27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. 2. þm. Árn. (JörB) lýsti eftir tillögu frá stjórninni um fækkun starfsmanna ríkisins. Sagði hv. þm., að sjer hefði ekki þótt sanngjarnt að krefjast þess, að slík till. kæmi fram fyr en á næsta þingi. Það hefir áður í umr. hjer verið ymprað á þessu sama. Út af þessu vildi jeg taka það fram, að það færi vel á því, að þeir þm., sem þessa vænta, komi til stjórnarinnar og gefi upplýsingar um, hverjum starfsmönnum fækka mætti í þeirra kjördæmi. Jeg segi þetta ekki einungis til þeirra, sem talað hafa, heldur allra, sem vænta þess, að stjórnin undirbúi slíkar tillögur.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vildi ekki framlengja verðtollinn, og furða jeg mig ekkert á því, eftir stefnu þess manns í skattamálum. Hann sagði, án þess þó að rökstyðja það nánar, að verðtollurinn væri mjög orsök dýrtíðar nú. Jeg hefi heyrt þetta áður og athugað það og sannfærst um, að það er á litlum rökum bygt. Þótt einstaka nauðsynjavörur falli undir tollinn, þá eru það einkum vörur, sem lítið er notað af, og gætir hans því lítið í almennum framfærslukostnaði. Það þarf ekki annað en líta á tekjur af tollinum í samanburði við aðra skatta til ríkis og sveitarfjelaga, þá gætir verðtollsins lítið, og síst þess hluta hans, sem á nauðsynjavöru liggur.

Ef leita á að orsök dýrtíðarinnar í tekjulöggjöf ríkisins, þá er heldur á það að líta, að gjöld eru orðin býsna há, og upphæð gjaldanna í heild hefir áhrif á verðlag í landinu. Það er ekki rjett að skella þeirri sök á verðtollinn.

Þá gerði hann samanburð á afstöðu minni til aðstoðarlæknis á Ísafirði og aðstoðarmanns hagstofunnar og fanst þar kenna munar. Það er rjett. En munurinn byggist á því, að annar situr í stöðu sinni og rækir hana, en hinn vildi ekki taka við starfinu. Jeg tel rjett, að þeim manni, sem rækir starf sitt, sjeu greidd þau laun, er honum ber. En hitt hefir ekki einu sinni hv. 2. þm. Reykv. farið fram á, að skrifstofustjóra landsverslunarinnar sjeu einnig greidd laun sem aðstoðarmanni hagstofunnar.

Hann gerði sjer ennfremur ekki vonir um, að opinberar framkvæmdir yrðu auknar mikið á mörgum árum.

Jeg skal ekki segja um, hvernig fer. En ef menn viðurkenna þetta rjett, þá er ekki hægt að koma því í verk, nema búa sig undir á góðu árunum; fara sjer hægt um framkvæmdir á góðum árum og koma upp í landinu nægilega öflugum seðlabanka, sem getur lagt fyrir nóga innieign í erlendum gjaldeyri á góðu árunum, til þess að framkvæmdir geti átt sjer stað á vondum árum án þess að greiðslujöfnuður hindri.

Út af þeim brtt., sem hjer liggja fyrir frá minni hl. fjvn. og einstökum þm., skal jeg ekki mikið segja. En samkvæmt því, sem áður er sagt um hag ríkissjóðs, þá verð jeg yfirleitt að tjá mig mótfallinn þeim hækkunum, sem nefndin sjálf hefir ekki tekið upp.

Hæstu útgjaldaliðirnir, sem einstakir þm. fara fram á, eru til landsspítala 150 þús. kr. og til heilsuhælis á Norðurlandi 75 þús. kr. Um þessar till. verð jeg að segja, að tekjuhlið fjárlaganna leyfir ekki slík útgjöld. Jeg gæti vel gert nánari grein fyrir því, að eftir að fjvn. hefir hækkað áætlaðar tekjur um 930 þús. kr., þá er þess ekki að vænta, að 2. gr. fjárlaganna, sem er aðaltekjugreinin, gefi meiri afgang en þann, sem þarf til þess að standast greiðslur utan fjárlaga, sem altaf koma fyrir. Jeg skal í því sambandi geta þess, að árið 1923 voru tekjur eftir þessari grein, ef alt er talið, um 7% milj.

Eftir till. fjvn. verða þessar tekjur áætlaðar 9 milj. 172 þús. kr., eða 11/2 miljón hærri en 1923. Þessa 11/2 miljón getum við vonast eftir að fá eftir þeim breytingum á tekjulöggjöfinni, sem síðan hafa verið gerður. En fyrir óvæntum útgjöldum er þá ekki annað eftir en það, sem tekjur kunna að vaxa fyrir betra árferði. En þessi afgangur þarf að verða 15% af upphæðinni, eða 11/2 milj.

Við getum því ekki gert ráð fyrir, að ráðstafa megi meiri tekjum en þeim, sem fjvn. leggur til. Það er þess vegna annaðhvort að gera, að standa af sjer þessar algerlega fjettmætu kröfur eða sjá fyrir fje á annan hátt. Og jeg hefi hugsað mjer, að það mætti takast, ekki með lántökum, sem verður að álítast mjög óheppileg leið til framkvæmda fyrirtækjum, sem ekki gefa arð. En ríkissjóður á eign, sem mætti nota, og það er varasjóður landsverslunarinnar. Ef menn vilja, að það fyrirtæki sje dregið saman eða látið hætta, þá er mögulegt að fá þaðan fje. En það þýðir sama og að láta steinolíuverslunina hætta, eða draga hana mikið saman.

Það tjáir ekki að treysta innieign ríkissjóðs í landsversluninni, sem er nú 675 þús. kr., og í fjárlagafrv. 1926 er gert ráð fyrir endurgreiðslu þaðan, sem nemur 175 þús. kr. Það er síðasti liðurinn í tekjuhlið frv. Og það má búast við, að 1925 þurfi að taka til meiri hlutans eða allrar þeirrar 1/2 milj., sem þá er eftir óráðstafað af þeirri skuld.

Jeg er þess vegna á því, að mögulegt sje að láta af hendi fje til spítalabygginga, ef menn vilja fallast á að taka það úr þessari átt, og það má gera með ákvæðum í fjárlögum eða án þess. En meðan engin slík till. liggur fyrir, get jeg ekki annað en greitt atkv. á móti þessum fjárveitingum. Það þýðir ekki að draga í efa nauðsyn þessara framkvæmda, enda hef jeg bent á færa leið, ef menn vildu taka fje úr þeirri átt.