01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í C-deild Alþingistíðinda. (1624)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Sigurður Eggerz:

Ég ætla aðeins að koma með örstutta aths. út af ræðu dómsmrh. Ég var hissa á því í gær og aftur í dag, að hæstv. ráðh. skyldi sérstaklega snúa sér til mín og setja þetta mál svo fast í samband við sjálfstæði landsins sem hann hefir gert. Að svo miklu leyti, sem hægt er að skoða virkjunarmálið í sambandi við sjálfstæði, þá hefi ég fyrir löngu lýst yfir afstöðu minni til þess máls, en hún er sú, að ég var hræddur við að veita erl. félögum sérleyfi til að vaða með milljónir inn í landið, sbr. Titanleyfið, án þess að landsmenn sjálfir gætu haft taumhald á þeim milljónum. Við þessa hættu var dómsmrh. ekki hræddur. En sérleyfi eins og þessi voru einmitt eða gætu verið hættuleg fyrir sjálfstæði landsins. En hver trúir því, að það sé hætta fyrir sjálfstæðið, að landsins börn vinni ljós og hita úr sínu eigin fossafli? Eða er of bjart yfir sveitunum og er of mikill hiti á sveitabýlunum í vetrarkuldunum svo að dómsmrh. sjái ofsjónum yfir því.

Ég er glaður yfir þeirri stefnubreyt., sem komið hefir á virkjunarmálið, að landsmenn sjálfir fari að virkja, í stað þess að erlendum félögum væri veitt sérleyfi.

Ég vildi láta athuga í n., hvort málið sé nægilega undirbúið tekniskt og fjárhagslega. Ég er hissa, þegar dómsmrh. með augunum til himins er að tala um sjálfstæði og þessa ábyrgð, en leggur þó sjálfur með glöðu geði út í ábyrgð fyrir Landsbankann, sem nemur 30 millj. og margfalt meira en það. Ég var á móti þessari ábyrgð fyrir Landsbankann, því að ég var viss um, að það gæti verið athugavert fyrir lánstraust þjóðarinnar yfirleitt og margfalt betra að styrkja bankann svo að hann ætti kraftinn í sjálfum sér, en þyrfti ekki að sækja hann í ríkisábyrgðina. Landsstj. hefir ekki horft til himins, þegar hún var að hvetja þingið til að taka þá ábyrgð.

Ég er forviða, að þegar það mál kemur á dagskrá, sem hefir það að marki að útvega sveitunum hita og ljós, þá skuli því vera mætt með svona miklum þjósti.

Ég kom með fyrirspurn til dómsrh. í gær, en henni hefir ekki verið svarað. Í tilefni af því, sem hann sagði um Eimskipafélagið, þá tók hann það sem dæmi upp á það, hve illa færi fyrir þeim, sem ekki væri vel stæðir. Eimskipafélagið býður út skip sín til vátryggingar og hefir vanalega tryggt þau í Kaupmannahöfn, en Sjóvátryggingafélagið gerði boð í vátrygginguna, sem var 37000 kr. undir dönsku tilboðunum, sem öll voru jöfn, en þegar Handelsbankinn, sem Eimskipafél. skuldar á aðra millj. kr., fær að vita þetta, þá neitar bankinn að taka vátrygginguna gilda. En þetta er þeim mun merkilegra sem Handelsbankinn hefir áður tekið tryggingu Sjóvátryggingafélagsins gilda, þegar félagið endurtryggði hjá dönskum fél., en nú endurtryggir það hjá enskum fél., sem eru engu síður sterk en þau dönsku. Niðurstaðan varð sú, að nú vátryggir Eimskipafélagið helminginn hjá dönsku félögunum, en helminginn hjá Sjóvátryggingarfél., en með dönskum taxta.

Svo grátt erum við leiknir af danska bankanum, að hann neitar að taka gilda tryggingu Sjóvátryggingarfél. af því að endurtryggingin var ensk. Enginn getur vænzt þess, að Eimskipafél. sé svo sterkt, að það geti borgað upp sína skuld við danska Handelsbankann. Það er spurning hvort ekki sé hættulegt fyrir þjóðina og lánstraust landsins í Englandi, þegar opinberlega er sýnt slíkt vantraust á tryggingafélögum landsins. Ég álít því, að stj. ætti að gera allt, sem í hennar valdi stæði, til þess að Eimskipafélagið þyrfti ekki að beygja sig undir þessa kúgun. Ég fjölyrði svo ekki um þetta meira.