02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

113. mál, frestun embættisveitinga og sýslana

Ágúst Flygenring:

það er í raun og veru óþarft að fara að mæla með till. okkar, því innihald hennar er næstum því alveg það sama og hv. þm. Str. (TrÞ) fer fram á með sinni tillögu, nema hvað upptalningu er slept í okkar. Okkur virtist það mjög varhugavert, að í till. hv. þm. eru talin 2 eða 3 embætti, sem við álítum að varla gæti komið til mála að tekin yrðu út. Hinsvegar sáum við, að það eru nokkur önnur embætti og sýslanir í landinu, sem vel gæti komið til mála annaðhvort að nema burtu eða þá að sameina öðrum. Þess vegna höfum við borið fram brtt. þá, er hjer liggur fyrir.

Jeg skal ekki þreyta hv. deild á að ræða frekar um brtt., þar sem jeg strax hefi orðið var við rjettan skilning á henni, og legg þess vegna einungis undir dóm hv. þdm., hvorri till. þeir fylgja.

Með þessari brtt. er tekið yfir alt, þannig að það eigi að hafa vakandi auga á embættum og sýslunum þeim, sem losna. Býst jeg við, að allir geti gengið inn á þetta, þar sem vel flestir eru þeirrar skoðunar, eins og hv. flm. (TrÞ), að það beri að vinna að því að fækka embættum og sýslunum á landinu, að svo miklu leyti sem það skerðir ekki um of þau störf, sem hagnýt eru fyrir þjóðfjelagið, ef þau verða falin öðrum starfsmönnum; en samt má ekki ganga svo langt í þessu efni, að vanræksla hljótist af sökum of mikils annríkis.