01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

34. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vona, að hv. d. hafi tekið eftir svigurmælum hv. 3. landsk., þegar hann var að tala um flutninga varðskipanna á sjúklingum og sjómönnum milli hafna á þeim tímum, sem um engar aðrar skipsferðir er að ræða. Þegar vinir hans og flokksmenn þurfa að hreyfa sig á þeim tíma, sem engar skipsferðir eru, þá er hann til með að leita til ríkisins um aðstoð varðskipanna og finnst ekki nema sjálfsagt, að því sé tafarlaust sinnt. Þetta minnir á framkomu eins af flokksbræðrum hv. 3. landsk. í hv. Nd. fyrir nokkru síðan, þar þar sem hann hélt því fram, að Reykjavík ætti að hafa einskonar hærri rétt en aðrir kaupstaðir á landinu. Hv. 3. landsk. álítur sig og sína flokksmenn hafa hærri rétt til varðskipanna heldur en sjómenn, sem þurfa að komast ferða sinna vegna atvinnu sinnar, og skammar svo stj. fyrir að liðsinna þessum mönnum.

Hv. 3. landsk. var að vitna í almannaróm um óþarfa ferðir varðskipanna. En sá almannarómur er ekki annað en rógur sorpblaða hans og fylgifiska hans m. a. fyrir það að flytja dauðvona sjúkling eftir ósk hv. 3. landsk. Fyrst biðja þessir menn stj. um greiða og eru næsta auðmjúkir, en svo á eftir, þegar þeir hafa fengið óskum sínum framgengt, reyna þeir á allar lundir að rægja stj. fyrir hjálpina. Á þann hátt þakka þeir og launa góðan greiða, og sýnir fátt betur innræti þessara manna.

Hitt er sízt að furða, þó að hv. 3. landsk. og fylgifiskar hans séu lítið upplitsdjarfir, þegar minnzt er á för varðskipsins síðastl. haust í sambandi við Íslandsbanka-útibúið á Seyðisfirði. Vegna þess að stj. lét varðskipið skjótast þangað austur með mann til þess að rannsaka rekstur bankans, vitnaðist, að eytt hafði verið af fé bankans í einhvern ötulasta kosningarsmala íhaldsins þar á staðnum um 800 þús. kr. tvö síðustu missirin. Ekki er ósennilegt, að eitthvað af því fé hafi óbeinlínis farið til Íhaldsflokksins. En hv. 3. landsk. hefði eflaust verið betra á meðan hann var í stj. að hafa sent varðskipið austur með mann til þess að líta eftir útibúinu á Seyðisfirði. Þá hefði kannske eitthvað bjargazt af því fé, sem nú má telja með öllu tapað. En sofandi stj. sendir ekki varðskipin með menn til nauðsynlegra eftirlitsstarfa, þó hún telji sjálfsagt að nota þau til að koma blaðapökkum til Björns Líndals eða annara gæðinga sinna.

Hv. 3. landsk. sveigði að sjóðþurrð Karls Einarssonar fyrrv. sýslumanns og þótti óviðeigandi, að honum skyldu vera greidd eftirlaun. Því er til að svara, að um það leyti, sem stjórnarskiptin urðu, barst stj. áskorun undirskrifuð af meiri hl. þm. um að greiða Karli Einarssyni eftirlaun. Undir áskoruninni mun þó ekki hafa staðið nafn hv. 3. landsk., en mikils hluta af flokki hans. En vegna þessarar eindregnu áskorunar mikils meiri hl. hv. þm. mun, stj. ekki hafa þótzt geta gengið framhjá því að veita Karli Einarssyni eftirlaun.

Hv. 3. landsk. var líka að finna að því, að þessum sama manni hafði verið fengin ýms störf að vinna af. núv. stj. Ég sé ekkert á móti því, þó að gáfaðir menn eins og Karl Einarsson séu notaðir til ýmsra verka. Og allra sízt ætti hv. 3. landsk. að vera með svigurmæli þar um, þar sem vitanlegt er, að hann eða sú stj., sem hann fylgdi að málum, hefir sett sýslumann, sem komst í gífurlega sjóðþurrð, í eitthvert virðulegasta embætti þjóðarinnar, þar sem hann er enn. Að vísu var það kallað svo, að vinir þessa sýslumanns og flokksmenn hv. 3. landsk. hefðu greitt sjóðþurrðina, en maðurinn var stórbrotlegur við embættisskyldu sína og átti undir öllum kringumstæðum ekki skilið að fá ábyrgðarmikið starf hjá því opinbera. Enda er það ekki samanberandi að setja mann til smávika og minni starfa, ósamningsbundið, sem brotið hefir í bág við embættisskyldu sína áður, í stað þess að troða slíkum manni inn í eitthvert stærsta og virðulegasta embættið, sem stj. hefir á boðstólum.

Um misnotkun loftskeytatækja á íslenzkum togurum þarf ég ekki margt að segja. Um þá misnotkun hafa engir upplýst betur en Ágúst Flygenring, þm. Borgf., þm. Barð. og hér í hv. d. hv. þm. Snæf. Allir þessir hv. þm. hafa fullyrt það oft og mörgum sinnum, að loftskeytatækin væru í togarana sett með það fyrir augum fyrst og fremst að gera þeim auðveldara fyrir að komast inn fyrir landhelgina til að stela fiski þar. Og andstaða hv. 3. landsk. gegn ráðstöfunum núv. stj. er sprottin af því eingöngu, að hann veit, að nú er alvarlegar tekið á þessu máli og að vinum hans og flokksbræðrum er gert á ýmsa lund örðugra fyrir að geta leikið lausum hala í landhelginni, eins og í hans stjórnartíð. Enda veit ég ekki betur en að núv. stj. hafi aukizt fylgi í sumum sjávarþorpunum, og þá líkl. ekki hvað sízt fyrir afskipti hennar af þessu máli. Má í því sambandi geta þess, að nú í vetur hefir fallið tvisvar vantrauststill. á stj. í Ólafsvík, og það í kjördæmi, sem verið hefir svo að segja einlitt og á móti stj. En þetta stafar af því, að meira hefir verið gert af núv. stj. til þess að verja fiskimið þessara sjávarþorpa fyrir ágangi togara heldur en gert var í tíð íhaldsstj., sem jafnan hefir reynt að halda hlífiskildi yfir landhelgisbrjótunum.