01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (3697)

19. mál, fræðslumálastjórn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég hefi litlu að svara hv. þm. V.-Húnv., vegna þess að hv. þm. V.-Ísf. tók af mér ómakið og sýndi greinilega fram á það, að kennarar þurfa ekki að vera fáráðlingar, eins og hv. þm. gaf í skyn, þó að þeir hefðu þörf fyrir leiðbeiningar um kennsluaðferðir og nýjungar á þeim sviðum. Hv. þm. V.-Húnv. talaði um kennara, sem væru nýkomnir frá prófborðinu. Það er eins og hann haldi, að alltaf séu til nýir kennarar með prófi, en það er kunnugt, að margir af þeim, sem fást við barnakennslu, eru búnir að starfa að kennslu í mörg ár, og sumir hafa aldrei tekið kennarapróf.

Í kennslumálunum koma fram breytingar með hverju ári, sem líður, og á sumum sviðum eru teknar upp áður óþekktar kennsluaðferðir. Þó að í þessari hv. þd. hafi nýlega verið samþ. frv. um nokkra launahækkun til farkennara, þá þarf enginn að láta sér koma til hugar að halda því fram, að kennararnir geti varið sumrinu til þess að auðga anda sinn og læra til viðbótar sínum fræðum. Þeir verða að nota sumrin, eftir sem áður, til þess að vinna fyrir sér og skylduliði sínu. Farkennaralaunin verða, eftir því sem til er ætlazt, ekki hærri en það, sem bændur, a. m. k. hér á Suðurlandi, verða að greiða fjármönnum í vetrarkaup. Og þeir menn, sem gegna fjárhirðingu að vetrinum fyrir þau kjör, munu telja sér þörf á að vinna líka yfir sumarið.

Annars fór hv. þm. V.-Húnv. með ýmsar fjarstæður, sem ekki eru svaraverðar. Meðan það ástand helzt, sem nú er í þessum efnum, þá kemur það ekki til mála, að við höfum efni á að launa kennarastöður í sveitum svo, að launin fullnægi kennurunum til lífsuppeldis. Og meira að segja, þó að launauppbót sú, sem liggur fyrir þinginu, verði samþ., þá getur kennslan ekki orðið aðalstarf þess manns, sem hefir fyrir fjölskyldu að sjá. Það er svo margt, sem getur komið til greina með breyttum kennsluaðferðum og fleiri nýjungum í fræðslumálum, að það er ekki ástæða til að hneykslast á því, þó að eftirlitsmaður komi til kennara einu sinni á ári, og það jafnvel þó að gengið sé út frá því, að kennararnir séu ekki „fáráðlingar“, heldur vel skynsamir menn. Og í þessu frv. er einmitt á því byggt, að kennarastéttina skipi áhugasamir og nýtir menn, en ekki „fáráðlingar“.