03.05.1929
Efri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2613 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

66. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg vil taka í sama streng og hv. 2. þm. S.-M. í þessu máli. Mjer virðist ástæðulítið að veita Hafnarfirði fríðindi fram yfir aðra kaupstaði landsins, sjerstaklega ef tillit er tekið til allrar afstöðu. Hv. 1. þm. G.-K. talaði um, að annarsstaðar væri meira fje veitt úr ríkissjóði en þetta frv. gerir ráð fyrir, að veitt verði til Hafnarfjarðar. Það er að vísu rjett, en á það ber að líta, að ekki er óeðlilegt, þótt ekki sje alstaðar veitt sama fjárupphæð; það hlýtur að fara mjög eftir staðháttum; eftir því, hve miklir eru erfiðleikar og hvort tekjuvonir eru rýrar eða ekki í byrjun. Hv. 1. þm. G.-K. tók fram, að í Hafnarfirði væri mjög mikið að gera við afgreiðslu skipa, þar eð þar væri útgerð mikil. Ef svo er, sem jeg efa ekki, þá leiðir af því það, að hafnarsjóður hefir skilyrði til mikilla tekna, og virðist hlutaðeigandi bæjarfjelagi því fremur skylt að leggja meira af mörkum en ella. Það er einnig upplýst, að hafnarsjóðurinn er stórauðugur, og einnig það, að hann sje fastur í ótryggum stöðum og gæti því ekki komið að gagni. Ef þetta er rjett, þá er það vitni þess, að ekki hafi verið um neina fyrirmyndar ráðsmensku að ræða, og ætti það út af fyrir sig síst að mæla sjerstaklega með fjárveitingu til Hafnarfjarðar fram yfir aðra bæi eða kauptún, sem hafa í hyggju að ráðast í slíkar framkvæmdir. Víða hafa bæir og kauptún landsins kostað upp á hafnir eða hafnarbætur hjá sjer án þess að njóta nokkurs styrks úr ríkissjóði. Sem dæmi þess má nefna Akureyri. Sama er að segja um Siglufjörð, sem ráðist hefir í hafnarbætur, sem skifta hundruðum þúsunda, og nú hefir þetta þing neitað Siglufirði um lítilfjörlegan styrk, sem hann hefir beðið um. Þetta er nú sanngirnin og samkvæmnin

Þá þótti hv. 1. þm. G.-K. það óviðeigandi og óþarft, að yfirstjórn mannvirkjanna væri falin trúnaðarmanni ríkisstj. Jeg vil nú halda því hiklaust fram, að ef lagt verður fram stórfje til mannvirkjanna, þá sje beinlínis sjálfsagt að fela sjerstökum manni, samþ. af ríkisstj., alt eftirlit og fjárreiður.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að þörfin væri svo aðkallandi, að strax yrði að hefjast handa. Jeg vil nú efast um það, enda hefir nú í tvo áratugi verið rekin mikil útgerð þaðan og gengið vel og slysalaust, að því er jeg best veit. Tel jeg ekki með öllu óhugsandi, að þetta mætti bíða eitt til tvö ár enn, og að því leyti styð jeg till. hv. 2. þm. S.-M., að lögunum sje breytt í heimildarlög.

Mjer finst því, að hvernig sem á þetta mál er litið, þá sje gengið hjer heldur langt í því að seilast ofan í ríkissjóðinn, þar sem það liggur beint við, að bæði hafnarsjóður og bæjarsjóður geta staðið undir þessu mannvirki miklu betur en gert er ráð fyrir í frv.