27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Kjartansson:

Jeg skal ekki þreyta hv. deild með neinum almennum umræðum um fjármálin, eða þá stefnu, sem þar beri að halda. Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) hefir í gær talað ítarlega um frv. fyrir hönd nefndarinnar, og get jeg undirstrikað það, sem hann segir þar um stefnuna í fjármálunum. Hv. 2. þm. Árn. (JörB) fór einnig allrækilega út í þessi mál í dag, og get jeg einnig undirstrikað þau almennu ummæli hans um fjármálastefnuna. Það eru aðeins þær till., sem snerta mig, sem jeg vildi fara nokkrum orðum um.

Vil jeg þá fyrst þakka háttvirtri fjárveitinganefnd fyrir það, að hún hefir lagt til að veita styrk til að reisa sjúkraskýli og læknisbústað í Vík í Mýrdal. Jeg lýsti því í fyrra hjer á Alþingi, hversu bráðnauðsynlegt það væri að byggja þetta sjúkraskýli; þarf jeg ekki að endurtaka það nú, en get aðeins bætt því við, að hjeraðið hefir ekki getað beðið lengur, og hefir því þegar byrjað á byggingunni, og er ætlast til, að henni verði lokið á sumri komanda. Jeg hefi að sjálfsögðu ekkert á móti því, að fjárveitingin sje svo orðuð sem nefndin leggur til, að tiltekin sje ákveðin upphæð, án þess að benda í frv. á ákveðin sjúkraskýli, þar sem nefndin hefir í áliti sínu skýrt frá því, hvaða skýli hún ætlist til að verði reist. Í áliti sínu hefir nefndin tekið fram, að hún ætlist til, að styrkurinn gangi til byggingar sjúkraskýla í Vík í Mýrdal og á Hjaltastað. Jeg er þó hálfhræddur um, að þessi upphæð, 24 þús. kr., sein fjvn. hefir sett, sje og lág. Byggingarkostnaður sjúkraskýlis og læknisbústaðar í Vík er áætlaður 54 þús. kr. og byggingarkostnaður sjúkraskýlisins á Hjaltastað mun vera 27 þús. kr. Er þetta samtals 81 þús. kr. Nú er það föst venja, að ríkið styrki læknishjeruðin að einum þriðja hluta. Yrðu það 27 þús. kr. til beggja hjeraðanna. Jeg vil því skjóta því til hv. frsm. (ÞórJ). hvort það megi ekki skoða þessa upphæð, 24 þús. kr., sem áætlunarupphæð; jeg á við, að ef svo færi, að hún nægði ekki sem 1/3 kostnaðar til þess að koma þessum skýlum upp, hvort þá mætti ekki líta svo á, að stjórninni væri heimilt að fara nokkuð fram úr þessari upphæð. Að sjálfsögðu verður stjórnin að rannsaka alla reikninga vandlega og sjá um, að það sje vel og gætilega á fje haldið.

Jeg skal játa það, sem hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sagði um kostnaðaráætlanir þær, sem legið hafa fyrir fjvn. um byggingar sjúkraskýlanna, að þær kunna að vera fullháar, þar sem alt verkakaup er miðað við kaupgjald hjer í Reykjavík, en eins og kunnugt er, er það mun hærra hjer en úti í sveitum. Get jeg því vel fallist á, að færa megi þessa upphæð lítið eitt niður, en Varla eins mikið og nefndin hefir gert.

Jeg vil beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvort ekki sje tilætlun nefndarinnar, að þessar upphæðir sjeu áætlunarupphæðir. Ennfremur vildi jeg mega skjóta þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvort ekki væri rjett að setja þá athugasemd við þennan lið fjárlaganna, að 2/3 kostnaðar ættu að koma frá hlutaðeigandi læknishjeruðum. Þetta er vitanlega orðin föst regla, en jeg tel samt rjettara, að þessi athugasemd sje sett.

Þá á jeg eina brtt við þennan kafla fjárlaganna. Er hún á þskj. 235.IX, um viðbót til sjúkrahúss og læknisbústaðar á Síðu. Aðaltillagan er samhljóða tillögu, sem jeg flutti hjer í fyrra, sem því miður fjekk þá ekki áheyrn hjá þinginu. Jeg skýrði nákvæmlega frá því í fyrra, hvernig á því stæði, að farið væri fram á að fá þessa uppbót. Gerist því ekki þörf á að fara mörgum orðum um tillöguna nú. Þó verð jeg að skýra nokkuð málavexti.

Í fjáraukalögum fyrir 1923 voru veittar til þessa skýlis 10000 kr. Mun þá hafa legið fyrir einhver áætlun um byggingarkostnaðinn, en sú áætlun mun hafa verið allófullkomin, svo að hún stóðst hvergi nærri þegar á reyndi, sem ekki var nema eðlilegt, því að þar var slept stórvægilegum atriðum, eins og t. d. flutningskostnaði bæði á sjó og landi, uppskipun og flutningskostnaði frá sjó heim á læknissetrið, sem er löng leið. Allir þessir liðir eru svo mikilvægir, að engin furða er, þótt áætlunin hafi ekki staðist, þar sem þeim var alveg slept. Byggingarkostnaðurinn varð alls kr. 39894,83. Jeg hefi því leyft mjer í aðaltill. að fara fram á að fá endurgreiddan 1/3 af því, sem byggingarkostnaðurinn fór fram úr áætlun. En til vara farið fram á viðbótarstyrk að upphæð 2000 kr., og byggi jeg þá tillögu á því, að landlæknir fyrirskipaði ýmsar breytingar á skýlinu, sem höfðu í för með sjer aukakostnað. Hann fyrirskipað t. d., að lögð yrði löng vatnsleiðsla í skýlið, og fleira, sem hann taldi óhjákvæmilegt, en sem valdið hefir aukakostnaði.

Jeg vona nú, að hv. deildarmenn verði við þessari bón og letti á þann hátt undir hina þungu byrði, sem Síðuhjerað verður að bera, af því að sjúkraskýlið fór svo langt fram úr þeim kostnaði, sem búist var við í upphafi. Eins og kunnugt er, mun Síðuhjerað vera eitt af erfiðustu læknishjeruðum landsins, bæði víðáttumikið og ilt yfirferðar, — margar og miklar torfærur víða um hjeraðið. Mælir því öll sanngirni með, að þessi viðbótarstyrkur verði veittur.

Síðastliðið sumar sá jeg sjúkraskýli þessa læknishjeraðs. Er mjög vel frá því gengið að öllu leyti, og hefir hjeraðslæknirinn, sem er mjög góður læknir, áhugasamur og duglegur, sjeð um, að allur frágangur væri sem bestur og fullkomnastur.

Mjer er og kunnugt um, að Læknirinn hefir haft í hyggju að raflýsa bæði sjúkraskýlið og læknisbústaðinn, og taka sjálfur allverulegan þátt í þessum kostnaði. Af þessum ástæðum vil jeg líka mæla eindregið með því, að þessi viðbótarstyrkur verði veittur, því að vel má vera, að hann hætti við þetta áform sitt, ef hann sjer, að Alþingi sýnir ekki þann áhuga og skilning á þessu máli sem skyldi, ef það vill ekki verða við þessari sanngjörnu bón hjeraðsbúa.

Það þarf tæplega að taka það fram, að hjerað þetta á við erfiðleika að stríða fjárhagslega. Sjúkraskýlið var bygt á erfiðum tíma, og urðu hjeraðsbúar þess vegna ver úti en ella hefði orðið. Það situr með allháa víxla. og það þekkja hv. deildarmenn, að ekki eru hagkvæm lán.

Að jeg hefi ekki komið með fleiri fjárbeiðnir en þessa fyrir mitt kjördæmi, er ekki fyrir þá sök, að jeg hafi ekki verið beðinn um að flytja fleiri, heldur af þeirri orsök, að jeg vil ekki skeika frá þeirri stefnu, sem tekin var hjer á Alþingi í fyrra, að afgreiða gætileg fjárlög. En hjer var um brýna nauðsyn að ræða. Og jeg get fullvissað hið háa Alþingi um, að verði tillaga þessi ekki samþykt nú, þá kemur hún aftur á næsta þingi, og ef ekki nær samþykki þá, þá kemur hún á þar næsta þingi, og svo áfram þar til hún nær samþykki hv. Alþingis. En jeg vona, að hv. deildarmenn styðji hana nú, svo að hún þurfi ekki að koma fram aftur.

Þá vil jeg þakka háttv. samgöngumálanefnd fyrir þann rjetta skilning, sem hún hefir sýnt á nauðsyninni á samgöngubótum við hafnlausu sýslurnar hjer á Suðurlandi, Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, með því að mæla með því, að veittur verði lítilsháttar styrkur í því skyni að fá einu sinni á ári vöruskip upp að söndunum með sama farmgjaldi og á aðrar hafnir landsins. Jeg vil f. h. kjósenda minna, V.-Skaftfellinga, þakka háttv. samgmn. og fjvn. fyrir góðar undirtektir í þessu velferðarmáli, og vona, að háttv. Alþingi styrki framvegis samgöngur í þessu skyni.

Einnig finn jeg ástæðu til að þakka háttv. samgöngumálanefnd fyrir, að hún leggur til, að styrkurinn til flóabátanna verði hækkaður úr 70 þús. kr. upp í 83 þús. En samt sem áður held jeg, að hún hafi ekki gengið nógu langt í þessu efni, og væri því fús til að hjálpa henni, ef henni sýndist svo að taka skrefið lengra.

Aðrir en jeg sest niður vil jeg undirtrika þá tillögu háttv. fjvn. í sambandi við fjárframlag til byggingar nýrra vita, að leggja mest kapp á að koma upp landtökuvita á Dyrhólaey, því að jeg þori að fullyrða, að hvergi er meiri nauðsyn að koma upp vita en þar. Á hverju ári verða fleiri og færri skipströnd á söndunum, sem flest stafa af því, að landtökuvitann vantar. Skip, sem koma frá útlöndum, geta ekki áttað sig á landinu, af því að góðan landtökuvita vantar. En viti sá, sem er á Dyrhólaey, er svo lítill, að hann nægir alls ekki. Telja sjómenn hann gagna lítið. Jeg vil því leggja mikla áherslu á, að þarna verði hið allra bráðasta bygður góður og fullkominn landtökuviti, og þó að það verði ekki gert alt í einu, má vel byrja á bygginguni á næsta ári.