01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (2829)

34. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Halldór Steinsson):

Ég vildi aðeins leiðrétta misskilning hæstv. dómsmrh., sem kom fram í sambandi við vantraustsyfirlýsingu þá, er hann segir, að fallið hafi á þingmálafundum í mínu kjördæmi. Þegar þessi vantrauststill. kom fram á Ólafsvíkurfundinum, var búið að samþ. 2 eða 3 till., sem fólu í sér engu minna vantraust á hæstv. stj. Ég lét algerlega afskiptalausa þessa umræddu till. og átti hvorki þátt í því að flytja hana eða styðja. Það er óþarfi fyrir hæstv. dómsmrh. að leggja svo mikið upp úr trausti því, er hann og hans stj. eigi að fagna í Ólafsvík, og byggja það á því, að þessi sérstaka till. var felld, þegar athugað er, að áður á fundinum höfðu verið samþ. till., sem beint og óbeint fólu í sér vantraust á stj.