19.03.1929
Neðri deild: 26. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í C-deild Alþingistíðinda. (2779)

6. mál, hveraorka

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get verið þakklátur þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls, því að jeg er alveg á sömu skoðun og þeir í mörgum atriðum. Jeg skal þó ekki tefja tímann með langri ræðu, þar sem jeg er í þeirri nefnd, sem málið fer væntanlega í. Í fyrra var jeg í sömu nefnd, allsherjarnefnd, og rannsakaði frv. þetta allítarlega, og rak mig þá á marga galla á frv.

Jeg legg aðaláherslu á, að aðeins verði heimilað að taka hveraorku eignarnámi til gagns fyrir hlutaðeigandi hjeruð eða landið sjálft til notkunar, en sje ekki ástæðu til þess að veita einstökum mönnum svo að segja jafnan rjett og landeigendum, og get ekki sjeð, að það sje samrýmanlegt stjórnarskránni.

Jeg get þakkað hv. 1. þm. S.-M. fyrir hans upplýsingar, en þær sýna, að hjer í þessu frv. er að ýmsu leyti gengið nær eignarrjetti manna en í vatnalögunum. Jeg skal taka á mig ábyrgðina af því, að þetta frv. var svæft í fyrra, og jeg lagði meira að segja að hæstv. atvmrh., að koma ekki fram með frv. aftur. Jeg sagði honum, að það þyrfti að samrýma það betur námalögunum og vatnalögunum. Þó að ef til vill þurfi löggjöf um þetta efni, þá verður ekki sagt, að það brjóti í bág við almenningsheill, þótt það dragist eitt ár eða svo, að það gangi fram, og legg jeg því til, að nefndin, sem hefir frv. til meðferðar, sem væntanlega verður allsherjarnefnd, leggi mikla vinnu í að bæta úr göllum frv., eða jafnvel vísi því aftur til stjórnarinnar til betri undirbúnings.