08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í C-deild Alþingistíðinda. (2689)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Það mætti búast við, af öllu því, sem sagt hefir verið, að jeg hjeldi hjer ekki stutta ræðu, enda er það mála sannast, að svo mundi vera, ef jeg ætlaði að svara öllu til hlítar. En jeg ætla að sleppa því. Aðeins svara fyrirspurnum og slíku, og fara fáum orðum um það, er hv. þm. N.-Þ. (BSv) beindi til nefndarinnar.

Háttv. minni hl. milliþinganefndar (BSv) hefir gert meiri hl. þann óvenjulega heiður, að semja „commentar“ eða skýringar við nál. hans, lengri og greinilegri en jeg hefi sjeð saminn við nokkurt annað þingskjal, og líkist mest að lengd skýringum á ritum biblíunnar. Og það var rjett með naumindum, að hv. þm. (BSv) tókst að breiða yfir það með mælsku sinni, að málið væri flutt meir af orðvísi en rökum. Og ef ekki ætti í hlut sjálfur hæstv. forseti deildarinnar, sem óhugsandi er að gangi á undan þingmönnum deildarinnar með svo vondu eftirdæmi, þá hefði einhverjum getað dottið í hug, að ræða hans væri eitthvað í ætt við málþóf.

En vegna þess, hve geysilöngum tíma þyrfti að verja til þess að svara hverju atriði ræðunnar, býst jeg við að flýta fyrir málinu með því að sleppa þeim alveg.

En jeg vil svara hv. síðasta ræðumanni (HStef) fáum orðum. Hann var að mæla fram með till. sinni og hv. þm. Str. (TrÞ). Hann taldi það gott fyrir bankann að kaupa þessi brjef með nafnverði, og að því þyrfti ekki að verða neinn skaði. Það getur verið, að bankinn komist af með 1% vaxtamun. En skaðinn er vís, ef hann verður að selja brjefin, því þau falla í verði, sem svarar muninum á rentunni af þeim og öðrum sæmilegum verðbrjefum. Og það er ekki til neins að segja mönnum, að þeir sjeu fullsæmdir af t. d. 4½% vöxtum af vel tryggum brjefum, ef til boða standa annarsstaðar verðbrjef, sem gefa t. d. 5½–6%. Brjef þessi verða óseljanleg með nafnverði. Hv. þm. fann þetta sjálfur og vildi bjarga þessu við með því að halda því fram, að bank- inn þyrfti að eiga brjef sem trygging fyrir sparisjóðsfje því, sem hann hefir í sínum vörslum. En hvaða trygging er fólgin í slíku? Ef það ætti að vera trygging í slíkum brjefum, þá yrðu þau að vera þannig, að hægt væri að selja þau hvenær sem til þyrfti að taka. Í því er tryggingin fólgin, ef „run“ kæmi á bankann, en ekki í því einu, að „eiga þau“. Jeg verð því að álíta, að þessi brjef sjeu einmitt mjög óþægileg fyrir bankann. Það er vitaskuld, að brjefin verður að selja með afföllum. Það er ekki hægt að útvega peninga til neins fyrir lægri vexti en fáanlegir eru á peningamarkaðinum. Ef vextirnir eru lægri, þá verður líka einhver að borga brúsann. Hjer er því verið að reyna að gera það, sem er í sjálfu sjer ómögulegt, og er engin von, að það takist. Kostnaðurinn lendir hjer í þessu tilfelli á bankanum og innstæðueigendum.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) talaði um ákvæði 68. gr., sem hann taldi mjög óviðeigandi, enda ekki í neinum seðlabankalögum. Jeg hefi ekki við höndina lög ríkisbankans sænska, sem eru frá því fyrir aldamót. En þar eru alveg hliðstæð ákvæði. Þetta er miðað við sjerstakt ástand, og því eðlilegt, að það sje sett í þessa grein ásamt fleiri sjerstökum ákvæðum. Hitt er miklu minna vert um, smábrtt. þeirra hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ). Jeg legg ekkert upp úr því, þó þær gangi fram. Hv. samþm. minn, hv. 3. þm. Reykv. (JakM), fann það að, að ákvæði þessi gerðu seðlabankann kraftlausan gagnvart Íslandsbanka, þar sem hann yrði að vera bundinn við ákveðnar ívilnanir til þess banka. Það er rjett, að þetta eru höft. En að það geri hann kraftlausan gagnvart Íslandsbanka, það er ekki rjett. Þetta er miðað við sjerstakt ástand, meðan sá banki er að draga inn seðla sína. En seðlabankinn hefir eftir sem áður sömu tök á hinum bankanum vegna „rediscontóarinnar“, því hann þarf eins og áður á „rediscontó“ að halda, auk þessarar sjerstöku, sem stafar af seðlainndrættinum. En það skil jeg ekki, að þetta geti lagt hömlur á það, að Landsbankinn geti fengið Íslandsbanka til þess að lækka vexti, ef hann gerir það sjálfur. Annars sje jeg ekki, að þetta sje neitt stórt atriði. Seðlabankinn þarf miklu meira á hinu að halda, að knýja hina bankana til þess að hækka vexti, þegar honum þykir nauðsynlegt. Það er aðal-spennitakið, sem hann hefir til þess að varna sveiflum, þegar kreppa fer í hönd. Þá gengur seðlabankanum oft illa að fá forvextina hækkaða nógu fljótt. Og í því er Landsbankinn ekki hindraður af þessum ákvæðum, og til þess var þetta sett inn: „Þó aldrei lægri en 1% undir forvöxtum Landsbankans.“

Þá hjelt hv. 3. þm. Reykv. (JakM) því fram, að seðlatryggingunni væri ekki vel fyrir komið í frv. Þetta er stórt „principatriði“, sem hjer bryddir á. Það eru einkum tvær meginstefnur, sem fylgt er um seðlatrygginguna yfirleitt. Englandsbanki hefir tekið upp þá stefnu, að það má gefa út ákveðna fúlgu umfram það, sem gulltrygt er, en svo verður það, sem fer þar fram yfir, að vera innleysanlegt með gulli. Þessi regla, sem nefnd er „contingent system“, er að mörgu leyti góð, en þó hefir víða verið frá henni horfið á síðari tímum sökum þess, að í hana vantar þá teygju, sem er nauðsynleg, þegar krepputímarnir skella yfir. Enda hefir orðið að afnema „The Bank Act“ á Englandi í bili, meðan kreppur liðu hjá. — Hin reglan er sú, að miða tryggingu seðlanna við eitthvert ákveðið hlutfall. Þetta hefir verið notað t. d. í Danmörku. Margir bankar hafa notað sambland af báðum þessum meginreglum. Þessi tryggingaraðferð hefir þann ókost, að fyrir hverjar 10 gullkr., sem út eru teknar, verður að draga inn um 20 kr. í seðlum, ef tryggingarhlutfallið er 1/3, þessvegna verður bankinn að vera á verði um að fá sjer gull, ef á þarf að halda, og það mjög fljótt. Auðvitað er þetta aldrei svo strangt, að ekki geti komist ruglingur á part úr mánuði eða svo, og hreinasta fjarstæða er að segja, að þetta sje í raun rjettri sama sem að hafa enga innlausnarskyldu. Þetta hefir verið svona í mörgum löndum um langt skeið, og jeg skil ekki, að menn vilji hverfa frá „principi“, sem reynst hefir hjer vel.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) vil jeg svara stuttlega út af því, er hann sagði, að ákvæði 12. gr., um að leysa bankann af innlausnarskyldunni, ætti heima í bráðabirgðarákvæðunum. Jeg er hissa á þessu. Því ef hjer í frv. er nokkuð, sem horfir langt fram í tímann, þá er það þetta ákvæði. í 69. grein eru aftur ákvæði, sem eiga við það sjerstaka ástand, sem nú er. Hitt á við væntanlega kreppu af ófriði eða slíku. Því það er einsætt, að ef þetta ákvæði er felt burtu, þá er ekkert í frv., sem um slíkt hljóðar, því bráðabirgðarákvæðin eru á alt öðrum stað. En úr því vjer, sem lifum á þessum háskasemda tímum, höfum komið auga á það, að þessa ákvæðis geti verið þörf, þá er rjett að við setjum það heldur en láta þá, sem ekkert slíkt hafa reynt, setja ákvæði um þetta í blindni og flaustri, þegar þar að kæmi. Og 12. gr. sýnir, hvernig vjer álitum, að frá þessu eigi að ganga. Það er ólíkt skemtilegra að setja ákvæði þessi nú þegar, heldur en að fara þurfi eins og 1914, þegar gullinnlausnin var afnumin, án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Þetta verður því að teljast hyggileg ráðstöfun.