11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

128. mál, seðlaútgáfa og önnur bankalöggjöf

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hafði reyndar búist við, að flm. þessarar þáltill. hefðu meira að segja en fram kom við þær stuttu umræður, sem hjer urðu við fyrri umr. þessa máls. Fyrst svo virðist ekki vera, skal jeg leyfa mjer að segja örfá orð. Jeg skal þá fyrst taka það fram, að þó að jeg að vísu álíti ekki nauðsynlegt að skipa slíka milliþinganefnd, og af ýmsum ástæðum æskilegt að hliðra sjer hjá því, m. a. vegna þess kostnaðar, sem af því hlyti að leiða, eftir því verkefni, sem henni er ætlað, þá sje jeg ekki frá stjórnarinnar sjónarmiði ástæðu til þess að setja sig á móti slíkri nefnd. Nú mun svo fara, að frv. um seðlabanka verður ekki útrætt á þessu þingi og bíður því hins næsta, og þó að jeg telji, að stjórnin geti framkvæmt á forsvaranlegan hátt þann undirbúning þess máls, sem enn kann að vera eftir, þá get jeg ekki haft neitt á móti þessum verkaljetti á stjórninni, sem hv. flm. vilja koma fram. Ef þingið finnur ástæðu til þess að taka á ríkissjóðinn þau útgjöld, sem þessu eru samfara, þá hefi jeg ekki á móti því. Viðvíkjandi verkefni nefndarinnar skal jeg benda á það, að jeg álít ummæli till. um það alt of óákveðin og óþarflega víðtæk. Það er talað um, að nefndin skuli íhuga og gera tillögur um, hvernig seðlaútgáfunni skuli hagað, og einnig að öðru leyti undirbúa endurskoðun á bankalöggjöf landsins.

Eins og kunnugt er, hafa þeir bankar, sem starfa hjer, meiri sjerrjettindi en hægt er að veita bönkum með almennri bankalöggjöf. Það hefir oft verið stungið upp á að fjölga bönkum hjer á landi, en það hefir altaf komið upp, að meðan einkabanki, eins og Íslandsbanki, starfar eftir sjerstökum lögum með miklum sjerrjettindum, geta aðrir bankar ekki starfað jafnframt eftir almennri bankalöggjöf. Þetta mun haldast óbreytt þar til leyfistími Íslandsbanka er útrunninn. Fyr þýðir ekki að setja nýja bankalöggjöf. Auðvitað er hægt að setja lög um sparisjóði landsins, en vegna þess Verkefnis álít jeg þó líka ótímabært að skipa milliþinganefnd.

Jeg álít, að fyr en till. í þessu efni frá eftirlitsmanni banka og sparisjóða eru komnar sje ekki tímabært fyrir stjórnina að taka þetta mál til undirbúnings, eða Alþingi að skipa milliþinganefnd í því skyni. En það er eitt sjerefni í bankalöggjöfinni, fyrir utan skipun seðlaútgáfunnar, sem liggur fyrir næsta þingi, og það er tilhögun á veðbankastarfsemi í landinu. Þar stendur svo á, að 4. flokkur veðdeildar Landsbankans mun útseldur næsta ár, svo að það getur ekki beðið lengur en til næsta þings að ákveða um það, hvort auka eigi við veðdeild Landsbankans og umsteypa þá að nokkru leyti löggjöf hennar, að því leyti sem næstu flokka hennar snertir, eða að setja á fót stofnun í líkingu við ríkisveðbankann, sem ákveðið er að stofna með lögum frá 1921, en ekki hefir enn komið til framkvæmda. Þetta er eitt það verkefni, sem jeg get hugsað mjer að slík nefnd geti tekið til athugunar, þótt jeg álíti, að stjórnin einnig gæti undirbúið það fullsæmilega undir næsta þing. Þegar jeg þess vegna hefi ekki beinlínis á móti skipun slíkrar nefndar, þá geri jeg það með það fyrir augum, að það verði þessi tvö ákveðnu verkefni, sem henni er ætlað að undirbúa í hendur stjórnarinnar, þannig að stjórnin geti stuðst við þann undirbúning og lagt fyrir næsta þing, en svo sje það algerlega óbundið, hvort nefndin skuli halda áfram störfum frekar eftir næsta þing.