14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í C-deild Alþingistíðinda. (1275)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Bernharð Stefánsson:

Ég ætla ekki að deila við hv. þm. V.-Húnv. um það, hversu mikið ríkið ætti að styrkja hafnargerðir almennt og á hvaða grundvelli; það getur og verið mikið álitamál, hvaða hlutföll skuli vera á milli ríkisframlaga til hafnar- eða bryggjugerða, en það, sem hv. þm. talaði um í því sambandi, er alls ekki tímabært nú. Hann átti að segja þetta í fyrra, þegar tekin var framtíðarákvörðun um slík framlög, en það tel ég að hafi verið gert með lögunum um hafnargerð á Skagaströnd. Þá var hv. þm. meðmæltur þessari stefnu, sem hann mótmælir nú. En það var kannske af því, að Skagaströnd er dálítið nær honum en sú höfn, sem hér er um að ræða. Nú eru aðeins örfáar mínútur síðan samþ. var hér í d. frv. um hafnargerð á Sauðárkróki, sem, byggt er á sömu meginreglu og í fyrra var ákveðin. Í þessu máli er því um það eitt að ræða, hvort Dalvík skuli njóta jafnréttis við aðrar hafnir eða ekki. Get ég tæplega ímyndað mér þá ósanngirni af hálfu hv. þm. V.-Húnv., að hann vilji leggja aðra reglu til grundvallar í þessu máli en öðrum hafnarmálum, og að hann álíti einn hrepp færari um að taka á sig stórar byrðir en heila sýslu. Ég get hinsvegar eftir atvikum sætt mig við þá lausn málsins, að sett verði heildarlög um hafnargerðir og stuðning ríkisins til þeirra, í stað þess að setja sérstök lög fyrir hverja höfn, enda virðist það mjög eðlileg leið, en hitt get ég með engu móti þolað, að mitt kjördæmi eða nokkur hluti þess verði órétti beittur í þessu máli. Það nær engri átt að hafa önnur hlutföll, er Húnvetningar eiga í hlut, þannig að þeim sé ætlaður meiri stuðningur af hálfu ríkisins.

Hv. þm. talaði um, að hér væri verið að tildra upp höfn. Ég held, að hv. þm. myndi ekki fara með svo staðlausa stafi, ef hann hefði kynnt sér þetta mál til hlítar. Mér skal vera sönn ánægja að sýna honum allar teikningar og áætlanir, sem fyrir liggja í þessu máli, og ætti hann af því að geta séð, að hér er ekki um tildur að ræða, heldur öruggt mannvirki.

Hv. þm. talaði um það, að héruðin borguðu sjaldnast þær ábyrgðir, sem ríkið tæki á sig þeirra vegna. Ég skal samt leyfa mér að fullyrða, að Svarfdælingar munu áreiðanlega ekki refjast við því að standa í fullum skilum; þeir hafa aldrei lagt það í vana sinn að taka lán og borga ekki. Þeir hafa sjálfir gert hjá sér samgöngubót fyrr en aðrir landsmenn án þess að heimta, að ríkið legði allt upp í hendurnar á þeim, eins og sum héruð gera, og í öllu sýnt þann manndóm, að þeim má fyllilega treysta til að standa við samninga. Hv. þm. var að tala um framkvæmdir á Suðurlandi til samanburðar, en slíkt er vitanlega alls ekki sambærilegt.