28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi gerst flm. þessa frv. fyrst og fremst vegna þess, að jeg vil, að sunnudagurinn verði hvíldardagur og breyting verði frá því, sem nú er, þar sem stundum virðist svo, sem menn geri sjer leik að því að láta vinna á sunnudögum. Þó að jeg sje flm., þá er jeg samt ekki ánægður með öll ákvæði frv. og hefi skrifað undir með fyrirvara. Jeg hefði kosið sterkari ákvæði um friðun sunnudagsins. Eftir þessu frv. er það tæplega nema tímabilið frá kl. 11–4, sem ekki má vinna. Jeg mun nú ekki lengja umr. mikið að þessu sinni, en jeg mun e. t. v. koma fram með brtt. til 3. umr. Út af ummælum hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) vil jeg segja það, að það var leiðinlegt, að hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra (JM) skyldi ekki hlýða á hann. Hann lagðist á móti frv. af miklum móði og las upp gömlu lögin grein fyrir grein og fullvissaði deildina um það, að þær hefðu allar verið þverbrotnar. Þetta er gott fyrir hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra að heyra, svo hann geti gert tilraunir til þess að sporna við því, að þessi lög verði svona herfilega brotin í framtíðinni. Hv. þm. sagði, að það væri verslað með vín á helgum dögum, fundir haldnir, skemtanir, markaðir o. s. frv., og aldrei kæmi það fyrir, að sektað væri fyrir slíkt. Þetta skilst mjer, að stafi af slælegri framkvæmd laganna, og væri ástæða til þess að biðja hæstv. dómsmálaráðherra að koma inn í deildina og láta ljós sitt skína, þegar lögreglustjórar landsins eru bornir svona þungum sökum. Annars eru gömlu lögin að sumu leyti strangari en þetta frv., eins og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir bent á. En alla ólukkuna við framkvæmd þessara laga hafa lög nr. 19 frá 1897 gert. En þar er sem sje heimilað að ferma og afferma skip á helgum dögum. Þau á að nema úr gildi samkv. þessu frv., því að tímarnir eru svo breyttir. Upphaflega hafa þau verið sett vegna þess, að við rjeðum engu um gufuskipasamgöngurnar við útlönd. Okkur voru því settir þeir kostir að afgreiða skipin hvenær sem þau komu. Nú sje jeg að hæstv. dómsmálaráðherra (JM) er kominn inn í deildina; jeg býst nú við, að honum hafi verið flutt ræða hv. 2. þm. N.-M., og væri gott að heyra álit hans um þessi herfilegu lögbrot, sem hjer hefir verið lýst. Má og vænta þess, að hann geri ráðstafanir til umbóta, ef þetta frv. verður samþykt, og leggi fyrir lögreglustjóra landsins að framfylgja þessum lögum betur en hinum gömlu.