08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í C-deild Alþingistíðinda. (2684)

81. mál, Landsbanki Íslands

Klemens Jónsson:

Jeg skýrði stuttlega frá því í gær, að mjer þætti betra og tryggara, að opinberir sjóðir væru geymdir í sama banka, enda hefði sú tíðin verið. að Landsbankinn hefði ávaxtað slíkt fje. En jeg skýrði líka frá því í gær, að svo hefði farið, að Landsbankinn hefði ekki sjeð sjer fært að halda slíku áfram, og þá hefðu margir þessir sjóðir verið fluttir í Íslandsbanka, og ekki komið á daginn, að hlotist hefði tjón af því.

Þessu mótmælti háttv. 2. þm. Árn. (JörB) og benti á einn sjóð — Thorkillisjóðinn — sem hefði tapað einhverju fje. Jeg spurði þá þegar, hvenær það hefði átt sjer stað, en fjekk ekkert svar. En af því að mjer er að líkindum kunnugra um þennan sjóð heldur en flestum öðrum hv. þdm., þar sem jeg hefi verið í stjórn sjóðsins um 13 ára bil, þá vil jeg skýra hjer nokkru ger frá, einkum þó vegna þess, að mjer virtist orð hv. þm. (JörB) geta skilist á þann veg, að þetta tap sjóðsins hefði komið nýlega fyrir, eða að minsta kosti ekki fyrir löngu, en eftir því sem jeg veit best, hefir sjóður þessi engu tapað eftir að hann fluttist allur til landsins. Sjóður þessi, sem kominn er frá Jóni Þorkelssyni Skálholtsrektor, var áður í tvennu lagi, og var annar hluti hans geymdur í Danmörku í vörslum Sjálandsbiskups, og þar mun hafa tapast þó nokkur upphæð, eftir því sem reikningar sjóðsins bera með sjer. En síðan eru nú liðin að minsta kosti full 100 ár, að þetta tap átti sjer stað, og það var sá hluti sjóðsins, sem geymdur var í Danmörku, sem fyrir því varð, en hjer heima hefir ekkert tapast, að því er jeg best veit. Árið 1849 var sjóðurinn sendur hingað upp, og fram yfir aldamót stjórnað af stiftsyfirvöldunum, en þegar stjórnin færðist inn í landið 1904, hvarf sjóðurinn undir eftirlit stjórnarráðsins, og var jeg þá í stjórn hans þau ár, sem jeg var landritari, en eftir að landritaraembættið lagðist niður, hefir það verið stjórnin, sem haft hefir allan veg og vanda af sjóðnum. Og eins og jeg er margbúinn að taka fram, er mjer ekki kunnugt um, að sjóðurinn hafi neinu tapað, og alls ekki á síðustu árum. Síðari árin hefir hann aukist dálítið, en þó ekki nema um lítinn part af sjóðsupphæðinni.

Háttv. sami þm. gat þess, að komið hefði fyrir, að Íslandsbanki hefði ekki getað staðið í skilum. Það er satt; hann gat ekki staðið í skilum um póstávísanafje. En eins og jeg sagði í gær, þá var fjeð geymt þar eftir samningi við Íslandsbanka, er Landsbankinn fjekst eigi til. Íslandsbanki tók þannig á sig áhættuna af því að taka alt fje, er landssjóður hafði með höndum, og yfirfæra það, er krafist yrði. Með því inti hann af hendi það, sem í raun og veru hefði verið skylda þjóðbankans. En nú á að láta hann gjalda þess, með því að taka þaðan opinbert fje, sem hefir verið ávaxtað þar samkvæmt samningi við stjórnina. Jeg verð að segja, að það er harla hart. Mjer finst, þegar tveir bankar eru, ætti að skifta milli þeirra þessu fje, eða að minsta kosti láta afskiftalaust, hvar hver stjórn leggur fjeð inn. Fengi hún að ráða, mundi hún að líkindum skifta nokkuð jafnt.

Jeg tel því eigi ráð að samþykkja till., og komist málið til Ed., teldi jeg æskilegt, að hún lagfærði þetta ákvæði.