01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í C-deild Alþingistíðinda. (2636)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Það er ekki undarlegt, þó að nú sjeu hafðar langar umræður um mál sem þetta, við 2. umr., þar sem það var látið fara umræðulaust gegnum deildina við 1. umr. Annars hefði jeg óskað, að meðhaldsmenn frv. hefðu tekið til máls, svo að jeg þyrfti ekki að endurtaka það, sem hv. frsm. minni hl. (JakM) sagði áðan, en það hefir enginn staðið upp til að andmæla ræðu hans, og því erfitt að tala um málið, án þess að endurtaka eitthvað af því, sem hann hefir sagt.

Jeg skal þá byrja á því, að hv. meiri hl. byggir talsvert á því í nál. sínu, að það hafi verið skoðun landsmanna um nokkuð langt árabil, eða öllu heldur síðan Íslandsbanka var fyrirlagt að sleppa útgáfurjettinum, að þá ætti útgáfurjetturinn að falla til Landsbankans. Mjer er óhætt að segja, að þessi skoðun byggist á því, að haldið hefir verið mjög eindregið fram, einkum í árásargreinum á Íslandsbanka, að seðlaútgáfan væri svo mikils virði, að óhæfilegt væri að láta hana í hendurnar á einkabanka. En jeg fullyrði, að hingað til sjeu engin rök færð fyrir því, að seðlaútgáfan hjer á landi, eins og til hagar, sje nein gullnáma, nema því að eins að hún sje notuð öðruvísi en heppilegt er og nauðsynlegt fjármálalífinu hjer.

Þetta, að seðlaútgáfurjetturinn sje mikils virði fjárhagslega sjeð, fyrir sambandið, sem hann hefir, er villukenning, og fólkið trúir þessu, af því að því hefir ekki verið andmælt. Hjer hefir almenningur bygt á skakkri skoðun, og þess vegna hefir verið talið sjálfsagt af öllum þorra landsmanna, að Landsbankinn fengi seðlaútgáfuna.

Við sjáum nú það, að þann tíma, sem Íslandsbanki hafði seðlaútgáfurjettinn, — ýmist til þess að græða fje eða koma sjer úr klípu, — þá var seðlaútgáfan peningavirði, en ef seðlaútgáfan er rekin skynsamlega, þá er hún ekki fjármunalegur stuðningur þeim banka, sem hefir hana. Þess vegna er öllum óhætt að álykta sjálfstætt um seðlaútgáfuna, menn þurfa þar ekki að taka tillit til Landsbankans, því að seðlaútgáfan verður honum hvorki gullnáma nje hjálparhella.

Önnur ástæða, er meiri hluti nefndarinnar færir fram fyrir sínu máli, og sú veigamesta, er sú, að sjerstök stofnun, er aðeins hefði seðlaútgáfu með höndum, eða þá lítið annað, muni ekki vera nógu sterk til þess að hafa viðunandi tök á peningamálum þjóðarinnar. Meiri hluti nefndarinnar heldur því fram, að banki með t. d. 3 milj. kr. seðlaveltu muni vera svo máttlaus, að hann hafi engin tök á viðskiftalífinu. En þetta hefir hv. frsm. meiri hl. (MJ) ósannað með skírskotunum sínum til starfsemi seðlabanka á Norðurlöndum. Hann gat þess, að viðskiftavelta seðlabanka á Norðurlöndum væri ekki nema 1/10–1/11 af viðskiftaveltu allra bankanna þar. Hann taldi veltufje Íslandsbanka og Landsbankans 85 miljónir króna. Ef seðlabankinn hefði 8 milj. kr. í veltu, er það viðlíka að hundraðstölu og seðlabankar á Norðurlöndum hafa, í hlutfalli við viðskiftaveltu og veltufje þar. Á Norðurlöndum er vanalega 58–60% af veltufje seðlabankanna seðlar, en hitt annað starfsfje. Jeg hygg, að ekki liði á löngu, þangað til seðlabanki hafi viðlíka veltu í samanburði við aðra banka hjer, sem aðrir seðlabankar á Norðurlöndum hafa í hlutfalli við aðra banka þar. Það er því síður en svo, — þegar litið er á skýrslu hv. frsm. meiri hl. (MJ), — að seðlabanki hjer yrði máttarminni í viðskiftalífi Íslendinga heldur en aðrir samskonar bankar erlendir.

Menn verða að minnast þess, að flestir seðlabankar starfa með fje, sem að einhverju leyti er tekið með ábyrgð ríkisvaldsins í hinum einstöku löndum. Og hvað er eðlilegra, ef lán er tekið, til hjálpar atvinnuvegunum, en að seðlabanki taki það, en ríkissjóður ábyrgist? Ríkissjóður er nú þegar í stórum ábyrgðum fyrir báða bankana hjer, líklega um eða yfir 12 milj. kr.

Það er ekki venja erlendis, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir einkabanka, þó getur það komið fyrir um tiltekinn tíma, ef bankar eru að þrotum komnir, eins og t. d. átti sjer stað í Danmörku. En út af því er nú risin misklíð, þar sem talið er, að ríkisábyrgðin fyrir þennan banka (Landmandsbanken) sje til skaða fyrir heilbrigt fjármálalíf í landinu. Og þá er það víst, eins og minni hl. nefndarinnar heldur fram, að seðlabankinn yrði ekki máttarminni en seðlabankar í öðrum löndum, heldur tiltölulega sterkari.

Hv. þm. N.-Þ. (BSv) hefir sagt, og það er öllum kunnugt, að bankarnir hjer eiga lítið fje og hafa ekki úr miklu að moða. Þetta er eðlilegt. Landsbankinn er stofnaður, ef svo má segja, með tæplega 2 milj. kr. tillagi úr ríkissjóði. Íslandsbanki hefir talsvert meira fje, þar sem hlutafje hans er 4½ miljón. Þessir bankar eru því engan veginn sterkir fjárhagslega, því varla munu þeir hafa aðrar eignir, svo sem varasjóði, efasamt, hvort ekki er tapað meiru eða minna af öðru eignafje þeirra.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) komst að þeirri niðurstöðu við umr. um einkabankann, að sá banki stæði eins vel að vígi og hinir bankarnir, þótt hann fengi engin sjerrjettindi og væri skattskyldur. Þó er vitanlegt, að sá banki hafði eigi nema hlutafje sitt í byrjun; hlutafje, er af mörgum er áætlað eigi meira en 2 milj. króna í byrjun. Af þessu er ljóst, að þessi hv. þm. (ÁÁ) álítur, að Íslandsbanki og Landsbankinn sjeu ekki sterkir.

Ef bankarnir væru svo sterkir, að þeir þyrftu ekki á „rediskonteringu“ að halda, og heldur ekki lánum, sem fengin eru með tilstyrk ríkissjóðs og á hans ábyrgð, þá væri engin ástæða til þess fyrir seðlabanka að taka í taumana. En jafnskjótt og hinir bankarnir þurfa á „rediskonteringu“ að halda, tekur hann í taumana, og það getur hann ekki síður, ef hann er laus við beina útlánsstarfsemi.

Því hefir verið haldið fram, að bankastjóra þeirra banka, er ekki lána fje beint, muni skorta kunnugleik á atvinnufyrirtækjunum og fjárhagslegri aðstöðu þeirra manna, er við atvinnurekstur fást.

Þetta er eðlilegt í stórum löndum, að bankastjórar geti ekki fylgst með öllum stærri viðskiftum. En er þetta heimtað af þeim annarsstaðar? Nei, síður en svo. Og bankar hjer geta vel fylgst með öllu því, er gerist í atvinnulífi þjóðarinnar, enda þótt þeir reki ekki útlánsstarfsemi beint við atvinnurekendur. Það þarf enginn maður að segja þeim, er eitthvað hafa fengist við bankastörf, enda þótt í smærri stíl sje, að ekki sje hægt að fá vitneskju um öll meiri háttar fyrirtæki í landinu og afkomu þeirra. Það er ljettara hjer að fá upplýsingar um ástæður manna um land alt, heldur en í einni meðalstórri borg erlendis. Af þeirri ástæðu er því engin þörf á að tengja seðlaútgáfu við sparisjóðsstarfsemi og beina útlánsstarfsemi.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) benti á það, að óhætt væri að auka seðlaútgáfuna, þó eitthvað bæri út af, og nefndi í því sambandi Bank of England, sem jók seðlaútgáfu sína 1847 og 1866 langt umfram það, sem lög heimiluðu. En þetta sannar ekkert um hans mál. Bank of England gerði þetta ekki til þess að bjarga sjálfum sjer. Árið 1847 jók hann seðlaútgáfuna til þess að bjarga 5 bönkum, er „spekúlerað“ höfðu of mikið í járnbrautum og uppskeru í öðrum heimsálfum. Árið 1866 gerði hann það til þess að bjarga þá hinu stóra bankafirma, er ráðist hafði í „spekúlation“ í Ameríku og Afríku. En vegna þess, að Bank of England var ekki almennur viðskiftabanki, og enginn maður trúði því, að hann gæti tapað, var á þennan hátt stöðvuð fjárhags-„panik“. En það má benda á annað dæmi um það, hve hættulegt getur orðið að ætla sjer að stöðva „panik“ gegn seðlabanka. Það er dæmið um John Law og fjármálapólitík hans í Frakklandi, á árunum 1716–1720. Þegar komið var í óefni, ljet Law gefa út nýja og nýja seðla, þangað til þeir voru ekki nema 1% virði af nafnverði sínu, — enda hrundi þá spilaborgin.

Fleiri dæmi mætti nefna um það, hve hættulegt er fyrir seðlabanka að gefa út seðla til þess að hjálpa sjálfum sjer. En dæmið um Bank of England sýnir aðeins það, að það er hættulítið að gefa út seðla fram yfir það, sem lög leyfa, ef fult traust er á því, að seðlabankinn sjálfur geti ekki bilað, og það er best trygt með því, að hann ekki taki beinan þátt í útlánum.

Þá er það enn eitt, sem meiri hluti nefndarinnar heldur fram, að eins og minni hlutinn hefir hugsað sjer fyrirkomulag bankans, þá geti hann eigi haft hemil á genginu, eins og nauðsynlegt sje. Mjer þætti vænt um, ef hv. meiri hluti gæti bent mjer á einn einasta seðlabanka, sem hefir getað það. Mjer er ekki kunnugt um, að seðlabankar hafi lagt fram neitt verulegt fje til þess að halda uppi gengi. Jeg hygg, að það einasta, sem slíkir bankar geri til að reyna að halda uppi gengi, sje það að haga útlánsstarfsemi og vaxtapólitík með hliðsjón af ástandinu, og í því getur seðlabanki, þótt eigi hafi hann annað veltufje en seðla, fengið þau tök á hinum bönkunum, að hann geti látið þá beygja sig.

Það verður hver að játa, að seðlabankar eru máttlitlir gegn gengissveiflum. Erlendis hafa þeir í sumum tilfellum fengið ábyrgð ríkisvaldsins fyrir tugum og jafnvel hundruðum miljóna kr., til þess að hjálpa við genginu. Sumt af þessu fje hefir eyðst, án þess að tilganginum væri náð. Þetta vita allir.

Hv. meiri hl. leggur mikið upp úr umsögn erlendu bankastjóranna. Það neitar því enginn, að þeir beri skyn á peningamál, en hvernig ættu þeir að vera kunnir staðháttum hjer? Jeg efast um, að þeir hafi fengið nógar upplýsingar um okkar aðstöðu hjer, til þess að geta dæmt um málið. Og það er ekki undarlegt, að þeir skuli viðhafa hálfkveðin orð, — t. d. að það megi reyna þetta fyrirkomulag á Íslandi, fyrirkomulag, sem ekki hefir verið reynt hjá þeim.

Aðalbankastjóri Finnlandsbanka segir svo:

„Spurningu yðar um mitt álit mundi jeg svara svo, að það mundi vera eiginlegra og meira í samræmi við reglurnar um eðli seðlabanka, að þeir reki ekki innlánsstarfsemi. Finnlandsbanka hefir t. d. verið sett þessi regla, en hann er eini seðlabankinn í voru landi. Finnlandsbanki greiðir enga vexti af innstæðum. Samt sem áður getum við ekki fullyrt, að það þurfi að gera seðlabanka nokkurn skaða, þótt hann starfi jafnframt með innlánum ....“

Eru þetta meðmæli, má jeg spyrja?

Bankastjórinn segir ennfremur:

„Þar sem lítið er umleikis og nauðsynlegt er að forðast með öllu móti ónauðsynlegan kostnað, þar sýnist einkum gerlegt, með hliðsjón af því, sem áður er athugað, að fela seðlabanka að reka jafnframt innlánsstarfsemi. Þannig hefir þessu verið fyrir komið í mörgum hinum yngri ríkjum Norðurálfunnar; hefir t. d. ríkisbanki Svía einnig rjett til að taka við innlánum gegn vöxtum. Reyndar hygg jeg þó, að hann noti ekki þennan rjett.“

Þetta er nú eitt af þeim glæsilegu meðmælum, sem hjer er talað svo mikið um, og öll okkar afstaða til málsins á að byggjast á. Svarið er mjög tvírætt. Maðurinn vill ekki ráðleggja þetta fyrirkomulag; hann heldur, að það sje hættulegt. Það er eins og hver varfær maður mundi segja við annan, sem ætlar að ráðast í stórfyrirtæki: „Þetta er óreynt fyrirkomulag. Það er ekki víst, að þú tapir, en ekki líst mjer á það.“

Hæstv. fjrh. (JÞ) var ekki — og það þótti mjer vænt um, — sammála meiri hluta bankanefndarinnar, um sparisjóðsstarfsemina. En þar vildi hann þó ekki óskorað telja innlánsfje með sparisjóðsfje, og er það þó gert í frv. Þar er sagt svo: Sparisjóðsdeildin tekur við fje sem innláni með sparisjóðsvöxtum. (Fjrh. JÞ: Og seðlabankadeildin líka). Ef hæstv. fjrh. (JÞ) álítur það í alla staði forsvaranlegt og áhættulaust, að taka við innlánsfje í þá deild bankans, sem hefir almenn sparisjóðsviðskifti og útlánastarfsemi, hversu miklu meiri hætta væri þá ekki að taka við slíku fje í seðladeildina. Jeg er ekki viss um, nema leyfa megi, án áhættu, að seðlabanki veiti hluta af hlaupareikningsfje bankanna móttöku gegn lágum vöxtum. Það myndi ljetta fyrir þeim að eiga erlenda „Valutu“ í bönkum erlendis. En þar fram yfir vil jeg ekki, að seðlabanki starfi með innlánsfje.