12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (1606)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Sigurðsson:

Hæstv. dómsmrh. sagði, að ég hefði sagt, að menn ættu að læra þetta hver á sínu heimili. Þetta er alls ekki rétt. Ég sagði, að á mörgum heimilum væri hægt að fá betri fyrirmynd en líkindi væru til, að þessi fyrirhuguðu fyrirmyndarbú gætu gefið. Jafnframt þessu tók ég það skýrt fram, að ég ætlaðist til, að þessi góðu bú yrðu ekki einungis þeim til fyrirmyndar, sem þar ættu heima, heldur gætu þeir menn, sem vildu, komið þangað og kynnt sér þessi heimili, og Búnaðarfélagið tæki þátt í þessu með því að skapa þessum mönnum aðstöðu til að dvelja á þessum heimilum um lengri eða skemmri tíma. Slíkt fyrirkomulag tel ég miklu heillavænlegra en þó að farið væri að tildra upp þessum svokölluðu fyrirmyndarbúum.

Þá minntist hæstv. dómsmrh. á húsmæðrafræðsluna í þessu sambandi. Hann sagði, að margar stúlkur lærðu á fyrirmyndarheimilum, og þó væru allir húsmæðraskólar fullir. Þetta getur verið alveg rétt, en mér er líka kunnugt um, að búnaðarskólarnir eru ekki fullir. Þar eru rekin fyrirmyndarbú, eins og allir vita, og meðan þeir eru ekki fullskipaðir af búfræðinemum, sýnist ekki ástæða til að setja á stofn fleiri skóla, sem eiga að kenna það sama eða líkt. (BÁ: Hér er aðeins um verklegt nám að ræða). Já, ég minnist á þetta aðeins af því, að hæstv. dómsmrh. nefndi húsmæðrafræðsluna til samanburðar.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég vildi leita uppi fyrirmyndarbú og láta unga menn læra þar. Þetta er alveg rétt. Það er það, sem fyrir mér vakir. Ég vil ekki spyrna á móti því, að ungir menn eigi kost á góðum fyrirmyndum, því að þær geta orðið þeim til mikils gagns. Ég vil bara fara aðra leið til þess en hæstv. ráðh., og ég held, að sú leið sé bæði heppilegri og ódýrari. Ég vil nefnilega fara þá leið, að búnaðarfélögin semji við fyrirmyndarbændur, sem taka svo að sér að leiðbeina mönnum í því, sem þeir vilja, svo sem öllum heyskaparstörfum, t. d. allskonar vélavinnu, ennfremur jarðrækt og skepnuhirðingu, sitt á hverjum stað, eftir því hver veitir bezta fræðslu í hverju starfi. Á þennan hátt er hægt að fá betri fræðslu en með því að eiga að læra allt á sama stað, því að þessi fyrirmyndarbú mundu varla veita eins góða fræðslu á öllum sviðum og margir beztu bændur til samans.

Hv. þm. Mýr. sagði, að ég hefði hugsað mér, að þessi bú yrðu eitthvert ónýtt fálm eða tildur; það væri hægt að semja við ágæta bændur. Já, það væri hægt, en það er ekki eins víst, að það yrði gert. Búnaðarfélagið hefir nú í 3 undanfarin ár haft eitt slíkt fyrirmyndarbú, og ekki hefir það fengið neinn fyrirmyndarbónda þangað, heldur útlærðan landbúnaðarkandidat. (BÁ: Það er allt annað). Þetta mun nú samt hafa verið svona, og það var komið í haust til fjvn. og átti að fá tugi þúsunda til þessa bús. (Forsrh.: Það er tilraunabú). Eftir flutningi málsins fyrir n. skildist mér, að það ætti að vera til fyrirmyndar fyrir sérstaka landshluta.

Samkv. þeirri reynslu, sem fengizt hefir, þá er í mínum augum mjög lítil sönnun fyrir því, að þeir menn, sem valdir yrðu, séu starfi sínu vaxnir. Eins og ég benti á áður, þá hafa umsóknir komið fram um eitt og annað, t. d. til að fá stöðu við kynbótabú, og ég býst við, að það sé oft svo, að þeir menn sem sækja fastast um slíkar stöður, séu hvað ólíklegastir til að geta leyst þau störf vel af hendi.