21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

2. mál, fjáraukalög 1926

Hannes Jónsson:

Jeg vil einungis láta þess getið, að jeg álít, að á gengisreikningi landsreikningsins sjeu færðar ýmsar upphæðir, sem þar eigi ekki heima, en ættu að færast undir ýmsa sjerstaka liði landsreikningsins, og að leita beri sjerstaklega aukafjárveitingar fyrir þeim. Jeg hefi minst á þetta áður og álít alveg óverjandi að láta þessar upphæðir ganga í gegn athugasemdalaust. Hjer hafa verið greiddir tugir þúsunda umfram það, er lög standa til. Það getur verið, að það sje gömul venja, sem hefir skapað þessa aðferð, en hún er óheilbrigð og er sjálfsagt að leita sjerstaklega aukafjárveitingar fyrir þessum upphæðum. Aðalupphæðir þær, sem hjer er um að ræða, munu stafa af því, að ýmislegur kostnaður við utanríkismálin hefir verið greiddur í dönskum krónum, en í fjárl. hefir verið gert ráð fyrir íslenskum krónum. Þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt, því allar fjárupphæðir, er standa í fjárl., hljóta að vera íslenskar, en ekki danskar krónur. Jeg vildi aðeins taka þetta fram, til þess að herða á því, að leitað sje aukafjárveitingar fyrir þessum upphæðum. En vilji stj. ekki fara þá leið, þá virðist sjálfsagt að hafa þá aðferð að áætla hærri upphæðir til þessara hluta í fjárl., og ætti það að vera vandalítið nú, þegar nokkurnveginn festa er komin á peningagildið og kunnugt orðið, hvað greiða þarf mikið umfram það, sem nú er áætlað. Sjálfsagt eru það fleiri upphæðir, sem svipað er ástatt um, en landsreikningnum er svo háttað, að erfitt er að átta sig á einstökum atriðum. Sjerstaklega virðist mjer ástæða til að greina gengisreikning meira í sundur og færa gengismuninn á viðkomandi liði landsreikningsins, en ekki með óvissum útgjöldum, eins og nú er gert.