05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Breytingartillögur fjvn. hafa ekki sætt miklum andmælum. Er því ekki margt, sem jeg þarf að segja.

Sem vænta mátti, andmælti hæstv. fjrh. (JÞ) hækkunartillögum fjvn. við 2. gr. fjárlagafrv., en þeim andmælum hefir hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) svarað að mestu, svo að jeg þarf litlu við það að bæta.

Eins og tekið hefir verið fram áður, játa jeg fullkomlega, að hjer sje ekki um neinn gróða að ræða fyrir ríkissjóð. Það, sem því kom mjer til að fylgja þessari till., var það, að reyna að fyrirbyggja, að meiri hækkunartill. kæmust inn frá neðri deild.

Þá eru brtt. einstakra þingmanna og ráðherra á þskj. 447.

Er þá fyrst brtt. frá hæstv. fjrh. (JÞ) um 37666,67 kr. úr viðlagasjóði til jafnaðar við eftirgjafir lána. Þessa brtt. styður nefndin, og þarf því ekki um hana að fjölyrða.

Þá getur meiri hluti fjvn. ekki aðhylst tillögu háttv. 5. landsk. (JJ), að Alþingi fari að taka stöðu af manni, sem búið er að veita honum eftir till. háskólans, og veita hana öðrum. Það er síður en svo, að nefndin meti ekki Guðmund lækni Guðfinnsson mikils, en meiri hl. fjvn. telur ekki rjett að hafa þessi mannaskifti án tillagna háskólans, því að hann lítur svo á, að hart sje að víkja manni úr stöðu, sem hann hefir veitingu fyrir, meðan ekkert liggur fyrir um, að hann gegni henni ekki sómasamlega.

Þá leiðir það af sjálfu sjer, að nefndin er með till. hæstv. dómsmálaráðherra (JM) að taka upp í fjárlagafrv. fje til viðbótarbyggingar á Kleppi, því að það er samkv. þál., sem samþykt hefir verið í báðum deildum, og jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að stækkunin á Kleppsspítala sje eitthvert mesta nauðsynjamál þjóðarinnar, er með engu móti má draga lengur. Mjer er kunnugt um, að sveitarfjelag eitt, sem hefir orðið fyrir því óláni að þurfa að ráðstafa vitfirring, sem ekki hefir komist á Klepp, hefir staðið uppi ráðþrota og sent vitfirringinn hingað upp á von og óvon og honum verið komið fyrir á svonefndum Litla-Kleppi gegn meðgjöf, sem sveitarfjelaginu hefir verið um megn að greiða um lengri tíma.

Þá fellst nefndin og á till. hv. 1. þm. Rang. (EP) um hækkun á styrk til bifreiðaferða austur, eins og jeg við 2. umr. gat um, að hún myndi gera.

Út af brtt. hv. 5. landsk. (JJ) á þskj. 456, þar sem hann leggur til, að aths. um þennan styrk sje breytt, skal jeg taka það fram, að um þetta mál vísast til ummæla háttv. 1. þm. Rang. (EP), að það muni notast betur að styrknum, ef stjórnin hefir hann óskiftan, því að það eru mörg fjelög, sem keppa, og því sennilegt, að hægt verði að komast að betri kjörum, ef samið er við sama fjelagið um allar ferðirnar. Jeg efast ekki um, að stjórnin beri sig saman við sýslumenn hlutaðeigandi sýslna og hlíti þeirra ráðum við úthlutun styrksins, eftir því sem hægt er.

Þá kem jeg að V. brtt. á þskj. 447. Sú athugasemd var samþykt við 2. umr., og þá lýsti hæstv. atvrh. (MG) yfir því, að hann myndi skýra þetta mál fyrir þinginu á einkafundi í sameinuðu þingi. Annars býst jeg ekki við, að stjórnin geri bindandi samninga um þetta mál, nema leggja þá fyrir þingið áður, ef þess er kostur.

Að því er snertir brtt. um hinn væntanlega húsmæðraskóla á Staðarfelli, skal jeg taka það fram, að meiri hl. fjvn. er hlyntur þeim, því að varla er hægt að búast við, að húsmæðraskóli verði settur á stofn með minna tillagi úr ríkissjóði en hjer er gert ráð fyrir.

Þá er nefndin meðmælt fyrri lið brtt. hv. 5. landsk. (JJ) á þskj. 447,VIII, en vildi helst, að háttv. þm. tæki aftur síðari liðinn, athugasemdina; ekki af því, að nefndin sje á móti þessum manni, heldur af því, að hún kann betur við, að stjórnin úthluti styrknum.

Þá hefir nefndin ekki getað orðið með IX. brtt. á þskj. 447, frá háttv. 1. landsk. (SE), um 800 kr. til að gefa út fræðslumálarit. Ekki af því, að hún telji ekki gott, ef hægt væri að styrkja slíkt rit, heldur af því, að hún óttast, að fleiri rit mundu koma í kjölfarið, þó ekki væri á þessu þingi, þá á næsta.

Þá er XI. brtt. á þskj. 447, frá háttv. 5. landsk. (JJ). Jeg er hissa á, að þessi háttv. þm. skuli ætlast til, að farið verði nú að breyta aftur skilyrðum um styrkinn til hjeraðsskólanna. Það lítur ekki út fyrir, að hann búist við, að hv. deildarmenn sjeu fastir í rásinni, þegar hann ætlast til, að þeir kúvendi á ekki lengri tíma en liðinn er síðan þetta var samþykt. Jeg geri ekki ráð fyrir því, og er því ekki hræddur um, að tillagan nái fram að ganga, enda tel jeg það óheppilegt af ástæðum, sem jeg tók fram þá og sje ekki ástæðu til að endurtaka nú.

Um 2. brtt. undir sama lið hefir nefndin óbundin atkvæði. Eins og vitanlegt er, þá lágu fyrir henni margar beiðnir um ferðastyrki, sem hún sá sjer ekki fært að sinna. Að hún gat ekki mælt með þessari till., er ekki fyrir þá sök, að hún sje óánægð með menn þá, sem kennaraþingið hefir valið til að mæta fyrir Íslands hönd á kennaraþinginu í Helsingfors; síður en svo. Hún telur víst, að þeir myndu verða landinu til sóma. En það, sem nefndin óttast, er, að fleiri myndu koma á eftir. Annars telur nefndin æskilegt, eins og hæstv. forsrh. (JM) tók fram, að stjórnin hefði dálitla fjárupphæð til umráða, sem hún mætti veita af ferðastyrki. Það kom til tals í nefndinni, að jafnvel mætti verja af því fje, sem ætlað er til óvissra útgjalda, dálitlu í þessu skyni.

Þá gat nefndin ekki fallist á brtt. hv. 2. þm. G.-K. (BK) um styrk til Þórarins Guðmundssonar; þar sem einu sinni búið er að fella styrk þennan út af fjárlögunum. virðist nefndinni ekki hægt að taka hann upp aftur nú þegar. Hinsvegar skal jeg geta þess, að mjer persónulega er óljúft að mæla móti þessum styrk, því jeg hefði talið gott, ef ráð hefðu verið á að veita hann. Um verðleika Þórarins efast enginn. En það er hjer sem fyr, að fjárhagurinn verður að ráða.

Um brtt. XIII á þskj. 447 — aukinn styrk til sandgræðslu — hafði nefndin ekki tækifæri til að bera sig saman. En jeg fyrir mitt leyti skal taka það fram, að mjer finst öll sanngirni mæla með því, að þessum tveim mönnum á Rangárvöllum, sem nefndir hafa verið, verði veittur dálítill styrkur til að halda við býlum sínum. Um þetta hefir fjvn. vitanlega óbundin atkvæði.

Hæstv. atvrh. (MG) mintist á brtt. hv. 5. landsk. (JJ) um að lækka tillagið til fiskifulltrúans á Spáni. Nægir mjer að mestu að skírskota til þess, sem hæstv. ráðherra sagði um brtt. þessa. En þar sem hv. flm. till. var að vitna í, hve mikið Norðmenn borguðu ræðismanni sínum í Frakklandi, vil jeg benda á, að þar er alt öðru máli að gegna en hjer. Gengi frankans er mjög lágt nú, og fá þeir þar af leiðandi allmikla frankaupphæð fyrir tiltölulega fáar krónur. Aftur á móti er gengi spánska gjaldeyrisins mjög hátt, og þar af leiðandi dýrt að lifa þar. Ílögum um fiskifulltrúann, sem þetta þing afgreiddi, stendur í 3. gr.: „Landsstjórnin ákveður launaupphæðina með samningi, að fengnum tillögum bankanna, og sá hlutinn, sem ríkissjóður á að greiða, skal tekinn upp í fjárlög.“

Þingið hefir því ákveðið, að stjórnin skuli í samvinnu við bankana ákveða launaupphæðina: En jeg býst ekki við, að sú launaupphæð, sem hjer er farið fram á að ákveða, sje ákveðin í samráði við bankana, og gæti þá ekki orðið annað en áætlunarupphæð.

Þá kem jeg að vatnsveitunni í Vestmannaeyjum, sem á svo marga formælendur í þessum sal. Jeg man ekki, hvort þeir eru 4 eða 5, sem hafa risið upp til að mæla með till. þessari, svo jeg býst við, að það hafi litla þýðingu, sem jeg segi. En það er nú svo, að fjvn. getur ekki enn skilið, að Vestmannaeyingar eigi ekki að kosta sjálfir að miklu eða öllu leyti þessa vatnsleit. Nefndin viðurkennir fyllilega, að Vestmannaeyingar eigi mjög örðugt með vatn, og getur því gengið inn á, að þingið styrki þá að einhverju leyti til þess að koma vatnsveitu á hjá sjer. En að þinginu beri skylda til að kosta slíka vatnsveitu að öllu leyti, finst nefndinni fjarstæða.

Út af þeim orðum háttv. 2. þingmanns G.-K. (BK), að öllum landssjóðsjörðum fylgdi annað tveggja, silfurtær lækur eða gott vatnsból, verð jeg að segja það, að þar er hann vel kunnugur, jafnvel kunnugri en í sínu eigin kjördæmi, þar sem hann segist einu sinni aldrei hafa sjeð Grindavík. Annars held jeg, að það sje hálfgerður misskilningur hjá þessum hv. þm., að lækur eða vatnsból fylgi eða hafi fylgt hverri landssjóðsjörð. Að minsta kosti get jeg nefnt eitt dæmi, sem jeg þekki, þar sem vatnsból var ekki gott, en hefir nú verið komið á fullkominni vatnsveitu af íbúunum sjálfum. Á þó landið jörðina. Þetta er á Siglufirði.

Siglfirðingar urðu að kosta sína vatnsveitu að öllu leyti sjálfir, og væri því ekkert samræmi í því, að ríkissjóður kostaði vatnsveitu í Vestmannaeyjum að öllu eða mestu leyti.

Brtt. háttv. þm. Vestm., XIX á þskj. 447, er sjálfsögð úr því að lánsheimildin var samþykt.

Þá verð jeg að minnast á lánsheimildina til stúdentagarðsins. Nefndin hefir lagst á móti henni af því, að henni þykir óráðlegt að byggja garðinn með svo háu láni. Það er ekki svo langt síðan það mál var hafið, að það er ekki von, að nóg fje sje komið. En því minna lán, sem taka þarf, því meira gagn verður að garðinum.

Þá kemur brtt. undir 23. lið á þskj. 447, frá þeim hv. 1. þm. Rang. (EP) og hv. þm. Snæf. (HSteins), um 25 þús. kr. lán til þess að koma upp verslun með heimilisiðnaðarvörur. Þetta kemur mjög flatt upp á mig. Sá flokkur, sem báðir þessir hv. þm. tilheyra, vinnur að því að losa landið við verslun. En nú virðist ekki annað sýnt en eigi að fara að flækja ríkissjóði inn í verslunarbrask fyrir einstaka konu. Og sú verslun á að vera með sömu vörur og nafngreint og gott fjelag hjer í bænum hefir með höndum, og skírskota jeg þar um til orða hv. 6. landsk. (IHB). Jeg vona, að þessi brtt. verði feld.

Þá eru brtt. á þskj. 456. Nefndin treystist ekki til að hafa á móti till. háttv. 1. landsk. (SE) um aukinn styrk til útgáfu kenslubóka handa mentaskólanum. Þegar nefndin bar upp sína till., áleit hún 2 þús. kr. nægja. Nú er það upplýst, að 2500 kr. er það minsta, sem duga mundi. Ef hægt er að fá fyrir þá upphæð kenslubækur í sögu á íslensku, þá má telja henni vel varið.

Þá er brtt. frá tveim nefndarmönnum við 15. gr., nýr liður, styrkur til Guðbrands Jónssonar. Meiri hl. vildi ekki bera hana fram, og eru óbundin atkvæði um hana.

Um brtt. undir 4. lið á sama þskj. er sama að segja og um ferðastyrk til kennara. Hinsvegar hefir nefndin fallist á 5. brtt. á þessu þskj., að veita sjera Guttormi Vigfússyni í Stöð viðbótareftirlaun. Hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir ekkert ofsagt um verðleika hans.

Þá er brtt. um styrk til Byggingarfjelagsins í Reykjavík. Nefndin sjer sjer ekki fært að mæla með henni, enda í vafa um, að hann komi að verulegu haldi. Hagur fjelagsins er ekki góður; það bygði hús á dýrum tíma og á því erfitt. En hitt er mjög vafasamt, hvort svona smástyrkur kemur því að nokkru liði.