22.02.1926
Efri deild: 11. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (2788)

28. mál, ellitrygging

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hlustaði með athygli á það, sem hv. flm. (JJ) hafði fram að færa í þessu máli. Greinargerðin fanst mjer hinsvegar furðu stuttaraleg fyrir svo stóru máli.

Jeg þykist skilja af orðum hv. flm. (JJ), að hann ætlist til, að hjer sje um árlegt gjald að ræða af hverjum einstökum manni til þessarar tryggingar. Og jeg hafði satt að segja naumast búist við, að hann kæmi með slíka till., því að hann var á síðasta þingi, út af öðru tryggingarmáli, mjög á móti hinum svokallaða nefskatti. En fyrir mitt leyti virðist mjer þetta rjett, sem hv. flm. sagði, að það sje eina tiltækilega leiðin að láta hvern borga árlega einhvern ákveðinn skerf.

Út af því, sem hv. flm. sagði um ávöxtun fjárins, þá hefi jeg ekkert að athuga við það, að ákveðið verði, hvar fjeð skuli ávaxtast. En það leiðir af sjálfu sjer, að allur sjóðurinn má ekki ávaxtast í brjefum, sem eru föst um lengri tíma. Það verður að vera einhver sjóður, sem hægt er á hverjum tíma að grípa til. Ef sjóðurinn gæti orðið 70 milj., þá yrði auðvitað að borga mikið úr honum árs árlega. Annars þykir mjer ólíklegt, að sjóðurinn geti orðið 70 miljónir kr., ef ekki er gengið út frá, að hvert gamalmenni fái ekki nema 200 kr. á ári. Þó skal jeg ekki neita þessu, því að jeg hefi ekki reiknað það út, en að lítt hugsuðu máli tel jeg það skýjaborgir. En upplýsingar um þetta býst jeg við að megi fá í athugunum dr. Ólafs Daníelssonar.

Jeg vil skjóta því til hv. flm., hvort ekki sje ósamræmi milli fyrirsagnar till. og þess, sem seinna stendur; aldurstrygging er sem sje miklu óákveðnara en ellitrygging.

Það er eitt atriði, sem verður að taka til athugunar í þessu sambandi, og það eru þeir ellitryggingarsjóðir, sem til eru í landinu. Þeir þróast töluvert, og þeirra þróun fer tiltölulega ört vaxandi, eins og gefur að skilja. En jeg skal játa, að gjaldið, sem greitt er þar, er svo lágt, að þeir verða seint að fullum notum, en eru þó þegar farnir að gera mikið gagn.

Þar sem hv. flm. (JJ) gerði það ekki að beinni till. sinni að vísa málinu í nefnd, þá leyfi jeg mjer að gera að till. minni, að því verði vísað til hv. fjhn.