu að áætla tekjurnar aldrei of hátt. En auðvitað tekur fjvn. það at til athugunar á sínum tíma.

Jeg vona, að allir hljóti að sjá, og þá hv. Nd. og hv. fjvn. þeirrar deildar, að nefndin hjer hefir verið mjög bindindissöm í till. sínum. Býst jeg ekki við, að nokkrum muni ógna það, þó að fjvn. annarar þingdeildarinnar bæti við útgjaldaliðum, sem svara 50 þús. kr., og felli um leið burt önnur útgjöld um 70 þús. kr. í fjárlögum, þar sem tekjurnar eru áætlaðar 10 milj. kr. og útgjöldin rúmar 10 miljónir. Nefndin getur varla talist byltingasöm fyrir þetta. Þá má taka það fram, að nefndin hefir sem mest varast að hreyfa við till. fjvn. hv. Nd., því að svo mun oftast vera, að þær till., sem frá fjvn. koma, sjeu betur undirbúnar og samræmari einstökum greinum fjárlagafrv. en till. einstakra þm. Það eru því aðeins örfáar af till. fjvn. Nd., sein nefndin befir leyft sjer að gera brtt. við.

Eins og tekið er fram í nál., sá fjvn. sjer ekki fært að fella niður svo mikið á gjaldabálkinum, að fjárlögin gætu orðið afgreidd tekjuhallalaus, enda myndi hv. fjvn. Nd. þá þykja sem við hefðum verið fullfrekir í gerðum okkar. — Annað finn jeg ekki ástæðu til að tala alment um málið.

Jeg er svo heppinn, að skrifari fjvn., hv. 3. landsk. (HSn), hefir haft nál. sitt svo ítarlegt, að óvíða þarf miklu við að bæta. Þar er gerð grein fyrir hverri einstakri till., og er þá ekki nauðsynlegt að vera að prenta það upp í umræðupartinum, sem stendur í skjalaparti þingtíðindanna.

Fyrsta brtt. fjvn. er við 10. gr. III. 3., um að hækka ríkisráðskostnaðinn úr 4 þús. kr. upp í 6 þús. kr. Þetta eru laun handa konungsritara. Hafði hæstv. stjórn lagt til í frv. sínu, að veittar yrðu í þessu skyni 8 þús. kr., en það fjekk ekki byr í hv. Nd. Því fór hæstv. stjórn fram á, að fjvn. þessarar hv. deildar hækkaði liðinn um 2 þús. kr., og varð nefndin við þeim tilmælum. Þessi maður, sem hjer er um að ræða, ríkisráðsritarinn íslenski, getur ekki komist af með það fje, sem hann hefir haft, og þar sem hann er nú einasti íslenskur embættismaður í stjórninni dönsku, þá þykir nefndinni ekki horfandi í að hækka upphæðina um 2 þús. kr. Er og talið, að konungurinn greiði honum svo mikið af borðfje sínu, að ekki komi til mála, að honum sje veitt minna en þetta hjeðan að heiman.

Í frv. sínu hafði hæstv. stjórn látið nægja 3 þús. kr. styrk til læknisvitjana í sveitum. Hv. Nd. hækkaði styrk þennan upp í 6 þús. kr. eftir till fjvn. En auk þessa voru sjerstaklega teknir upp í frv. tveir liðir um sjerstakan styrk til læknahalds handa Kjósarsýslu og til Ólafsfjarðarbúa í Eyjafjarðarsýslu. Nefndin leit nú svo á, að það gæti ekki talist skylda þingsins að fara að sjá fyrir fje í því skyni, að samið yrði við sjerstakan lækni til að gegna sjúkravitjunum í Kjósarsýslu. Það heyrir undir hjeraðslækninn í Hafnarfirði, sem er hjeraðslæknir Kjósarbúa, og auk þess verður að álíta, að mjög víða á landinu sjeu menn ver settir í tilliti til læknisvitjana en í þessum sveitum. Að minsta kosti er vegurinn úr Kjalarnesi og Mosfellssveit til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar ekki lengri nje erfiðari en alment gerist. Hinsvegar mætti fremur segja það um Kjósarhrepp, enda hefir nefndin lagt til, að honum sje veittur 500 króna styrkur til læknisvitjana, en áður hefir hann fengið 300 kr. í þessu skyni. Mega Kjósarbúar vel við una, er athugað er, hve erfitt er að vitja læknis víða annarsstaðar á landinu, þar sem þó er enginn styrkur til þess veittur. Jeg skal í því sambandi minna á, hvernig ástatt er í Snæfjallahreppi við Ísafjarðardjúp, en þeim hreppi er nú í fyrsta sinni veittur nokkur styrkur, Leyfi jeg mjer að lesa upp nokkur orð úr brjefi hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) til fjvn., dags. 2. mars 1925. Þar segir m. a. svo:

„Til læknisvitjana verður að fara sjóleiðina, manna út skip, oftast með 5 eða 6 mönnum. Þetta er því dýrara og erfiðara, sem það kemur æðioft fyrir, að fara þarf fleiri en eina ferð til að sækja lækninn í sama skyni, vegna þess að enginn sími er í hreppnum, og hefir þráfaldlega komið fyrir, að þá er hreppsbúar hafa komið á læknissetrið, hefir læknir verið fjarverandi, jafnvel utan hjeraðs, og ferðin því algerlega til einskis. Þar, sem lengst er, er vegalengdin úr þessum hreppi til læknisbústaðar um 17 sjómílur (kvartmílur).“

Öllum, sem kynna sjer þetta ástand, hlýtur að finnast það mun erfiðara en það, sem Kjósarbúar eiga við að búa, og getur því ekki talist rjett að veita Snæfjallahreppsbúum aðeins þennan litla styrk til læknisvitjana, en Kjósarbúum auk læknisvitjunarstyrks styrk til sjerstaks læknis fyrir hreppinn.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, um styrk til Ólafsfjarðarhrepps í Eyjafirði, til að launa sjerstakan lækni. Nefndin viðurkennir fúslega, að það geti oft verið mikil vandkvæði á því að ná þarna til læknis, en fjörðurinn er ekki sjerstakt læknishjerað, og enda vafasamt, hvort fengist læknir í fjörðinn, þótt svo yrði. Því er ætlast til, að Ólafsfirðingar fái 600 kr. styrk af fje því, sem veitt er til læknisvitjana, en auk þess leggur nefndin til, að þeir fái 2000 kr. styrk til viðbótar, ef þeir ráða sjer sjerstakan lækni.

Styrknum til lækningaferða kringum landið hefir verið breytt lítið eitt frá því, sem áður var. Áður var styrkurinn ánafnaður augnlækni þeim í Reykjavík, sem styrk hefir til kenslu við háskólann. Nú er styrkveitingunni til augnlækningaferðalagsins þannig breytt, að stjórnin hefir frjálsar hendur að veita styrkinn þeim augnlækni bæjarins, sem henni sýnist. Jeg vil geta þess, að fjvn. Ed. var kunnugt um, að margar áskoranir hafa komið til Guðmundar Guðfinnssonar augnlæknis um að ferðast kringum land, og nefndin fyrir sitt leyti telur eins rjett, að hann verði ráðinn til þessa ferðalags, þótt annar maður hafi fengið styrkinn, sem augnlækni Reykjavíkur er ætlaður.

Liðinn við 12. gr. 12 þótti nefndinni viðkunnanlegra að orða svo, að það væri endurgjald á ferðakostnaði, en ekki ferðastyrkur, af því að ferðin er þegar farin.

Um 6. brtt. við 12. gr. 13 get jeg látið nægja að vísa til þess, sem stendur í nál. fjvn. Nefndin telur nauðsynlegt, að læknar geti farið eftir hæfilegan tíma erlendis, til þess að fylgjast með framförum í ment sinni, og hefir því lagt til, að þessi liður, sem áður stóð í fjárlögum, verði tekinn upp aftur, og það því frekar, sem nefndin hlaut að mæla með þeim mönnum, sem um er að ræða, og annar þeirra, Jón læknir Bjarnason, hafði orðið hart úti um styrk, er hann sigldi sem kandidat.

Þá leggur nefndin til, að breytt sje orðalagi í aths. við fjárveitingu til landsspítalans. Er það af þeim ástæðum, að 24. þ. m. var undirskrifaður samningur milli ríkisstjórnarinnar annarsvegar og stjórnar landsspítalasjóðs Íslands hinsvegar um byggingu á landsspítala. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp helstu ákvæði þessa samnings, sem, eins og jeg gat um, er undirskrifaður af þremur ráðherrum og stjórn landsspítalasjóðsins, en í henni sitja: Ingibjörg H. Bjarnason, Ágústa Sigfúsdóttir, Laufey Vilhjálmsdóttir, Lilja Kristjánsdóttir, Jónína Jónatansdóttir, Elín M. Jónatansdóttir og Hólmfríður Rósenkranz.

Í samningnum stendur: „Af því fje, er Landsspítalasjóðnum þegar hefir áskotnast, og safnað kann að verða meðan á byggingu Landsspítalans stendur, og áætlað er að nema muni að minsta kosti 300000 kr., lofar stjórn Landsspítalasjóðsins að leggja fram þ. á. alt að 75000 kr., og á næsta ári, 1926, 100000 kr., en síðan það, sem eftir verður þá af fje sjóðsins á þann hátt, sem síðar segir.“ Svo eru nánari fyrirmæli um útborgun eftir samningnum. Ennfremur: „Af hálfu gefendanna eru þessi skilyrði sett: 1. Ríkisstjórnin lætur á þessu ári byrja á undirbúningi og byggingu landsspítalans samkvæmt þeirri teikningu, er húsameistari ríkisins hefir gert af byggingunni og um ræðir í brjefi hans til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 12. febr. 1925, með þeim breytingum, er ríkisstjórnin telur nauðsynlegar eða heppilegar. Það skal tekið fram sjerstaklega, að hæfilega stórri fæðingadeild skal komið fyrir í spítalanum, og hún starfrækt frá þeim tíma, er spítalinn verður tekinn til notkunar. Gert er ráð fyrir, að fulltrúi sjóðsstjórnarinnar verði hafður í ráðum um þær breytingar, sem gerðar kunna að verða á teikningu húsameistara og um fyrirkomulag spítalans.

2. Um fjárframlög til spítalabyggingarinnar eru þessi skilyrði sett:

a. Gegn framlagi spítalasjóðsins þ. á., alt að 75000 kr., er ekki krafist neinnar greiðslu úr ríkissjóði.

b. Árið 1926 skal varið til byggingarinnar úr ríkissjóði að minsta kosti svo miklu fje, að jafngildi framlagi sjóðsins, eða 100000 kr., þannig, að varið verði til byggingarinnar það ár ekki minna en 200000 kr. alls.

c. Síðan skal byggingunni hraðað svo sem frekast er unt, þar til henni er lokið.“

Í d-lið stendur: „Bygging Landsspítalans skal lokið og útbúningi svo fljótt, að hann verði tekinn til afnota 1930.

Ríkisstjórnin samþykkir framanskráða ráðstöfun á fje Landsspítalasjóðsins, tekur umgetnu boði stjórnar hans og gengur að þeim skilyrðum, er sett eru af hálfu gefendanna.“

Það er kannske rjett að geta þess, að það er skýrt tekið fram í samningnum, að til þess fjár, sem landsspítalasjóðsstjórnin hefir ákvarðað til spítalans, telst ekki minningargjafasjóður spítalans.

Jeg held mjer sje óhætt að segja, að ef þetta fje hefði ekki komið frá stjórn landsspítalasjóðsins, þá er það mjög vafasamt, hvort þingið eða stjórnin hefði sjeð það fært að ráðast í þetta stórfyrirtæki, sein hjer er um að ræða. Jeg þykist þess vegna mega flytja stjórn sjóðsins þakklæti þingsins fyrir það, að hún hefir gert það mögulegt, að nú þegar verði farið að byrja á slíku nauðsynjafyrirtæki og halda því áfram til fullnustu til blessunar fyrir þjóðina.

Þá er 8. brtt., styrkurinn til sjúkraskýlis í Laugarási. Til þessa sjúkraskýlis voru í fyrra veittar 3 þús. kr. úr ríkissjóði. Svo kom ósk um hærri styrk nú til þingsins, þar sem talið var, að það mundi að öðrum kosti miklu ver sett hvað snertir styrk úr ríkissjóði en önnur sjúkraskýli, og samþykti hv. Nd. fyrir sitt leyti að veita sjúkraskýlinu 5 þús. kr. styrk. Fjvn. Ed. komst að þeirri niðurstöðu að lækka styrkinn um 1000 kr., og telur þá, að þetta sjúkraskýli geti ekki kvartað undan, að það verði ver sett en önnur, sem reist hafa verið.

Fyrir 9, brtt. er gerð fullkomin grein í nál., svo jeg þarf ekki frekar á hana að minnast.

Í till. vegamálastjóra til stjórnarinnar um þjóðvegalagningu árið 1926 var Langadalsvegur með 10 þús. kr., sem landsverkfræðingur lagði til að veita. Stjórnin sá sjer ekki fært að taka þessa upphæð upp, og lækkaði einnig aðrar tillögur landsverkfræðings á þessum lið. Nú hefir komið fram eindregin ósk um það, að eitthvað verði í fjárlögum 1926 veitt til þessa vegar. Það stendur svo á, að síðasta aðgerð endaði á mjög óheppilegum stað, og er það mjög nauðsynlegt, að vegargerðin geti haldið áfram, svo að vegurinn verði fær; en nú endar hann í ófæru. Landsverkfræðingur taldi, að komast mætti af með 4 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni í ár; nefndin hefir ekki sjeð sjer annað fært en leggja til, að upphæð þessi verði veitt, og væntir þess, að hv. deild fallist á það.

Næsta brtt. er ekki annað en leiðrjetting, að liðurinn verði b.-liður undir B. II.

Um hinn nýja gistingarstyrk í 12. brtt. er það að segja, að nefndin telur óþarft að hafa styrkinn til Arngerðareyrar í þessu skyni hærri heldur en á öðrum stöðum. Það er að vísu svo, að það er mikil umferð þarna á Arngerðareyri; og eftir skýrslum, sem liggja fyrir þinginu, hafa næturgestir á árinu 1924 orðið alls 160 hjá þeim manni, er greiðasöluna hefir á hendi. En alls hafa þegið greiða 1044 menn. Þótt styrkurinn verði ekki nema það, sem nefndin leggur til, 200 kr., þá er það rúmlega 1 kr. fyrir hvert rúmlán. Og þegar á það er litið, að þarna þarf ekki að halda uppi bygð sjerstaklega vegna umferðar, því þetta er mjög svo byggilegt pláss, þá álítur nefndin ekki ástæðu til að hafa styrkinn hærri heldur en hjá öðrum, sem styrks njóta í þessu skyni.

Um 13. brtt. ætla jeg ekki að segja neitt frekar en það, sem stendur í nál., og lítillega um 14. brtt. Það hefði mátt skilja það svo, ef engin aths. hefði verið gerð við þá brtt., að landssímastjóri hefði átt að byggja símann á ríkissjóðs kostnað, hvað sem hann kostaði; en nefndinni virðist ekki ástæða til þess, þar sem þessi sími stendur hvorki í símalögum eða getur talist nauðsynlegur vegna hins opinbera. Og eftir að hafa borið sig saman við landssímastjóra, leggur nefndin til að veita 4/5 kostnaðar.

Landssímastjóri fór fram á það við fjvn. sjerstaklega, að hún hækkaði gjaldalið í 13. gr. D. IV. 2., til aðalskrifstofa landssímanna, um 2000 kr. Fór hann fram á við stjórnina, að liðurinn yrði settur þannig í fjárlagafrv. og taldi sjer það nauðsynlegt, sjerstaklega vegna endurskoðunar, sem hann vill geta látið fara fram nokkru fyr en áður hefir átt sjer stað. En stjórnin hefir fært þessa upphæð niður í 1100 kr. En nefndin vildi verða við óskum landssímastjóra um hækkun, og leyfir sjer að vonast eftir samþykki háttv. deildar á henni. Landssímastjóri vildi halda því fram, að allur rekstrarkostnaður símans væri eiginlega alt of lágt áætlaður í fjárlagafrv. stjórnarinnar; hefir hún fært þann kostnað æðimikið niður, og býst jeg varla við, að þær upphæðir, sem hún hefir stungið upp á, muni hrökkva til, og verði því umframgreiðslur á þeim lið. Jeg vil í þessu sambandi minna á það, að svo getur farið um fleiri liði.

Hæstv. fjrh. hefir bent nefndinni á, að skrifstofukostnaður lögreglustjóra Reykjavíkur væri alt of lágt áætlaður, og því óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að borga þar fje umfram veitingu. Þetta meðal annars gerir það að verkum, að mínu áliti, að það má ekki fara óvarlega í því að áætla tekjur, þegar maður er ekki viss um nema kostnaður á ýmsum útgjaldaliðum fari talsvert fram úr áætlun.

Um 16. brtt. ætla jeg að láta nægja að vísa til nál. Hún er gerð eftir beinni ósk stjórnarinnar um heimild til þess að semja um skeytasamband við umheiminn. Jeg fyrir mitt leyti er ekki viss um, að hún hefði þurft sjerstaka heimild til þessa, en jeg get ekki skoðað þetta öðruvísi en sem kurteisi hjá hæstv. stjórn gagnvart þinginu, og álít jeg sjálfsagt að verða við þeirri ósk.

17. brtt. er fram komin eftir eindreginni ósk vitamálastjóra og er ekkert annað en breyting á röð liðanna um útgjöld til vita. Hann telur talsverð þægindi að því við reikningshald vitanna, að liðaröðin sje sú sama áfram og verið hefir.

Um 18. brtt. mun jeg engu þurfa að bæta við það, sem í nál. stendur. Nefndin leggur til, að sjerstakur styrkur til byggingar á Skútustöðum verði feldur niður. Þessi umsókn frá sóknarmönnum mun vera komin til af því, að þeir vilja gjarnan fá aftur prestinn, sem þeir höfðu áður, og hann hefir dregist á það að sækja aftur um brauðið, ef bygt yrði upp. Hinsvegar vilja sóknarmenn hans, sem nú eru, gjarnan halda honum kyrrum. Og mjer er næst að halda, að prestinum sjálfum sje ekki áhugamál að skifta um, og fjölskyldu hans mun vera það frekar ógeðfelt. Nefndin álítur rjettast að vera ekki neitt að ýta undir, að presturinn flytji sig.

Hvað snertir 19. brtt., þá er einnig gerð grein fyrir henni í nál. Fyrir þinginu lá beiðni frá yfirkennara Jóhannesi Sigfússyni um styrk til þess að halda áfram og ljúka við útgáfu kenslubókar á íslensku í sögu handa gagnfræðaskólum. Hann og yfirkennari Þorleifur H. Bjarnason hafa undirbúið og ætla að gefa út kenslubækur í sögu, sem hæfilegar sjeu fyrir gagnfræðadeild mentaskólans. Fornöldin og miðöldin búast þeir við að komi út í sumar, svo sú kenslubók getur verið tekin til notkunar nú í haust. Hin bókin er nokkru stærri, og ætlast þeir til, að hægt verði að byrja að nota hana 1926. Auk þess þarf að skrifa sögu á íslensku fyrir lærdómsdeild skólans. Hæstv. kenslumálaráðherra (JM) hefir talið það nauðsynlegt, að styrkur sá handa þessum skóla til útgáfu kenslubóka á íslensku, sem áður hefir verið í fjárlögum, verði tekinn upp aftur. Nefndin hefir fallist á, að svo væri gert, og leggur því til, að 2 þús. kr. fjárveiting verði tekin upp í þessu skyni. Það er óskaplega óviðkunnanlegt að hafa ekki kenslubækur t. d. í sagnfræði á íslensku og þurfa að nota þær á útlendu máli, og þá er ekki um annað að tala en dönsku. Þetta gerir nemendunum miklu erfiðari aðstöðu og hefir ýmsa aðra annmarka í för með sjer.

20. brtt. er ekkert annað en færsla á rekstrarkostnaði Eiðaskólans til þess staðar, sem hann á heima; hann hefir staðið í fjárlögunum sem bændaskóli einnig eftir að hann varð gagnfræðaskóli, og er nú lagt til, að þetta verði leiðrjett.

Þá leyfir nefndin sjer að leggja til, að húsaleigustyrkur kvennaskólans í Reykjavík verði hækkaður úr 2000 kr. upp í 5000 kr. og að kvennaskólanum á Blönduósi verði veittur styrkur til aðgerða á skólahúsinu. Hefir stjórn kvennaskólans í Reykjavík skýrt frá því, að vegna mikillar dýrtíðar sjái hún sjer alls ekki fært að komast af með minna en 5000 kr., ef höfuðstóllinn eigi ekki að skerðast að miklum mun. Nú hefir það verið venja, að þessi skóli hefir fengið það, sem hann nauðsynlega hefir þurft, frá ríkissjóði; hefir nefndin ekki neitt að athuga við, að svo verði og í framtíðinni, en telur rjettara að taka upphæðina strax í fjárlög.

Um kvennaskólann á Blönduósi er það að segja, eins og stendur í nál., að það þarf að gera talsverðar umbætur á húsinu, og er búist við, að kostnaður sá muni ekki nema minna en 3000 kr., sem nefndin leyfir sjer að leggja til, að veittar verði.

Þá er 23. brtt. Þar leyfir nefndin sjer að leggja til að veita alt að 5000 krónum til að reisa barnaskóla utan kaupstaða, þriðjung kostnaðar, enda samþykki landsstjórnin uppdrætti að húsunum. Það, sem sjerstaklega hefir valdið því, að nefndin hefir sjeð sig knúða til að taka þennan lið í fjárlög, er ástandið í Ólafsfirði. Þar hefir skólinn hingað til verið rekinn í húsi, sem er bæði orðið alt of lítið, og auk þess er það svo ljelegt, að hlutaðeigandi hjeraðslæknir hefir algerlega neitað að gefa vottorð um, að húsið óbreytt, eða með kákbreytingum einum, geti orðið notað til skólahúss framvegis. Hann segir í brjefi sínu til skólanefndarinnar í Ólafsfirði, dags. 11. des. 1924:

„Af þessum ástæðum og fleirum, sem óþarft er að telja hjer, því að þessar eru nægar og meira til, tilkynti jeg skólanefndinni munnlega við eftirlitið í byrjun þessa mánaðar það, sem jeg nú hjer með eftir tilmælum hennar tilkynni skriflega, að þótt jeg neyddist til að telja húsakynni skólans viðunandi í þetta sinn, eftir því sem á stóð, þó að því tilskildu, að ekki væri öll skólaskyld börn tekin, þá þarf ekki að vœnta þess, að jeg gefi slíkt vottorð um þau óbreytt eða með kákbreytingum einum. Það eina, sem vit er í, það eina, sem sóma kauptúnsins er samboðið, er að hefjast þegar handa til undirbúnings nýs skólahúss, er uppfylli nauðsynlegar kröfur til slíkra húsa og sje svo við vöxt, að ekki verði rúmskortur innan fárra ára, þótt kauptúnið vaxi nokkuð.“

Um þetta mál segir fræðslumálastjóri í áliti sínu, dags. 3. mars þ. á.:

„Öll barnaskólahús utan kaupstaða og eitt kaupstaðarskólahús hafa að undanförnu fengið styrk úr ríkissjóði, alt að byggingarkostnaðar, og virðist mjer því Ólafsfjörður eiga fullkomna rjettlætiskröfu til þess, að beiðni hreppsnefndarinnar verði sint.“

Hreppsnefndin hefir látið gera teikningu af nýju skólahúsi, og er áætlaður kostnaður 15 þús. kr., sem fræðslumálastjóri telur vera helst til lágt áætlað og býst ekki við minni kostnaði en 17–18 þús. kr. Nefndin fer fram á að veita af áætluðum kostnaði til byggingarinnar. Nefndin lítur svo á, að ekki sje hægt að neita um þennan styrk, þar sem hann er í fylsta samræmi við það, sem hefir átt sjer stað um styrk til annara barnaskólahúsa, þar sem eins stendur á, og þar sem Ólafsfjörður mun vera eina sjóþorpið, eða að minsta kosti eitt af mjög fáum, sem ekki hafa fengið slíkan styrk úr ríkissjóði.

Þó vildi nefndin heldur orða liðinn eins og hún hefir gert, í samræmi við það, sem áður hefir staðið í fjárlögum, heldur en veita beinlínis til þessa staðar; en jeg dreg enga dul á það, að hún ætlar alla fjárveitinguna til þessa kauptúns.

Þá leggur nefndin til, að aths. við fjárveitinguna til alþýðuskóla í sveitum verði breytt dálítið. Nefndinni dylst ekki, að gjaldþoli einstakra sýslubúa, og reyndar ríkissjóðs líka, myndi ofboðið, ef settur yrði á stofn hjeraðsskóli í hverri sýslu landsins, jafnvel þó að þær sýslur yrðu undanskildar, þar sem ríkisskólar eru nú fyrir. Enda hefir sú hugsun lengst af vakað fyrir mönnum, að einn góður og öflugur alþýðuskóli yrði stofnsettur í hverjum hinna gömlu landsfjórðunga.

Nefndin leggur nú til, að þessi styrkur verði bundinn því skilyrði, að 2–3 sýslufjelög taki þátt í stofnun og rekstri hvers skóla.

Tökum t. d. Suðurlandsláglendið, þar sem nú er helst hreyfing í þá átt að stofna slíkan skóla. Þar er annað óeðlilegt en að Árnes- og Rangárvallasýslur slái sjer saman um einn skóla. En nú lítur helst út fyrir, að Ámesingar ætli að stofnsetja alþýðuskóla hjá sjer, án samvinnu við Rangæinga, og jafnframt hafa Rangæingar sterkan hug á að koma upp sjerstökum skóla fyrir sig, og eru þeir það lengra á veg komnir, að búið er að ákveða staðinn, þar sem skólinn skuli standa. Nefndinni virðist þarna vera í óefni komið. Hún vill því ekki, að ríkissjóður veiti styrk til hjeraðsskóla í sveitum nema þessu skilyrði verði hlýtt, að 2–3 sýslufjelög taki þátt í byggingar- og rekstrarkostnaði skólans.

Jeg álít t. d. lítið vit í því að stofnsetja marga skóla með líkum hætti sem alþýðuskóla Þingeyinga. Samkvæmt reikningum hans hvílir nú á honum víxilskuld að upphæð 25750 kr. Stofnkostnaður skólans er nú þegar orðinn nálega 88 þús. kr., og þó er hann ekki fullger enn, hvorki húsið sjálft nje að venjulegum áhöldum.

Jeg tel það mesta óráð að ráðast í svo dýrar skólabyggingar og vildi helst mega óska, að slíkt kæmi ekki fyrir oftar, og á till. nefndarinnar að sjá fyrir því, að meiri fyrirhyggju verði framvegis gætt í þessum efnum.

Alþýðuskóli Þingeyinga hefir nú enn farið fram á aukna fjárveitingu til skólabyggingarinnar, en hvorki hv. Nd. nje fjvn. þessarar hv. deildar hafa sjeð fært að verða við þeirri beiðni, enda var skólanum veittur óvenjulega hár byggingarstyrkur úr ríkissjóði á sínum tíma.

Aftur á móti hefir háttv. Nd. samþykt að veita þessum skóla 5000 kr. styrk til byggingar sundlaugar, og er það allur áætlaður kostnaður við laugina. En á öðrum stað í frv. hefir hv. Nd. tekið upp 1000 kr. fjárveitingu til byggingar slíkra sundlauga annarsstaðar á landinu, og skal hæstv. stjórn skifta þeirri upphæð.

Nú liggur fyrir beiðni frá sundnefnd Ungmennafjelags Svarfdæla um 3500 kr. styrk til að gera sundlaug. Er áætlað, að hún muni kosta 7300 kr., og er hjer því farið fram á hjer um bil helmings tillag úr ríkissjóði. Þá sækir sýslunefnd Norður- Ísafjarðarsýslu um 1500 kr. til byggingar nýrrar sundlaugar á Reykjanesi. Það er ekki nema þriðjungur kostnaðar, þar sem áætlað er, að sú laug muni kosta um 4500 kr., og hefir sýslusjóður Norður-Ísfirðinga lofað að leggja fram 1500 kr., en Ísafjarðarkaupstaður aðrar 1500 kr.

Nefndin telur rjett, að í þessu máli gangi eitt yfir alla, og leggur því til, að hinn sjerstaki styrkur til Þingeyingaskólans verði feldur niður, en hinsvegar verði styrkurinn til sundlaugabygginga alment hækkaður úr 1000 kr. upp í 3000 kr. Ætlast nefndin að sjálfsögðu til þess, að þingeyski skólinn fái hlutdeild í þessum styrk, en með sömu skilyrðum og aðrir.

Um orsakir 27. brtt. nefndarinnar get jeg að öllu leyti vísað til nál.

Nefndinni barst umsókn frá þeim konum, sem hafa á hendi aðstoð við Þjóðmenjasafnið, svo og frá þjóðmenjaverði, um, að fjárveiting vegna þessarar aðstoðar yrði hækkuð upp í 2400 kr., eins og hún var árið 1924. Jafnframt vilja þær inna af hendi meira starf en þeim er nú ætlað, þar sem þær leggja til, að sýningartímum safnsins verði fjölgað um 2 á viku, þannig, að framvegis verði safnið opið þrisvar í viku, 2 stundir í hvert skifti.

Það eru fjórar heiðurskonur, sem hafa þann starfa á hendi að sýna gestum safnið, þær Bríet Bjarnhjeðinsdóttir, Kristín Sveinbjarnardóttir, Sigríður Hjaltadóttir og Theodóra Thoroddsen.

Þær hafa nú farið fram á þessa hækkun, og hefir fulltrúi kvenna hjer í þinginu, hv. 6. landsk. (IHB), eindregið lagt til, að farið verði eftir óskum þessara kvenna, og er fjvn. því samþykk, eins og 28. brtt. hennar sýnir.

Í 29. brtt. er farið fram á aukinn styrk til Þjóðvinafjelagsins. Þetta er gamalt og mjög vinsælt fjelag og hefir unnið margt þjóðnytjaverkið, sem kunnugt er.

Nefndinni þykir leitt að geta ekki orðið við óskum fjelagsins um 3000 kr. styrk, til þess að það geti haldið áfram starfsemi sinni í svipuðu formi og undanfarið, einkum að því er snertir útgáfu fræðibóka fyrir almenning, og jafnframt rjett við fjárhag sinn, sem varð mjög bágborinn meðan öll dýrtíð stóð sem hæst. Nefndin sá ekki fært að fara lengra en upp í 2000 kr., en væntir þess, að hv. deild samþykki því fremur þá upphæð.

Þá vill nefndin veita Leikfjelagi Akureyrar lítilfjörlegan styrk, með sömu skilyrðum sem sett eru fyrir styrkveitingunni til Leikfjelags Reykjavíkur, að hlutaðeigandi bæjarsjóður leggi fjelaginu helmings styrk á móts við tillag ríkissjóðs.

Leikfjelag Akureyrar hefir mjög aukið starfsemi sína á síðustu árum. Það hefir nú góðum leikurum á að skipa og hefir undanfarið sýnt ýms ágæt leikrit. Telur nefndin því rjett að örva starfsemi fjelagsins með því að veita því 800 kr. styrk, eins og 30. brtt. fer fram á.

Þá leyfir nefndin sjer að gera talsverðar breytingar á styrknum til skálda og listamanna eins og hv. Nd. gekk frá honum.

Í stjfrv. var sú upphæð ákveðin 10 þús. kr., en hv. Nd. lækkaði hana ofan í 8 þús. kr. Hinsvegar bætti hv. Nd. sjerstaklega við fjórum skáldum og ákvað, hversu mikinn styrk hvert þeirra skuli fá. Nefndin hefir ekki getað sætt sig við þessa ráðabreytni og leggur því til, að aðalupphæðin verði aftur hækkuð upp í 10 þús. kr., en þeir fjórmenningarnir, sem sjerstaklega voru teknir út úr, feldir niður, þó þannig, að Guðmundur Friðjónsson verði færður yfir í 18. gr. og settur á bekk með þeim skáldum, sem þar eru fyrir. Þetta þjóðkunna skáld er, að dómi nefndarinnar, þess maklegt, að því verði sýndur slíkur sómi, og vænti jeg, að hv. deild fallist á till.

Hinsvegar þykir nefndinni Jakob Thorarensen enn of ungur til að komast í 18. gr., en þó vill hún ekki, að hann fái minni styrk en hv. Nd. hefir ætlað honum. Býst nefndin við, að svo geti orðið, þó að hans sje ekki sjerstaklega getið í fjárlögunum. Þá þótti nefndinni rjett að bæta aths. við orðasöfnunarstyrk Þórbergs Þórðarsonar. Hann hefir notið þessa styrks í nokkur ár, og eru engar líkur fyrir öðru en að hann haldi honum framvegis. Þess vegna er ekki nema rjett, að safn hans verði eign ríkisins að honum látnum, eins og ákveðið er um söfn ýmissa annara, sem hafa fengið ríkissjóðsstyrk vegna söfnunarinnar.

33.–35. brtt. eru aðeins orðabreytingar og þurfa engra skýringa við.

Þegar þess er gætt, hversu mikið fje ríkissjóður leggur nú safni Einars Jónssonar, þá virðist ekki ósanngjarnt að fara fram á, að safnið verði opið 4 stundir á viku til sýnis almenningi endurgjaldslaust, og hefir nefndin því flutt brtt. í þá átt. Hingað til hefir safnið ekki verið opið endurgjaldslaust.

Þá barst nefndinni tilkynning frá bræðrum dr. Helga sál. Jónssonar um, að hann hafi kveðið svo á á deyjanda degi, að ríkinu skyldu boðin kaup á grasasafni hans fyrir 10 þús. kr. Andvirðið skyldi renna í sjóð Eggerts Ólafssonar sem sjerstök deild. Ætlar bróðir dr. Helga sál., Bjarni alþm. Jónsson frá Vogi, að semja stofnskrá fyrir þessa deild og fá hana staðfesta af konungi. En sjóður Eggerts Ólafssonar á, sem kunnugt er, að styrkja menn til rannsókna á náttúru þessa lands og náms í þeim efnum.

Safnið er besta grasasafn, sem til er hjer á landi, og er í því mikið af aukaeintökum, sem nota má til skifta við önnur söfn. Væri mikill skaði að missa safnið úr landi, en það verður að sjálfsögðu boðið til kaups erlendis, ef ríkissjóður vill ekki kaupa. Fanst nefndinni sjálfsagt að festa kaup á safninu, einkum vegna þess, að andvirðið á að renna í hálfopinberan sjóð, en þar sem upphæðin er nokkuð há, hefir samist svo milli nefndarinnar og bræðra dr. Helga sál., að kaupverðið skuli greiða á 4 árum, og leggur nefndin því til, að fyrsti fjórðungur þess sje tekinn upp í fjárlög 1926.

Í stjfrv. voru Búnaðarfjelagi Íslands ætlaðar 150 þús. kr. árið 1926, og er það lítið eitt meira en það hefir fengið undanfarið. Nú hefir hv. Nd. hækkað þessa fjárveitingu upp í 200 þús. kr. Þetta þykir nefndinni nokkuð stórt skref og telur nægilegt að auka styrkinn um 25 þús. frá því, sem upphaflega var ákveðið í stjfrv., og ber því fram brtt. um lækkun niður í 175 þús. kr. Er það allálitleg fúlga, enda hefir Búnaðarfjelagið mikil og margvísleg störf með höndum og marga menn í sinni þjónustu. Munu um 60 þús. kr. ganga til launa og ferðakostnaðar starfsmanna fjelagsins.

Á hinn bóginn vill nefndin hækka styrkinn til búnaðarfjelaga upp í 20 þús. kr., eins og hann var áður. Hann var af sparnaðarástæðum lækkaður niður í 10 þús. kr. á síðasta þingi. Margir líta svo á, að búnaðarfjelögin sjeu hyrningarsteinn allra jarðabóta í landinu og að engin styrkveiting úr ríkissjóði hafi borið jafngóðan ávöxt sem þessi.

Í samræmi við brtt. nefndarinnar um Búnaðarfjelag Íslands, og af sömu ástæðum, flytur hún brtt. um, að styrkurinn til Fiskifjelagsins lækki niður í 60 þús. kr. Er það 10 þús. kr. meira en farið var fram á í stjfrv. og mun meira en fjelagið hefir fengið undanfarið.

Forstjóri efnarannsóknarstofu ríkisins hefir skýrt atvinnumálaráðuneytinu frá því, að sú stofnun komi ekki að fullkomnum notum vegna áhaldaskorts. Hefir hann sent nefndinni skrá yfir ýmiskonar áhöld, sem stofuna vanhagar sjerstaklega um, og leggur hann til, að árlega verði veitt nokkur upphæð til áhaldakaupa, þangað til stofan hafi eignast öll hin bráðnauðsynlegustu tæki, sem slíkar stofnanir þurfa að eiga. Hann segir svo í niðurlagi erindis síns, sem atvinnumálaráðuneytið hefir sent nefndinni með bestu meðmælum:

„Mjer finst, að þing og stjórn hljóti sóma síns vegna að gera eitthvað til þess, að stofnun, sem kölluð er „Efnarannsóknastofa ríkisins“, beri einhvern annan svip og sje annað og meira en ómerkilegt barnaskólalaboratorium“.

Nefndin hefir fallist á, að ómynd sje að því, að efnarannsóknastofan komi ekki að tilætluðum notum vegna áhaldaskorts, og leggur því til, að 2000 kr. verði veittar í þessu skyni.

42. brtt. er aðeins málrjetting.

Þá kem jeg að 43. brtt. nefndarinnar, sem er við liðinn til lendingarbóta í Grindavík, sem hv. Nd. hefir tekið upp.

Þar syðra urðu feiknaskemdir í ofviðrinu 21. jan. síðastl. Hefir verkfræðingur, sem hæstv. stjórn bað um að rannsaka skemdirnar, áætlað, að fullkomnar endurbætur muni kosta alt að 105 þús. kr. Grindvíkingar hafa nú sótt um 35 þús. kr. styrk árlega í 3 ár, til þess að gera við skemdirnar. Hefir hv. Nd. nú samþykt 10 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni skilyrðislaust, enda kom till. ekki frá fjvn., heldur frá einstökum þm. Er þetta í engu samræmi við venju þá, sem fylgt hefir verið um slíkar styrkveitingar til að verja einkaeignir manna eða sveitarfjelaga skemdum. Nefndin er alls ekki á móti þessari fjárveitingu, en lítur svo á, að nauðsynlegt skilyrði fyrir henni sje, að fjárframlög komi annarsstaðar frá í sama hlutfalli og til annara mannvirkja, sem styrkt hafa verið af ríkisfje.

Skjölin, sem fyrir liggja í máli þessu, bera ekki annað með sjer en að eigendur Grindavíkur ætli sjer ekki að leggja annað af mörkum til lendingarbótanna en afgjald jarða sinna í nokkur ár og ef til vill vinnu gegn vægu endurgjaldi. Þetta finst nefndinni ekki nóg og flytur því brtt. um að binda þennan styrk sama skilyrði sem aðrar styrkveitingar í svipuðu skyni.

Um styrkinn til markaðsleitar get jeg vísað til umsagnar nál. fjvn. Hæstv. stjórn hefir farið fram á 10 þús. kr. í þessu skyni, en jeg býst við, að hæstv. atvrh. (MG) geti sætt sig við brtt. nefndarinnar.

Ef óumflýjanlegt verður að nota meira en 5000 kr., þá býst jeg við, að hæstv. stjórn geri það, upp á væntanlega aukafjárveitingu síðar.

Annars er nýbúið að senda menn utan í þessum erindum, og er mjer ekki kunnugt um, að knýjandi nauðsyn beri til frekari aðgerða í nánustu framtíð.

Samband ísl. heimilisiðnaðarfjelaga hefir farið fram á, að því verði ekki veittur lægri styrkur en 10 þús. kr., þar sem starf þess sje svo mikið og þjóðnytsamlegt. Nefndin getur fallist á nauðsyn þess, að sambandinu sje veittur ríflegur styrkur, en hefir hinsvegar ekki treyst sjer til að verða við óskum þess að öllu leyti, og leggur því til, að styrkurinn verði hækkaður um 1000 kr., eða upp í 6200 kr. Þegar þess er nú gætt, að styrkurinn til Halldóru Bjarnadóttur er veittur í þessu sama skyni, þá verður ekki sagt, að ríkissjóður láti heimilisiðnaðarmálin með öllu afskiftalaus.

Þá leggur nefndin til, að breytt verði dálítið styrkveitingunni til leiðbeinandans við húsagerð í sveitum.

Ef þessi maður fær lífvænleg laun að lifa af og nokkurn ferðakostnað, telur nefndin það nægilegt, og getur ekki gengið inn á, að hann setji upp skrifstofu á ríkisins kostnað. Því leggur nefndin til, að till. eins og hún kom frá hv. Nd. verði lækkuð úr 1200 kr. niður í 800 kr. og að orðin „og skrifstofufje“ falli niður.

Að því er snertir fjárveiting til þess að gera fossana Glanna og Laxfoss laxgenga, þá virtist nefndinni, að enginn undirbúningur hefði verið hafinn í því efni. Eins er það talið mjög tvísýnt, að þeir, sem eiga land að fossunum, muni leyfa, að þeir verði sprengdir. Sá nefndin því ekki, að ástæða væri til að veita fje til þessa að þessu sinni.

Þá hefir nefndin leyft sjer að gera breyting á fjárveiting til Lofts Guðmundssonar, þannig, að í stað orðanna „fyrir kvikmyndatöku“ komi: „til umbóta á kvikmyndum af íslensku landslagi og atvinnulífi, er hann hefir gert“. — Nefndin álítur, að það gæti orðið mjög til góðs, til þess að breiða út áhuga á því að kynna sjer Ísland og sjá landið, að kvikmyndir sem þessar væru teknar og sýndar erlendis. Hinsvegar telur hún þessa mynd ekki svo góða sem hún ætti að vera, og vill því binda styrkinn því skilyrði, að Loftur bæti mynd mína. Ætti það að vera auðgert. Hinsvegar virðast, eftir því sem fyrir liggur, mikil líkindi til þess, að Loftur geti selt kvikmyndina til útlanda og fengið kostnaðinn greiddan þar. Enda var og nefndinni sagt, að einstakir menn hefðu hlaupið undir baggann með honum og myndu ekki ganga hart eftir að hjálp þeirra yrði endurgoldin.

Hv. Nd. hefir lagt til, að Lúðvík Jónssyni verði veittar 5000 kr. til þess að endurbæta jarðyrkjuverkfæri þau, er hann hefir látið smíða. Nefndin lítur svo á, að hjer sje um mál að ræða, sem eðlilegast sje, að heyri algerlega undir Búnaðarfjelag Íslands, og muni það fjelag styrkja þennan mann, ef það álíti hann styrksins verðan. Að áliti nefndarinnar væri því þingið að taka fram fyrir hendurnar á þessu fjelagi, ef það veitti þessa upphæð, án þess að nokkur meðmæli liggi fyrir frá Búnaðarfjelaginu í þá átt.

Þá hefir nefndin lagt það til, að styrkurinn til fyrverandi eigenda m/b Svans verði færður úr 6000 kr. niður í 4000 kr. Þingið 1923 veitti í þessu skyni allmiklar upphæðir í fjáraukalögum fyrir 1923 og í fjárlögum fyrir 1924, og margir litu svo á, að þar við yrði að sitja. Nú hefir hv. Nd. stungið upp á, að enn væru veittar 6000 kr. til þessara manna. Nefndin vill ekki leggja til, að sú upphæð verði feld niður með öllu, en hún er samþykk því, að hún verði lækkuð um 2000 kr. Það er enginn vafi á því, að hallinn, sem fjelagið beið, er gerði Svan út, stafaði að nokkru af óheppilegri stjórn, og nefndin fær ekki sjeð, að ríkinu beri að bæta að öllu slík mistök.

Þá leggur nefndin til, að Rauðakrossfjelagi Íslands verði veittar 1000 kr. Fjelag þetta er nýlega stofnað, en hefir mætt svo góðum undirtektum, að eins dæmi má kalla. Seinast þegar jeg frjetti, voru um 1000 manns gengin í fjelagið; sjerstök deild hafði verið stofnuð á Akureyri og verið var að undirbúa stofnun annarar í Vestmannaeyjum. Þetta fjelag er hið þarfasta, og telur nefndin það metnaðarmál fyrir íslensku þjóðina að vera með í þessum fjelagsskap, sem hefir svo göfugt og gott takmark. Til þess að sýna viðurkenningu sína á gildi hans leggur því nefndin til, að fjelaginu verði veittar 1000 kr. í fjárlögunum. Meiningin er sú, að fjelagið þegar á þessu sumri ráði í þjónustu sína lærða hjúkrunarkonu, sem færi um veiðistöðvarnar og annarsstaðar þar, sem þörfin er mest. Myndi það koma að miklu gagni, því að hingað til hefir verið mikill skortur á konum, sem kunna að fara með meiðsli og annað, á hinum ýmsu útgerðarstöðum og í sveitum landsins.

52. brtt. er borin fram samkvæmt ósk fyrverandi skrifstofustjóra Einars Þorkelssonar. Er það aðeins orðabreyting. Hann óskar eftir, að nafn sitt sje tekið út úr fjárlögunum, en í stað þess komi tilvitnun í lögin um lífeyri hans.

Um læknisekkjurnar þarf jeg engu að bæta við það, sem stendur í nál. Báðar þurfa þær þessa styrks við. Hið sviplega og sorglega fráfall Halldórs Gunnlaugssonar mun og ferskt í minni manna. Má vera, að það hafi valdið því, að ekkja hans fær örlítið hærri upphæð en hin, enda er og sagt, að hún kosti nú tvo syni sína í mentaskólanum. En báðar eiga þær fyrir ómegð að sjá. Um hækkunina til Ólafar Sigurðardóttur þarf væntanlega ekki að eyða orðum. Jeg geri ráð fyrir, að allir verði sammála um hana.

Á Guðmund skáld Friðjónsson hefi jeg áður minst.

Nefndin leyfir sjer að leggja til, að Sigrúnu Gestsdóttur. ekkju Stefáns Eiríkssonar, verði veittur nokkur lífeyrir. Bæði er það, að hún er merk kona sjálf, og eins vann maður hennar í lifanda lífi svo mikið fyrir íslenska útskurðarlist, að sjálfsagt sýnist, að hún njóti þess að nokkru. Stefán heitinn vann alla æfina fyrir lítið kaup og mun landinu ódýr, þótt þessi styrkur sje veittur.

Næsta till. er komin fram eftir ósk hæstv. stjórnar. Held jeg, að allir muni sjálfsagt telja að veita þessa heimild og að það muni valda almennri ánægju, að þessi sendimaður, sem að alþjóðardómi stóð svo vel í stöðu sinni, bíði sem minstan halla af starfi því, er honum var á hendur falið.

Sömuleiðis er það eftir ósk hæstv. stjórnar, að lánsheimildin til varnargarðsbyggingar á Siglufirði er tekin upp. Gert er ráð fyrir, að bæjarfjelag Siglufjarðar greiði helming kostnaðarins, en fái þessar 15000 kr. að láni úr viðlagasjóði með sömu kjörum og það hefir fengið slíkt lán áður.

Að því er athugasemdina við kjötútflutninginn snertir, þá er það að segja, að till. er þannig orðuð, að engin takmörk eru sett fyrir því, hve mikið ríkissjóður má greiða í tilefni af tilraunum þeim, sem gerðar verða í þessu efni. Fanst fjvn. rjett, að þessari heimild fyrir stjórnina væri hagað svo, sem venja er til um aðrar, að viss takmörk væru sett, og ætla jeg, að allir megi vera ánægðir með till. nefndarinnar í þessu máli.

Þá leggur nefndin til, að tvær ábyrgðarheimildir, sem hæstv. stjórn eru veittar í 25. gr., sjeu feldar niður. Sumpart finst henni þessi mál ekki nægilega undirbúin. Sjerstaklega sýnist henni sem undirbúning skorti undir tóvinnufjelag það, sem ráðgert er að stofna á Vestfjörðum, enda efast hún um, að slíkt tóvinnufjelag væri þar best komið hjer á landi. Nefndin vill ekki ýta undir einstaklinga eða fjelög til þess að ráðast í stórfyrirtæki, sem hægt er að fresta, meðan gengi vort er ekki betra en það er, og verkalaunin því hærri en búast má við, að þau verði, ef krónan kemst í fult gildi, eins og vonandi verður bráðlega.

Nefndin er algerlega sammála hæstv. fjrh. (JÞ) um það, að landsmönnum beri, eins og ríkinu, að nota afgangsfje sitt sem mest til þess að losa sig við skuldir þær, er á þeim hvíla, og láta framkvæmdirnar heldur bíða uns þær verða ódýrari og hvíla ekki eins þungt á mönnum og nú.

Jeg vil biðja hv. þd. að afsaka þessa ræðu mína. Hún var algerlega óundirbúin. Um brtt. hv. þdm. mun jeg geyma mjer að tala, þangað til hv. flm. hafa gert grein fyrir þeim.