27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1926

Ingólfur Bjarnarson:

Það er aðeins eitt atriði í áliti hv. samgmn., sem jeg vildi athuga lítið eitt.

Hv. nefnd ætlast til þess, að Eyjafjarðarbáturinn verði jafnframt látinn ganga til Flateyjar á Skjálfanda við og við.

Jeg skal viðurkenna, að þessi tilhögun mun bæta allmikið úr því samgönguleysi, sem Flateyingar hafa átt við að búa.

Árið 1923 mun Esja hafa komið fjórum sinnum við í Flatey, en þó að þetta sjeu vitanlega alt of fáar viðkomur, þá fjellu þær alveg niður á síðastl. ári, af ástæðum, sem mjer eru óskiljanlegar, einkum þegar þess er gætt, hversu lítilli töf skip verða fyrir vegna viðkomu í eynni, þar sem leið þeirra liggur alveg hjá henni öðru hvoru megin.

Á uppkasti til ferðaáætlunar Esju, er Eimskipafjel. Íslands hefir sent hv. samgöngumálanefnd, munu hafa verið áætlaðar 4 viðkomur í Flatey. Jeg hefi átt tal um þetta mál við hv. samgmn. og bent henni á, hversu svo fáar viðkomur væru gersamlega þessu hjeraði, sem engra annara samgangna nyti, ófullnægjandi og hinsvegar, hversu lítið það kostaði að láta skipið koma þarna við, þar sem það væri enginn krókur, heldur þyrfti það aðeins að stöðvast skamma stund, og að sjálfsögðu væri ekki til þess ætlast, að það biði eftir afgreiðslu, ef veðrið bannaði hana.

Fanst mjer hv. nefnd taka þessum upplýsingum mínum vel og af góðum skilningi, og bjóst jeg við því, að hún mundi fjölga viðkomum skipsins í eynni, en því meira furðaði mig að sjá áætlun Esju, sem nú er prentuð, þar sem viðkomunum í Flatey er fækkað niður í 3.

En till. sú, sem hjer er gerð að umtalsefni, bætir aftur á móti dálítið úr samgönguleysi Flateyinga, og get jeg verið hv. nefnd þakklátur fyrir hana, úr því sem komið er.

Þó vil jeg benda á það, að þá fyrst kæmu þessar bátsferðir Flateyingum að verulega góðu liði, ef báturinn yrði við og við látinn ganga alla leið til Húsavíkur.

Að vísu veit jeg ekki, hvort þessu verður komið við með því tillagi, sem jeg sje, að hv. nefnd hefir hugsað sjer, að veitt verði til þessara bátsferða.

Jeg vildi aðeins lýsa yfir því, að jeg teldi það bæta stórum meira úr samgönguvandræðum eyjarskeggja, ef báturinn væri látinn fara alla leið til Húsavíkur, þótt ekki væri nema við og við.

Vildi jeg gjarnan heyra undirtektir hæstv. atvrh. (MG), hvort hann telur fært að styðja að því, að ferðum bátsins verði svo hagað, að eitthvað væri með þeim bætt úr samgönguvandræðum Flateyinga.

Úr því að jeg er staðinn upp, vildi jeg nota tækifærið til að mæla með brtt. fjvn. um Vaðlaheiðarveginn, þó að það sje í rauninni óþarfi, þar sem hv. frsm. (ÞórJ) hefir skýrt það mál svo rækilega og þar sem bæði hv. 2. þm. Rang. (KIJ) og hæstv. atvrh. (MG) hafa tekið brtt. mætavel og lýst hinni miklu þörf, sem er á þessari vegagerð.

Leyfi jeg mjer að undirstrika orð þeirra, t. d. þá umsögn hæstv. atvrh., að á síðastl. sumri mátti vegur þessi oftast teljast ófær á löngum kafla. Nú er það flestum þm. kunnugt, að þarna er afarmikil umferð og sífeldur ferðamannastraumur, einkum á sumrin, svo að jeg hygg, að það muni marga daga nema hundruðum. Þar við bætist svo flutningsþörf þeirra, sem austan við heiðina búa, þar sem svo hagar til, að alt verður að flytja á klökkum bæði sumar og vetur. En þörf á þessum vegi er viðurkend fyrir löngu, bæði af landsstjórn og þingi, svo að jeg hygg óþarfa að fjölyrða um það mál, og því síður, sem tillagan hefir mætt svo hlýlegum undirtektum.