12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

34. mál, landhelgisgæsla

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég ætla ekki að lengja umr. til neinna muna, þó ég standi nú upp. Ég vænti eins og hv. þm. Borgf., að frv. þetta verði að lögum á þessu þingi. — En þegar ég kvaddi mér hljóðs, þá var það vegna þess, að mig langaði að skýra mína afstöðu til málsins, þó að ég hafi raunar gert það áður, en þá í sambandi við annað mál. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, og flokksmenn mínir líka, að ekki eigi að draga úr viðleitni til öryggis manna á sjó, heldur miklu fremur beri að auka hana. Þór var upphaflega keyptur til þess að vera björgunarskip, sem síðar leiddi til, að hann var notaður til landhelgisvarna á svæði, sem nú er betur varið en áður. En það eru ýmsir staðir með ströndum fram, sem ekki eru varðir eins og skyldi, af því að það vantar skip til þess.

Um fiskirannsóknirnar vildi ég aðeins mega benda á, að það er ekki vansalaust fyrir okkur, sem erum stærsta fiskiþjóð í heimi, miðað við fólksfjölda, að hafa ekki betri tök á að rannsaka fiskimiðin í kringum landið. Rannsóknir á fiskigöngum hafa þegar verið byrjaðar, og því nauðsynlegt, að þeim sé haldið áfram. Ég vil líka geta þess, að Norðmenn og Danir halda árlega úti rannsóknarskipum í þessu skyni. Og nú eru Bretar að undirbúa skip til fullkominna rannsókna á svæðinu kringum Ísland og alla leið til Grænlands, með það fyrir augum að finna fiskimið. Fiskiþjóðunum í kringum okkur er orðið það fullljóst, að þessa gullnámu í kringum strendur landsins þurfi að rannsaka, og ég get ekki betur séð en að við getum ekki staðið þegjandi hjá og látið aðra um slíkar rannsóknir. Nýja skipið ætti að geta fullnægt þessari þörf að nokkru leyti. Og með tilliti til þessa vil ég bæta því við, að ég álít óhjákvæmilegt, að skip þetta verði byggt í síðasta lagi í lok þessa árs, svo að það geti með næstu vertíð byrjað rannsóknir sínar hjá Vestmannaeyjum.