14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jón Ólafsson:

Jeg er enginn fræðimaður um gin- og klaufaveiki og skal því ekki þræta við þá góðu vísindamenn, sem hjer hafa talað og e. t. v. hafa gert málið enn ægilegra en það í raun og veru er. En hv. þm. Borgf. gaf mjer tilefni til þess að standa upp. (PO: Ætlar þm. að vega að mjer, þegar jeg er dauður?). Jeg ætla ekkert að áreita hv. þm., en aðeins að bera af mjer sakir.

Okkur landbúnaðarnefndarmönnum hefir ekki snúist hugur í málinu. En við sjáum, að vonlaust muni vera að koma frv. fram með breytingum hv. þm. Borgf. og viljum því ekki berja höfðinu við steininn og verða þar með til að fella málið í heild sinni. Hinsvegar skal jeg segja hv. þm. það, að þó að jeg reiði mig ekki fullkomlega á hann sem vísindamann, vildi jeg langhelst verða við hans kröfum, ef kostur væri á. Jeg veit, að í rauninni vill enginn hjer í þessari háttv. deild taka á sig ábyrgðina af því að hafa ekki gert alt, sem í hans valdi stóð til að hindra þessa voðaveiki, þó að menn geti talað djarft meðan hættan er ekki augljós.

Skoðanaskifti valda því ekki, að jeg dreg mig nú til baka. En jeg veit, hvernig hv. Ed. hefir tekið í málið. Og jeg held, að þær umr., sem nú hafa farið fram hjer í deildinni, geti orðið stj. til stuðnings síðar, ef hún þyrfti að taka til sinna ráða.

Einnig vil jeg taka fram, að ekki er hægt að benda á neinar alveg öruggar varnarráðstafanir. Það getur háttv. þm. Borgf. ekki fremur en aðrir. Hann vill aðeins ganga nokkuð lengra en sumir aðrir. Jeg vil ekki stofna málinu í voða með því að fylgja honum, en trúi því, að stj. hafi mikinn stuðning í því, sem nú er sagt, og því hljóði, sem er í þm.

Að endingu vona jeg, að jeg hafi ekki gefið hv. þm. Borgf. tilefni til að halda fleiri ræður. (PO: Jú). Jeg hefi engar sakir á hann borið.