23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 1. minni hl. ( Hannes Jónason):

Fjhn. Nd. hefir ekki haft tækifæri til þess að ræða þá breytingu sjerstaklega, sem hv. Ed. hefir gert á þessu frv. Sú breyting er fólgin í því, að niður skuli falla frá næstu áramótum gengisviðauki á tolli af kaffi og sykri. Sú niðurfelling verður þess valdandi, að tekjur ríkissjóðs rýrna um 200 þús. kr., eða freklega það. En hún hefir samt gert þessa breytingu hjá sjer, og tel jeg ekki fært að ganga á móti hv. Ed., af ótta við, að hún kunni að beita sjer á móti frv. Jeg sje mjer ekki fært að greiða atkv. með brtt. á þskj. 563, jafnvel þó jeg telji breytingu Ed. á frv. síst til bóta.