12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

82. mál, hlunnindi handa nýjum banka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Með ummælum mínum um ástandið í Suður-Múlasýslu átti jeg alls ekki við viðskifti þingmanna þessa kjördæmis við útibúið á Eskifirði, heldur átti jeg við hitt, að tapast hefði þar mikið lánsfje síðari árin. Hitt er rjett hjá hv. 2. þm. S.-M., að það eru fleiri dökkir blettir á landinu, enda var jeg ekki að hnjóða í það pláss sjerstaklega, heldur nefndi það sem dæmi og gat þess til skýringar, er jeg talaði um þá skoðun, sem nú er uppi, að rjett sje að svelta landsmenn enn meira um lánsfje, þeim til heilsubótar eftir þá sjúkdóma, sem þeir hafa verið haldnir af undanfarin ár. Mjer þótti leiðinlegt, að hv. þm. (IP) skyldi taka orð mín sem hnjóð í hans garð eða kjördæmis hans, því að það var alls ekki meiningin.