24.01.1928
Efri deild: 5. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jón Þorláksson:

Það má segja, að efni þessa frv. sje gamall kunningi. Er ekkert við því að segja, þótt sett sjeu ákvæði í þeim tilgangi að verjast gin- og klaufaveiki og öðrum alidýrasjúkdómum. En jeg vil taka það fram, eins og bent var á í hv. Nd. í fyrra, að frv. þetta fer lengra í ákvæðum sínum um aðflutningsbann en svo, að hægt sje að færa fyrir því þær ástæður, sem frv. segir vera. Samkvæmt frv. á að banna innflutning á vörutegundum, sem í öðrum löndum er frjáls verslun með, jafnt í þeim löndum, sem eru að reyna að verjast þessum sjúkdómum, sem öðrum.

Jeg vona, að hv. nefnd gefi því rækilega gaum, að þegar farið er, undir slíku yfirskini og hjer á sjer stað, að setja óeðlilegar hömlur á verslun milli landa, þá eru menn komnir út fyrir það svið landbúnaðarins, sem þessi löggjöf á við, og inn á utanríkismálin. En þar verðum við sannarlega að gæta fylstu varúðar, af því að við erum ný eining, sem á eftir að mynda sjer og skapa allan heiður og virðing í samlífi þjóðanna.

Jeg mun ekki að sinni fara nánar inn á einstök atriði, en vil aðeins beina þessum athugasemdum til hv. nefndar.