31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal vera mjög stuttorður, aðeins beina fáum orðum til háttv. 2. þm. Árn. Um orðalag 3. brtt. hans vildi jeg segja það, að mjer fyndist rjettara, að í stað „rýrnun fjallskila“ komi: aukning fjallskila — því að fjallskil Þingvallasveitar mundu aukast í hlutfalli við fækkun búfjenaðar á þessu svæði, því að hjer er ekki friðað annað en heimalöndin. Jeg vildi því beina þeirri spurningu til háttv. þm., hvernig hann myndi taka því, ef jeg kæmi með brtt. um þetta atriði. (MT: Við gætum athugað það til 3. umr.).

Hv. þm. hjelt, að rjett mundi að friða vatnið að norðanverðu. Það leyfi jeg mjer að efast um. Murtuveiðin er alveg órannsökuð, og mikill vafi leikur á því, hvort murtan sje sami silungurinn og annars er veiddur í vatninu. En nú er Pálmi Hannesson náttúrufræðingur að rannsaka það.

Þá heldur hv. frsm. meiri hl., að girðingarkostnaður verði minni en jeg geri ráð fyrir. Það er álit mitt, að ef á að friða þetta svæði, svo að gagni komi, verði að girða alt svæðið, því að öðrum kosti nær frv. ekki tilgangi sínum. Þá fór hv. þm. að fræða mig um það, að ekki væri hægt að breyta frv., ef það fjelli við 2. umr. Þetta vissi jeg vel áður, enda hjelt jeg, að stj. hefði nægan styrk til þess að koma málinu frá 2. umr. til 3. umr. Og ef jeg ætti von á því að fá bót á frv. við 3. umr., myndi jeg áreiðanlega hafa vit á því að greiða því atkv. við 2. umr.

Um brtt. hæstv. dómsmrh. má segja það, að hún bætir dálítið úr, því að hún minkar svæðið, og er gleðilegt, að hann hefir sjeð, að of langt var gengið. Samt sem áður er svæðið ennþá langt of stórt, og þótt brtt. verði samþykt, mun jeg ekki geta fylgt frv.