13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Hjer liggur fyrir nál. á þskj. 542 frá meiri hl. fjhn., en minni hl. nál. hefi jeg ekki orðið var við. Meiri hl. skildist á fjárhagsnefndarfundi, sem haldinn var síðast um þetta mál, að tveir nefndarmenn, hv. 2. og hv. 5. landsk. (IHB og JBald) væru heldur mótfallnir frv. Meiri hl. áleit á hinn bóginn rjett, að málið gengi fram.

Þetta stjfrv. er flutt í Nd., en þegar það kom hingað, var búið að breyta því allmikið, tollurinn færður ákaflega mikið niður frá því, sem upphaflega var til ætlast. Meiri hl. gerði nokkra lagfæringu á þessu — og raunar fleiru í frv. — Það virðist hafa vakað fyrir þeim, sem breyttu frv. í hv. Nd., að ívilna nokkrum þeim iðnaðarfyrirtækjum, sem þegar eru komin á stofn. Það átti að ske á þann hátt, að tollurinn færi stighækkandi 3. hvert ár, og sýndist það eiginlega vera nokkuð flókin leið. Meiri hl. vill að vísu taka undir um það, að rjett sje að ljetta undir með þeim iðnaðarfyrirtækjum, sem þegar eru komin á fót; en hann vill gera þá breytingu, að þau iðnaðarfyrirtæki, er þegar eru stofnsett eða voru stofnsett um síðustu áramót, gjaldi mjög lágan toll, eða sem svarar 1/6 gjalds af tilsvarandi framleiðslumagni því, er þau framleiddu 1928, og gjaldi það til ársloka 1935.

Einnig hefir meiri hl. líka lagt til, að dálítil tilfærsla á vörutegundum yrði gerð, sem hann álítur sanngjarnari og rjettari.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál að sinni. Meiri hl. leggur til að samþ. frv. með þeim breytingum, sem hann ber fram á þskj. 542. Með því að jeg hefi ekki sjeð nál. frá hv. minni hl. og veit ekki vel um ástæðurnar fyrir því, að þeir fylgdu ekki þessu máli, hlýt jeg að bíða með að segja meira þangað til þeir hafa látið uppi álít sitt.