14.03.1929
Efri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í C-deild Alþingistíðinda. (2769)

6. mál, hveraorka

Jón Jónsson:

Jeg get verið þakklátur hv. frsm. (IP) fyrir það svar, sem hann gaf við fyrirspurn minni, því að það gekk í þá átt, sem jeg hafði kosið: að landeigandi hefir forgangsrjett til að leita að jarðhita í landareign sinni og starfrækja hann.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. landsk. (JÞ) sagði um jarðhitann, vil jeg taka það fram, að jeg hefi hvergi orðið þess var, að vatnal. ræddu beint um hann. Jeg er að vísu ekki löglærður maður, það skal jeg fúslega viðurkenna, en jeg held að mjer sje óhætt að fullyrða, að þau fjalla svo að segja eingöngu um rennandi vatn, svo að með þeim hefir engu verið slegið föstu um rjett manna til að hagnýta sjer jarðhita. En jeg tel jarðhitann eitt af þeim gæðum, sem hverri jörð fylgja, og skoða hann þess vegna sem eign landeigandans. Og þegar verið er að setja löggjöf um þetta efni, finst mjer sjálfsagt, að það sje tekið skýrt fram.

Þá þótti hv. 3. landsk. það ósamræmi hjá mjer, að jeg skyldi ekki vilja auka rjett einstakra manna til að starfrækja jarðhita í annars manns landi, en hinsvegar kveða skýrt á um rjett landeigandans. Þetta finst mjer ekki ósamræmi. Jeg tel rjett, að landeigandi hafi forgangsrjett til að hagnýta sjer þessi gæði sinnar eigin jarðar, og að ekki eigi að veita öðrum þennan rjett. nema með samþykki hans.