03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þakka hv. 2. þm. Árn. fyrir kensluna. — Það gladdi mig að heyra, að hann er ánægður með stefnu þá, er í frv. felst. Hann getur þá aldrei greitt atkv. gegn því. Þótt hann sje óánægður með einstök ákvæði, þá getur hann altaf komið brtt. að við 3. umr., en hlýtur að greiða því atkv. nú.

Hv. þm. talaði um, að hann hefði tilbúið frv. til l. um hreppstjóralaun. Þetta er alveg rjett, og jeg get upplýst hann um, að sýslumaður sá, er frv. hefir samið og sent honum, mun vera orðinn nokkuð langeygður yfir því, að það skuli ekki hafa verið látið koma fram. En jeg get þó vel fallist á það, að ekki sje rjett að láta það koma fram að svo stöddu, þar sem endurskoðun launalaganna stendur fyrir dyrum.

Hv. þm. talaði um, að ekki mundi auðið að fá embættisgengan lögfræðing í þessa stöðu fyrir aðeins 2000 kr. laun. En þar hefir hann ekki athugað, að hreppnum er ætlað að bæta við þá upphæð svo miklu sem með þarf til að fá mann. Það er hinn mikli kostur við þetta frv., að maður veit, hvað ríkissjóður þarf að leggja fram. Og jeg tel enga ástæðu til að ætla, að enginn fáist í embættið. Jeg hefi einmitt lesið það í merku blaði hjer í borginni — mig minnir að það hafi verið „Spegillinn“ —, að hv. 2. þm. Árn. hefði í hyggju að sækja um embættið. Ef þetta er rjett, þá er eðlilegt, að hann hafi áhuga fyrir því, hvaða laun fylgi embættinu. En það leiðir af sjálfu sjer, að hreppsnefndin verður að bæta það miklu á launin, sem þarf til að hann vilji embættið. (ÓTh: Ef þeir kæra sig þá sjerstaklega um hann!). En yfirleitt myndu frv. verða nokkuð umfangsmikil, ef í þeim ætti að taka alt fram, sem til einhverra mála gæti komið. Og það leiðir af hlutarins eðli, að það á ekki að taka neinn nauðugan í embættið.

Hv. 2. þm. Reykv. var að álasa n. fyrir að hraða málinu. Það er alveg nýtt, að nefndum sje álasað fyrir dugnað. Þær munu oftar vera átaldar fyrir seinlæti. Jeg get þó skilið, að hv. þm. þyki flýtirinn vera fullmikill, því nú eru um 3 vikur síðan n. klofnaði í einu máli, en hann er þó ekki enn farinn að skila nál. Í öðru máli er liðinn hálfur mánuður síðan n. klofnaði, en ekki er nál. komið frá honum heldur. Jeg hefi ekkert á móti því, að úr því verði skorið, hvor hluti n. vinni betur.

Sami þm. mintist á það, að rannsókn, er verið var að tala um hjer á þingi í fyrra, hefði ekki ennþá farið fram. Þetta er rjett. Meiri hl. þings fjelst ekki á það, að láta hana fara fram. En þetta mál er þó undirbúið. Hreppsnefndin sjálf stingur hjer upp á nýrri leið, vill gera sig að nokkurskonar tilraunadýri. Við vitum nákvæmlega, hvað þetta kostar ríkissjóð. Það álít jeg stórt atriði. Jeg er yfirleitt samþykkur hv. 2. þm. Rang;, að úr því að viðkomandi hreppur fer fram á þetta, þá sje Alþ. beinlínis skylt að verða við þeim óskum, þar sem kröfunum er svo mjög í hóf stilt, að fyrirkomulagið verður mun ódýrara fyrir ríkissjóð en það, er áður hefir verið haft í samskonar tilfellum.