31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Mér kom ræða hv. frsm. minni hl. dálítið á óvart, þegar ég bar hana saman við nál. hans. Hv. frsm. byrjaði ræðu sína með að tala móti málinu, það væri engin þörf á þessum skóla, jafnvel verra að fá hann en ekki. En hann endaði með að mæla með því, að frv. yrði samþ. Það væri búið að stofna skólann í heimildarleysi, og þá væri betra, að hann héldi áfram á lögmætan hátt. Ég mótmæli því, að skólinn hafi verið stofnaður í heimildarleysi. Á Alþingi fyrir 6 árum var heimilað, að þetta framhaldsnám færi fram, og seinna sá þingið ástæðu til að veita fé til þess.

Þá vil ég leyfa mér að leiðrétta misskilning á ræðu minni. Hv. frsm. skildist ég gera ráð fyrir, að 2 neðri bekkir gagnfræðadeildarinnar yrðu beinn undirbúningsskóli undir Menntaskólann. Um þetta var nokkur ágreiningur, og það er einmitt hv. Í. þm. Reykv., sem hefir haldið þessu fram, en ekki ég. Ég vildi samþykkja frv. með þessari einu breyt., sem meiri hl. gerði till. um, og með því ákvæði, að sérstakt inntökupróf verði í þennan 4 ára skóla, en að próf úr 2. bekk nægi ekki til inngöngu í Menntaskólann.

En þar sem ég talaði um sérstöðu Akureyrarskólans, átti ég einkum við þann sögulega rétt, sem það veitir, að þarna hefir gagnfræðaskóli starfað hálfa öld. Og hann hefir ekki verið eingöngu fyrir Akureyri eða héraðið. Hann hefir verið sóttur af mönnum víðsvegar að, og svo mun enn verða. Það má gera ráð fyrir, að þar verði betri kennslukraftar en annarsstaðar, svo að skólinn ætti að geta veitt betri alþýðumenntun en aðrir gagnfræðaskólar. Því fellst ég ekki á orð hæstv. ráðh., að þetta væri aðallega gert fyrir Eyfirðinga. Þó að fáir nemendur úr Laugaskóla leiti til annara æðri skóla, verða þó til menn, sem fara þaðan í 3. bekk á Akureyri. Það hafa nokkrir gert og síðan hætt námi. Þeir hafa ekki verið að hugsa um að ná stúdentsprófi, heldur að leita sér frekari framhaldsmenntunar. Annars er óþarfi að ræða um þetta hér, með hvaða skilningi eigi að samþykkja ákveðin lagafyrirmæli. Það, sem fyrir liggur, eru greinir frv. og brtt., sem við þær eru gerðar.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að eðlilegra væri að hafa ein lög um báða menntaskólana, vil ég benda á, að eins og hv. Ed. hefir frá málinu gengið nú og eins langt og liðið er á þingtímann, tel ég hættu á, að málið dagi uppi, ef farið er að breyta frv. eins mikið og ætlazt er til með brtt. hv. þm. Ekki er annað líklegra en að hv. Ed. mundi þá færa frv. aftur í svipað horf og var, þegar hún gekk frá því. — Ég get ekki séð, að þetta sé neitt aðalatriði í málinu. Honum fannst vera misrétti milli Reykjavíkur og Akureyrar, ef bæði frv. yrðu samþ., þar sem gagnfræðaskóli ætti að fylgja Menntaskóla Akureyrar, en tveir neðstu bekkirnir væru teknir neðan af Reykjavíkurskólanum. Ég sé ekki betur en að hér sé stofnaður sérstakur gagnfræðaskóli með lögum frá Alþingi, og annar, sem nýtur styrks af ríkisfé. Auðvitað væri það misrétti, ef gagnfræðabekkirnir á Akureyri skiluðu mönnum beinlínis inn í Menntaskólann. En til þess er ekki ætlazt.