05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurður Eggerz:

Jeg ætla strax að færa fjvn. þakklæti mitt fyrir það, hve vel hún hefir tekið brtt. minni á þskj. 456,11, um hækkun á styrk til útgáfu á kenslubókum handa mentaskólanum. Vænti jeg þess, að ekki þurfi að fara frekari orðum um þennan lið, þegar nefndin fylgir honum, og jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. sjái, að hjer er um mjög þýðingarmikið mál að ræða. Aftur get jeg ekki verið háttv. fjvn. mjög þakklátur fyrir afstöðu hennar til brtt. á þskj. 447,IX, um styrk til útgáfu fræðslumálarits. Raunar viðurkendi hv. frsm. (JóhJóh), að þessi styrkur væri nauðsynlegur, og var það þakkarvert, en mjer skildist, að hann ætti að falla af því, að hætta væri á, að farið yrði að styrkja fleiri tímarit, ef þetta yrði styrkt. En eins og kunnugt er, þá er oft gripið til þess að draga hjer upp hræðilegar myndir af afleiðingunum, þegar menn eru sem blóðþyrstastir í að drepa einhverja fjárveitingu. Jeg verð að halda fast við það, að þingið treysti sjálfu sjer til þess að meta hvert tilfelli rjett og velja úr það, sem mest nauðsyn er á. Mjer virðist því, að þó þessu tímariti sje veittur styrkur, þá þurfi það ekki að draga neinn dilk á eftir sjer. Þess vegna er nauðsynlegt fyrst og fremst að athuga það, hvort hjer sje um nauðsyn að ræða. Fyrir þá, sem trúa á gagnsemi alþýðumentunarinnar, er nauðsynlegt og sjálfsagt að fylgja till. Nú er miklu fje varið til alþýðumentunar, en þessi litla fjárveiting gæti hæglega stutt að því, að margfalt meira gagn yrði af því fje, á þann hátt að gera kennurum og öðrum, sem áhuga hafa á kenslumálum, fært að rökræða um þau efni. Ennfremur með því að veita fræðslu um framfarir og nýjar kenningar á sviði fræðslumálanna. Slíkt tímarit sem þetta er alveg nauðsynlegt til þess að halda kennarastjettinni vakandi, þannig, að hún hafi tækifæri til þess að koma hugsunum sínum á framfæri. Þannig getur þessi litli styrkur orðið til þess í raun og sannleika, að miklu meira gagn yrði af því fje, sem veitt er nú til fræðslumála. Jeg skal svo ekki frekar taka það upp, sem jeg sagði um þennan lið við 2. umr. En jeg er sannfærður um það, að hjer er um nauðsynjamál að ræða.

Þá vil jeg minnast á nýja till. á þskj. 447, V, er jeg flyt ásamt hv. 2. þm. S.M. (IP). Eins og mönnum er nú kunnugt, fer þessi till. fram á það, að stjórninni sje falið að leita samninga um skeytasamband við umheiminn frá þeim tíma, er einkaleyfi Mikla norræna ritsímafjelagsins er lokið, enda taki Alþingi fullnaðarályktun um málið. Eins og till. stendur nú í frv., þá er stjórninni heimilað að semja endanlega, án þess að leita samþykkis Alþingis. í raun og veru er það stjórnin, sem beðið hefir fjvn. að bera fram þessa till., og þykist hún með þessu vilja sýna Alþingi kurteisi. Jeg efast reyndar ekki um það, að stjórnin vilji sýna Alþingi kurteisi, en jeg hygg, að hjer búi annað og meira á bak við. Jeg vil halda, að stjórnin hafi viljað fá heimild frá þinginu til þess að gera endanlega samninga við Stóra norræna, og það er þetta, sem jeg álít alls ekki rjett. Jeg tel alls ekki rjett af hinu háa Alþingi að sleppa svo þýðingarmiklu máli úr höndum sjer, sem hjer er um að ræða. Jeg var svo óheppinn, að jeg kom fimm mínútum of seint til þess að heyra byrjunina á ræðu hæstv. atvrh. (MG). En það fyrsta, sem jeg heyrði hann segja, var þetta: að það þyrfti ekki að heimila stjórninni að leita þessara samninga. Það er auðvitað rjett. En hitt skemmir ekki, að það sje tekið fram, að stjórnin hafi þessa heimild, og í henni liggur það, að Alþingi telji nauðsynlegt að hefja þá samninga sem fyrst. (Atvrh. MG. Það er búið að hefja þá). Jæja. Það, sem mjer fanst hæstv. atvrh. (MG) hafa mest á móti till. minni, var þetta, að það gætu komið fyrir þær kringumstæður, að ekki yrði hægt fyrir stjórnina að snúa sjer til Alþingis. En við því er það að segja, að það er svo um ýms stórmál, sem heyra undir löggjafarvaldið, að þau verða að bíða þingsins, og það verður að taka þeim óþægindum, sem af því stafa. Jeg er nú ekki viss um, að hjer þurfi að verða um nokkur óþœgindi að ræða. En þetta mál er svo stórt, að engin stjórn má treysta sjer til þess að ráða því til lykta án þess að spyrja þingið. Hæstv. atvrh. (MG) viðurkendi líka, að hjer væri um verulega stórt atriði að ræða, en ef samið yrði fyrir stuttan tíma í senn, þá væri það ekki eins alvarlegt. En þegar umboðið er gefið eins vítt og í frv. stendur, þá getur stjórnin haft samningstímann eins og hún vill, langan eða stuttan. Og þykist hún munu geta náð sjerstaklega góðum kjörum, ef samið er fyrir lengri tíma, þá getur verið, að Alþingi líti alt öðrum augum á það og telji það óhagstætt. Yfirleitt verð jeg að halda því fram, og leggja mikla áherslu á það, að það sje svo þýðingarmikið mál, hvernig komið verður fyrir skeytasambandi við útlönd í framtíðinni, að ekki geti komið til mála, að Alþingi sleppi samningunum um það úr hendi sjer. Jeg skal taka það fram, að það var byrjað að ræða þetta mál í fyrverandi stjórn, og var fullkomið samkomulag um það, að málinu yrði ekki ráðið til lykta án samþykkis Alþingis. Jeg tel það líka mjög óvarlegt fyrir stjórnina að ráða þessu máli til lykta án þess að bera það undir Alþingi. jafnvel þótt hún teldi sig hafa heimild til þess.

Jeg þykist nú hafa gert grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, og vænti jeg þess, að háttv. þingdeild taki það til alvarlegrar íhugunar, hvort athugasemdir mínar sjeu ekki á rökum bygðar, einkum að því er til stjórnarinnar kemur, því að hjer er um verulega stórt og þýðingarmikið mál að ræða.

Þá ætla jeg að minnast á till. hv. 5. landsk. (JJ) um lækkun fjárveitingar til sendimanns á Spáni úr 10 þús. í 6 þús. kr. Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að sá banki, sem jeg er í, er mjög óþolinmóður yfir því, að þessi maður er ekki sendur. Við höfum rekið okkur á ekki eitt heldur mörg tilfelli, er bæði einstakir menn og landið í heild sinni hefir beðið stórtjón af þessu, og gæti jeg nefnt mörg slík dæmi, ef jeg teldi leyfilegt að draga hjer inn í nöfn einstakra manna. En hæstv. atvrh. (MG) getur vottað, að jeg hefi oft komið til hans til þess að herða á þessu máli, því að við álítum, að það sje hættulegt að hafa ekki mann á Spáni, sem við getum treyst til þess að gefa okkur ýmsar upplýsingar, t. d. hvort þar sje mikill eða lítill fiskur á markaðinum. Þannig verður bankinn oft að vera í vafa og vanda, af því hann vantar upplýsingar um ýms atriði vegna þess, að við höfum engan trúnaðarmann á Spáni. Háttv. 5. landsk. (JJ) rökstuddi þessa till. sína með því, að Norðmenn borguðu ekki meira sendimanni, sem þeir hefðu einhversstaðar á Frakklandi. En jeg verð að leggja áherslu á það, að það er ekki sama, hver maðurinn er. Það þýðir ekki að senda mann, nema hann hafi sjerstaka þekkingu og hæfileika til starfsins. Ef ekkert væri um það hugsað, þá mætti efalaust fá ýmsa menn í sendiför þessa fyrir 6 þús. kr. og að auki tillagið frá bönkunum. En hjer er aðalatriðið, eins og jeg veit, að stjórnin skilur — og jeg er henni þakklátur fyrir það —, að fá færan mann til starfsins En það er ekki hægt að fá færa menn til þess að hafa með höndum þýðingarmikil störf fyrir smápeninga. Það skiftir því litlu, hvort manninum eru borgaðar 5 þús. kr. meira eða minna, þar sem tillögur hans eru svo þýðingarmiklar, að þær geta munað landið ekki um eina miljón kr., heldur um margar miljónir króna á ári. Jeg hefi reynt að setja mig inn í fiskverslunina á Spáni, og jeg hefi sannfærst um það, að það má ekki spara neitt til þess, að menn geti vitað, hvað líður á fiskmarkaðinum, ekki aðeins vegna bankanna, heldur einnig vegna viðskiftamannanna.

Jeg er því ekki í neinum vafa um það, að með samþykt þessa frumvarps um erindreka á Spáni, þá hefir þetta þing afgreitt langþýðingarmestu lögin, sem nú hafa legið fyrir. Og jeg vænti þess, að hæstv. stjórn hugsi ekki um það eitt að fá sem ódýrastan mann til starfsins, heldur þann hæfasta, sem hún álítur, að hún geti fengið.

Loks vildi jeg minnast á till. á þskj. 447,11, um Guðmund Guðfinnsson í sambandi við styrk til augnlæknis. Í fjárlögunum stendur nú aðeins: styrkur til augnlæknis, 1 þús. kr. Jeg vil sjerstaklega gera þá athugasemd, að jeg treysti þeim manni, sem nefndur er í till. hv. 5. landsk. (JJ). mjög vel til þess að hafa þann starfa á hendi, sem þessum styrk fylgir. En hinsvegar álít jeg, að það sje stjórnarinnar en ekki Alþingis að skera úr því, hver skuli fá styrkinn. Jeg vil gera þessa athugasemd um leið og jeg læt þess getið, að jeg mun greiða atkvæði á móti tillögunni. En það er sem sagt alls ekki vegna þess, að jeg vantreysti Guðmundi lækni Guðfinnssyni. Þvert á móti; jeg ber hið fylsta traust til hans.

Jeg vil ennfremur lýsa afstöðu minni til brtt. á þskj. 447,XXIII, þeirrar till., er nú lítur út fyrir, að hv. stjórnarflokkur ætli að klofna um. Það er 30 þús. kr. lán til Halldóru Bjarnadóttur, til þess að koma á fót útsölu á heimilisiðnaði. Jeg tek undir með háttv. frsm. (JóhJóh) um það, að landið eigi ekki að leggja fje í slíka verslun, og það því fremur, sem ríkið er nú að leggja verslun sína sem mest niður. Jeg fæ ekki betur sjeð en að ef þessi styrkur er veittur, þá sje þar með viðurkent, að menn treysti ekki frjálsri verslun til þess að leysa þetta spursmál. Það lítur óneitanlega dálítið undarlega út, ef leysa þarf einhver sjerstök mál, þá snúi þeir sjer til ríkisverslunar. Annars hefir háttv. Íhaldsflokkur löngum verið blendinn í spursmálinu um frjálsa verslun, og má vera, að jeg fái tækifæri til þess að minna síðar á það. En jeg tek það fram, að í þessu máli mun jeg með atkvæði mínu styðja þann helming Íhaldsflokksins, sem styður frjálsa verslun.