17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2706 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

15. mál, strandferðaskip

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg get verið stuttorður, þó jeg geti ekki látið umr. líða svo, að jeg ekki svari hv. frsm. minni hl. samgmn. Hjá honum kom það merkilega vel fram, að nefndin er öll sammála um nauðsyn þessa máls. Ágreiningurinn er einungis um það, hvort ráðast skuli í framkvæmdirnar strax eða síðar. Við erum ósammála um það, hvað brýn nauðsyn kallar að. Jeg skal ekki fara að hrekja hjer öll atriðin í ræðu hans, en grípa aðeins á stærstu kýlunum.

Í sambandi við þetta mál mintist hann á flugferðir. Þar til vil jeg svara, að flugferðir verða sennilega fyrst og fremst fyrir póstflutning og þá farþega, sem hafa efni á að greiða há fargjöld. En nauðsyn góðra strandferða verður jafnmikil eftir sem áður.

Hann mintist á ástandið í Noregi. Jeg hefi að vísu ekki kynst því, og skal því ekki rengja hann, en hitt veit jeg, að skipum þar eru settar strangar reglur um, hvað marga farþega þau mega flytja flest. Þykir mjer merkilegt, ef það er liðið, að þau flytji farþega hundruðum saman fram yfir það, sem leyft er. Er það einkennilegt, ef ástandið í Noregi er svo ilt, að þess þurfi með, og eiga þó Norðmenn skipakost nægan.

Þungamiðjan í andmælunum gegn þessu máli er það, að ætlast er til, að ríkið kaupi og reki skipið. Þetta kom best fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., þegar hann var að tala um, að best væri að láta fjelagsskap stofna til skipakaupa og reka strandferðirnar. Þarna lá hundurinn grafinn. Það er andstaðan gegn ríkisrekstri, sem er á bak við. En reynslan hefir sýnt, bæði hjer og annarsstaðar, að það er nauðsyn, að ríkið hafi hönd í bagga með samgöngunum, svo fólki sje ekki ofþyngt með óþarflega háum flutningsgjöldum.

Hv. þm. telur enga þörf fyrir flutninga á nýjum fiski. Jeg er alveg hissa á, að hann skuli halda þessu fram. Hann má þó vita, að til dæmis Reykjavík, sem að mestu leyti lifir á fiski, er vissan tíma ársins fisklaus og tæki með miklum fögnuði við fiski, hvaðan af landinu sem væri. Við Breiðafjörð er á haustin gnægð fiskjar, en menn geta ekki komið honum frá sjer án þess að eiga á hættu, að hann skemmist. Sama er að segja um Ísafjörð.

Ekki tekur betra við, þegar háttv. þm. fer að tala um bílveg. Hann sjer bara einn bílveg, — frá Borgarfjarðarundirlendinu norður yfir Miðfjörð til Skagafjarðar. Jeg er alls ekki að tala á móti slíkum vegi. Um vissan tíma ársins kæmi hann að miklum notum fyrir nokkur hjeruð. En hv. þm. gleymir öllum þeim landshlutum, sem ekki gætu notið þessa eina vegar. Hvernig líst honum á bílveg til dæmis um Vestfjarðakjálkann og Austfirði, leiðina frá Vík í Mýrdal og austur um? Ætli það væri álitlegt að leggja bílveg þar? Það er sannarlega ekki nóg, þó að bílvegur yrði lagður úr Borgarfirði eitthvað norður. Margir mundu kvarta um samgönguleysi fyrir því.

Þá mintist hv. þm. á fargjöldin. Jeg vil benda honum á, að því, sem haldið hefir verið fram um fargjöldin, hefir verið slegið fram ekki nægilega rökstuddu. Nú kostar far til Sauðárkróks 32 kr. á 2. farrými Esju. En þess ber að gæta, að með skipunum fær fólk að hafa með sjer flutning, sem nemur 50 kg. og meira. En í bílunum getur það ekki haft nema eina smátösku. Jeg býst við, að bílferðir yrðu ekki fyrir verkalýðinn, sem er í atvinnuleit. Bílferðir yrðu helst fyrir fólk, sem er að skemta sjer, eða þá í einhverjum nauðsynjaerindum og hefði um leið ráð á að greiða fyrir slíkan farkost. En fólk, sem er í atvinnuleit, mun lengi verða að búa við strandferðaskipin sem heppilegustu flutningatækin. Hv. þm. vill telja mönnum trú um, að Esja missi af flutningi með hraðferðunum. Jeg hefi átt tal um þetta við framkvæmdarstjóra skipsins, og hann álítur, að ferðirnar skapi flutning. Eftir því sem ferðirnar sjeu tíðari, aukist flutningur að sama skapi. Það er líka alveg órökstutt, að flutningur muni minka.

Hv. þm. vildi meina, að samgöngur væru nú svo góðar, að ekki væri þörf á strandferðaskipi. En þrátt fyrir þær samgöngur, sem Eimskipafjelag Íslands heldur uppi, og þær, sem dönsk og norsk fjelög hafa hjer við land, finnur fólkið mjög til þess, að samgöngur eru ónógar. Það er vaknaður sterkur áhugi fyrir því, að við getum ferðast á okkar eigin skipum. Það er miklu meiri trygging fyrir okkur að eiga okkar eigin skip til slíkra ferða. Hugsum oss til dæmis, að styrjöld geisaði í Norðurálfunni. Margir spá, að þess muni ekki langt að bíða. Ætli við fáum þá norsk og dönsk skip til strandferða hjer.

Hv. þm. mintist á flóabátana. Jeg skal ekki fara langt út í það mál. Hv. þm. viðurkendi, að ver væri ástatt um flóabátana en skyldi. Hann talaði um, að fólkið notaði allar mögulegar ferðir. Já, fólk notar allar mögulegar ferðir, af því að farkostir eru ekki nógir. Úr því ber ríkinu að leysa, til þess að fólk þurfi ekki að nota opna báta til langra og erfiðra ferðalaga, sem slys geta hlotist af. Í vetur fór bátur til Vestmannaeyja með hjer um bil 20 menn, sem flestir voru farþegar, og það var guðsmildi, að þeir ekki týndu allir lífinu.

Að síðustu spurði hv. þm. mig og meðnefndarmann minn, hvað við mundum gera, ef stjórnin vildi ekki fallast á okkar tillögu. Jeg hefi enga löngun til að upplýsa hv. þm. um, hvernig jeg greiði atkvæði. En verði tillaga okkar feld, er það mín skoðun, að betra en ekki sje þó að hafa skip eins og frv. hæstv. stjórnar gerir ráð fyrir, þó það fullnægi ekki þeim kröfum, sem jeg geri til slíks skips.