01.05.1926
Neðri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í C-deild Alþingistíðinda. (2640)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Hv. þingdeildarmenn vita, hvernig fer, þegar lamið er í ullarbing. Það kemur dæld, þar sem barið er, en svo bólgnar bingurinn upp á öðrum stað. Líkt þessu er að eiga orðastað við formælendur þessa máls. Eins og allir vita, sem lesið hafa nál. og fylgst með í umræðunum, hefir það einkum verið haft á móti sjerstökum seðlabanka, að hann yrði of veikur, hinir bankarnir yrðu honum of jarlar. Svo þegar jeg fer að vefengja þetta, þá verður bankinn alt í einu of sterkur. Nei, það, sem gerir varhugarvert að fela Landsbankanum seðlaútgáfuna, er það, að hann tekur sjálfan sig aldrei kverkataki. Ef seðlabankinn ekki neytir máttar síns til að láta banka með almennum viðskiftum fara eftir reglum, sem hann telur nauðsynlegar, þá kemur ekki til mála, að bankarnir geri það.

Jeg held því fram, að seðlabankinn geti verið nægilega sterkur til þessara hluta, og þar styðst jeg við meiri hl. sænsku bankanefndarinnar, sem staðhæfir, að seðlaútgáfan sjálf geti verið fullnægjandi í þessu efni. Háttv. þm. N.-Ísf. (ÁÁ) var óánægður yfir því, hvernig jeg notaði Cassel. Jeg varð ekki var við, að hv. þm. leiðrjetti neitt hjá mjer. En hann fór ekki rjett með, því hann sagði, að Cassel væri einn með þessa afstöðu. En hjer stendur í áliti minni hl. bankanefndarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftur á móti skiftist meiri hl. nefndarinnar í tvent um það, hvort leyfa ætti ríkisbankanum að taka á móti fje frá almenningi gegn vaxtagreiðslu. Þrír af nefndarmönnunum vildu ekki gefa samþykki sitt til þess o. s. frv.“

Hjer er þá ekki um Cassel einan að ræða, heldur eru tveir aðrir í nefndinni sömu skoðunar. En þó að þessi ágæti maður hefði nú verið einn um þessa skoðun, situr illa á hv. þm. (ÁÁ) að gera lítið úr skoðun hans, þar sem hann vitnar í hann sjer til stuðnings í sambandi við annað mál. Jeg veit ekki betur en hv. þm. (ÁÁ) ætli að færa sínum málstað til inntekta skoðun Cassels í máli, sem hann hefir staðið algerlega einn uppi með, af ráðandi mönnum í sínu landi.

Þessi ummæli Cassels eru skýr. Þar er ekki að ræða um neina umsögn, sem gefin er og stíluð til að „passa“. Þetta er úrskurður almenns efnis. Það var svo sem auðvitað, að meiri hl. fjhn. mundi leitast við að færa þessi ummæli á betri veg fyrir sinn málstað, en það er ekki hægt. Jeg mótmæli því, að hjá mjer sje nokkur illvilji í sambandi við þetta. Jeg fæ bara ekki annað út úr þessum ummælum en jeg hefi sagt.

Hv. þm. (ÁÁ) hafði ummæli eftir Finnlandsbankastjóra. Jeg efast um, að nokkur maður í deildinni nema hv. þm. og kannske einhverjir samnefndarmenn hans hafi getað fengið þann skilning, sem hann vildi vera láta, út úr þessum ummælum. Bankastjórnin segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Samt sem áður getum vjer ekki fullyrt, að það þurfi að gera seðlabanka nokkurn skaða, þótt hann starfi jafnframt að innlánum.“

Jeg þori að fullyrða, að enginn í deildinni getur fengið annað út úr þessum ummælum en að það sjeu a. m. k. miklar líkur til þess, að þetta geri bankanum skaða. Ef maðurinn meinar annað, þá segir hann það ekki. Jeg get fullkomlega fallist á það með hv. þm. (ÁÁ), að þessi maður hafi sagt það, sem hann meinar, og ekki annað. En það liggur greinilega í ummælunum, að hann telur þetta hættulegt, þó hann á hinn bóginn vilji ekki fullyrða, að það geri skaða. Auðvitað gerir hann ráð fyrir, að hann gefi umsögn sína mönnum með fullu viti. Hv. þm. (ÁÁ) vill fá út, að bankastjórinn telji þetta ekki hættulegt. Til samanburðar má benda á það, sem bankastjórinn er rjett áður búinn að segja, að það mundi vera eiginlegra og meira í samræmi við reglurnar um eðli seðlabanka, að þeir reki ekki innlánsstarfsemi.“

Þetta er í fullu samræmi við hitt. Eins er um forseta sænsku ríkisbankastjórnarinnar. Hann gengur út frá, að Íslandsbanka sjeu eftirlátin sparisjóðsviðskiftin. Þvert ofan í þetta vill meiri hl. nefndarinnar halda fast við það, að Landsbankinn haldi allri sparisjóðsstarfseminni. En fyrst þeir vilja efla hann með sparisjóðsstarfsemi, því þá ekki að efla hann sem mest? Hjer er ullarbingurinn kominn aftur, alveg sama tilhneigingin til að slá úr og í.

Hv. frsm. meiri hl. (MJ) talaði um, að það gæti verið styrkur fyrir stjórn seðlabankans að vera háð aðgerðum í sparisjóðsstarfsemi. Það er rjett. Að því getur verið styrkur. En spurningin er sú, hvort hættan sje ekki meiri. Því neitar enginn, að sparisjóðsstarfsemi gefi bankanum meiri mátt. En það verður líka að líta á hættuna.

Svo er það þróunin, þessi þokukendu ummæli um þróunina í íslenskum bankamálum. Jeg er enn engu nær um það, hvað meint er með þessu þróunartali. Mjer skildist helst á hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að þróunin væri í því fólgin, að af því hjer hefðu verið svo lítil bankaviðskifti áður, yrði að sameina seðlaútgáfuna þeirri stofnun, sem fyrir væri. Þetta væri líkt því, ef ríkið tæki einokun á síld, og svo væri krafist, að það tæki líka einokun á kjöti og setti hvorttveggja undir sama hatt. Það er ekki víst, að það væri praktiskt. Það gæti þurft mismunandi sjerþekkingu til hvors um sig. Svo sagði hv. frsm. meiri hl. (MJ), að hann efaði ekki, að þróunin stefndi í þá átt, að seðlabankinn yrði banki bankanna, en hjá okkur væri ekki þróunin komin á það stig ennþá. En ef reynslan er búin að sýna annarstaðar, þar sem viðskiftin eru öruggari en hjer, að þróunin leiði til þess, að seðlabankarnir dragi sig út úr almennum bankaviðskiftum, því má þá ekki fara eins að hjer? Ef það er játað, að hjer sje um eðlilega þróun ræða, þá er ekki hægt að neita því, að þetta á að vera eins hjá okkur. Þróunin hefir sýnt hjá okkur, að við höfum neyðst til að draga seðlana út úr áhættu. Hv. frsm. (MJ) sagðist ekki hafa heyrt getið um neina hættu í þessu sambandi. Jeg get ekki gert að því, þó hann hafi ekki heyrt það, en jeg hefi heyrt það. Það hafa verið höfð svo stór orð um misnotkun seðlaútgáfúnnar hjer á landi, að mjer þykir ólíklegt, að hv. frsm. (MJ) hafi ekki orðið þess var. Ef enginn árekstur hefði orðið, mátti seðlaútgáfan vera kyr hjá þeirri stofnun, sem hefir haft hana, aðeins að hún kæmist meira undir yfirráð ríkisstjórnarinnar. Hjer kemur þetta stökk af því, að árekstur hefir orðið, sem sýnir, að breyta verður til. En það er ekki eðlilegt að taka seðlaútgáfuna af þeirri stofnun, sem fengið hefir áreksturinn, og setja hann í aðra stofnun svipaða. Þó þeirri stofnun sje betur treyst í bili heldur en þeirri bankastjórn, sem fór með völd, þegar mistökin urðu í hinum bankanum, þá verður að gæta þess, að hjer er verið að stofna til frambúðar skipulags, og enginn veit, hverjir fara framvegis með völd við þá stofnun, sem nú á að afhenda seðlaútgáfuna. Þar geta vel orðið sömu mistökin. Það er ekki hægt að sjá annað, en að hið sama gildi með báðar þessar stofnanir. Það, sem annari hefir einhverntíma orðið á, getur hinni orðið á líka.

Hv. frsm. (MJ) sagði, að best sæist á því, hver munur væri á þessum málum hjer og annarsstaðar, að þar yrðu seðlabankarnir á eðlilegan hátt og smátt og smátt bankar bankanna, en hjer væri talað um að setja upp nýjan seðlabanka. En það er af því, að ekki þykir fært að láta þá bankastofnun, sem haft hefir seðlaútgáfuna, gerast banka bankanna. Það þykir þurfa að taka seðlana burtu þaðan. Ef ástæða hefði þótt til að taka seðlana úr Norska bankanum eða ríkisbankanum sænska, þá hefði vafalaust komið til mála að setja upp nýjan seðlabanka, a. m. k. miklu fremur en að setja seðlana í annan banka, sem líkt var ástatt um. Hjá okkur er um samskonar þróun að ræða og hjá öðrum, þó að hún hafi gerst á skemmri tíma. En þó að við hefðum ekki rekið okkur neitt á, og ekki getað bent á neina þróun, þá var vissulega skylda okkar að athuga reynslu annara þjóða og haga okkur eftir henni. Þó að hægt væri að draga í efa, hvað þróun okkar væri komið langt, þá væri ekkert vit í því, að við settum okkur áratugi til baka og segðumst gera það af því, að viðskiftalíf okkar væri ekki komið lengra áleiðis nú en hefði verið hjá þessum eða hinum þá eða þá. Við yrðum því að gera nú eins og þeir hefðu gert þá. Það væri rjett eins og ef við hjeldum því fram, að við ættum að hafa seglskip til flutninga, af því að aðrar þjóðir hefðu notað þau á okkar þróunarstigi. Við værum ekki komnir svo langt, að okkur hæfðu gufuskip. Nei, hvað sem þróuninni líður, þá eigum við að nota þau tæki, sem fullkomnust eru og best. Við eigum að fara eftir þeim fyrirmyndum, sem bestar finnast. Það er alveg sjálfsagður hlutur.

Það var hv. frsm. meiri hl. (MJ), sem þó vildi efast um það, að máttur seðlaútgáfunnar væri eins mikill og jeg hefði fullyrt, sjerstaklega vildi hann ekki gera mikið úr því, að það hefði neina verulega þýðingu, hve mikill munur væri á lágmarki og hámarki. Jeg hafði haldið því fram, að það, að þessi mismunur er mikill á seðlaútgáfunni, gæfi honum mikið vald. Þetta vildi hv. þm. (MJ) efast um, af því að aukning seðlaútgáfunnar á sumrin og fram á haustin kæmi af öðrum ástæðum en nýjum lánveitingum. Það er mikið rjett, að ef seðlabankinn fengist við allskonar viðskifti, þá hefði þetta ekki svo mikið að segja, því að þá væri hægt að taka seðlana út úr viðskiftareikning hjá honum og nota þá til hvers sem vera vildi. En einmitt af því að honum er ekki ætlað að gera annað en „rediskontera“, þá er ekki hægt að fá seðlana öðruvísi en að mennirnir, sem þurfa á þeim að halda, þó að þeir kannske þurfi ekki að taka nýtt lán, verða að taka þá út úr reikningi sínum í hinum bönkunum, en þá eru þeir þó úr seðlabankanum, og ef viðskiftabankarnir ekki hafa þá, þurfa þeir að sækja þá til hans. Það má því einu gilda, hvað „fluktuationinni“ veldur, hún gefur seðlabankanum sömu sjerstaklega sterku tökin á hinum bönkunum.

Svo vildi hv. frsm. meiri hl. (MJ) gera lítið úr því, að seðlabankinn hefði aðstöðu til þess að forða frá gengissveiflum; það höfum við báðir talað um áður, hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og jeg, að mundi nú verða misjafnlega auðvelt fyrir bankana, hvort sem væri sjerstakur seðlabanki eða ekki, að ráða við stórar gengissveiflur. En jeg fullyrði það enn, að Landsbankanum mundi líka verða það ofvaxið, ef hann nyti ekki styrks ríkissjóðs. Og hvað það snertir, að eiga stórar fúlgur á vöxtum erlendis, þá sje jeg ekki, að til þess þyrfti svo mjög mikið að koma, vegna þess að gjaldeyrisbirgðirnar geta verið svo og svo mikið í höndum hinna bankanna, og seðlabankinn haft áhrif á það, hvernig með þær er farið, það er fullkomlega það sama, þó að þessar gjaldeyrisbirgðir standi ekki á hans nafni hjá erlendu bönkunum, því að hann getur samt að svo og svo miklu leyti haft undir sínum yfirráðum gjaldeyrinn, en hitt getur einnig dugað honum. En þegar mest á reynir að halda gjaldeyrinum uppi og forða sveiflum, þá er ástandið gjarnan ekki þannig, að það sje svo mikið af erlendum gjaldeyri, sem þurfi að eiga á lágum vöxtum, heldur er það miklu fremur þannig, að það þurfi að fá lán, og þá er það ekki kraftur bankans sjálfs sem banka, heldur bakhjarlsins, sem er það sama í báðum tilfellum, það er ríkissjóður. Um það, hvort bankinn verði annars illa staddur, og mjer skildist, að hv. frsm. meiri hl. (MJ) vildi gefa í skyn, að allar hans tekjur mundu fara í starfrækslukostnað, vil jeg segja, að þetta er mjög hæpin fullyrðing, því að með því að vera, eins og stungið er upp á af minni hl. milliþinganefndarinnar, í starfrækslu með Ríkisveðbankanum, verður starfrækslukostnaður hans ekki svo tilfinnanlegur. Þar að auki gæti komið til mála að veita bankanum fleiri tækifæri til þess að afla sjer tekna, hygg jeg, að vikið sje að því í nál. minni hl., t. d. með því að fela honum útgáfu skiftimyntar, sem er töluverður tekjuliður, og svo gæti verið um ýmislegt fleira að tala, sem komið gæti til greina.

Þá var hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) að hlaupa í skörðin fyrir hv. frsm. meiri hl. (MJ), út af því, að hann hafði sagt, að það væri hægðarleikur fyrir seðlabanka að mæta því, þegar heimtaðar væru innstæður af honum; það væri ekkert annað en að gefa út seðla og fleygja þeim í þá, sem vildu fá peninga, og vitnaði til Englandsbanka, hvorki meira nje minna en til Englandsbanka. En jeg er gróflega hræddur um, að það sje nokkuð öðru máli að gegna, hvort þessi „taktik“ er tekin upp hjer eða í Englandi. Gerum ráð fyrir, að mönnum þyki ekki mikið í annað hús að venda, að koma peningum sínum fyrir, þegar þeir hafa fengið seðla frá Englandsbanka, en það kynni að verða öðruvísi hjer, og hvað er svo upp úr þessum seðlum að hafa? Það yrði svo líklega reynt að fá ávísanir til útlanda, og þá er jeg gróflega hræddur um, að svikamyllan sje gangandi. Nei, jeg er hræddur um, að það sje dálítið athugavert við þetta, að gott sje að hafa sparisjóðsstarfsemi með, því að það sje svo þægilegt að gefa altaf út seðla. Jeg vil ráða hv. meiri hl. til að finna sjer aðrar varnir en þetta, því að jeg held, að þær verði hvergi taldar góðar.

Það má nú vel vera, að mjer hafi láðst að svara einhverju af því, sem hv. þm. hafa beint til mín. En þeir eru þá vísir til að minna mig á það, og get jeg þá kannske ennþá fengið tækifæri til þess að bæta úr því.