24.03.1931
Neðri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (682)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Meiri hl. fjhn. hefir borið fram brtt. á þskj. 220. — Eins og menn muna, þá úrskurðaði hæstv. forseti við 2. umr. þessa frv., að tvær gr. þess gætu ekki komið til atkv., vegna þess, að þær gengju of nærri 36. og 73. gr. stjskr. Þessar gr. voru 8. og 17. gr. frv. nú er það svo, að úrskurður hæstv. forseta er í þessu máli æðsti réttur. Er því þýðingarlaust að gera hann að umtalsefni nú, enda þótt hann sé nokkuð vafasamur. Samhljóða gr. voru samþ. hér á þingi í fyrra, og sá þá enginn neitt athugavert við Það.

Vegna þess, að þessar gr. voru ekki bornar undir deildina að þessu sinni, þá verður ekki vitað, hvernig deildin litur á efni greinanna, ef þær eru bornar fram í því formi, að ekki þyki rekast á ákvæði stjskr. Nú er því efni þessara gr. borið fram á þskj. 220 í öðrum umbúðum. Efni brtt. er, að hækka megi eða lækka tekju- og eignarskattinn um 25% eitt ár í senn, eins og var lagt til í frv. En formbreytingin er sú, að í stað þess, að í frv. var lagt til, að þetta væri ákveðið í fjárl. fyrir eitt ár í senn, þá er í brtt. lagt til, að ríkisstj. sé veitt heimild til hins sama. Nei kynni að vera álitið, að í þessu formi rekist till. enn á ákvæði stjskr. En gagnvart því áliti vil ég nú þegar benda á 1. nr. 53 frá 1928, þar sem samskonar ákvæði, bæði að efni og formi, og hér eru borin fram, eru lögfest og hafa gilt síðan, án þess að það þætti eða hafi þótt nokkuð athugavert.

Þá vil ég stuttlega minnast á þær aðrar brtt., er fyrir liggja. Hafa sumar þeirra komið fram áður, svo sem brtt. 205 frá hv. þm. Dal., sem hann tók aftur við 2. umr. Samskonar till. að efni til hafa líka komið fram frá hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf. Gildir því um allar þessar till. sameiginlega það, sem ég segi um brtt. 205.

Þegar meiri hl. fjhn. í fyrra setti í frv. það ákvæði, sem nú er í h-lið 11. gr. þess, um að draga megi frá tekjum áður en skattur er á þær lagður, aðeins helming aukaútsvara og helming tekjuskatts og eignarskatts, þá var hugsunin með því, að það mætti vega nokkurnveginn á móti þeirri tekjurýrnun, sem hækkun persónufrádráttarins hefir í fór með sér. Till. um hækkun persónufrádráttar þótti ekki fært að gera, nema eitthvað kæmi í staðinn, svo að tekjur ríkissjóðs af skattinum rýrnuðu ekki. Ef gengið er að þessari brtt. á þskj. 205, þá er fallinn niður sá grundvöllur, að raska ekki tekjum ríkissjóðs. Þó einhver af þessum till. verði samþ., þá er ekki víst, að það leiði til lækkunar á tekju og eignarskatti manna, því sú samþykkt gæti orðið til, að till. yrðu gerðar til hækkunar á skattstiganum. Hjá því verður ekki hægt að komast, nema þá að tekjur ríkissjóðs minnki af þessum skatti.

Það er nú ekki svo gott að gera sér fulla grein fyrir því, hve miklu þessi lækkun muni nema. Ég hefi þó reynt að gera lauslega áætlun um það, og byggi ég hana á því, að skattskyldar tekjur landsmanna séu alls 30–40 millj. kr., eins og verið hefir undanfarin ár, og að meðalskatthæð sé 31/2 %. Mætti samkv. því ætla, að tekjur ríkissjóðs rýrnuðu um 90 þús. kr., ef till. yrði samþ. En við það má svo bæta því, að allar tekjur falla við það í skattstiganum. Hve miklu sú rýrnun á tekjum ríkissjóðs kunni að nema, er ekki gott að segja, en þess má geta til, að hún geti numið 30–50 þús. kr. Er þá tekjurýrnun samkv. þessari till. á annað hundrað þús. kr.

Þá skal ég minnast á brtt. á þskj. 191. Á fyrri till. hefi ég þegar minnzt. Fyrri liður síðari till., á, 1 2, er till. um að hafa misháan persónufrádrátt. Lágu samskonar till. hér fyrir frá meiri hl. mþn. í skattamálum í fyrra, en voru þá felldar. Um þetta skal ég ekki segja annað en það, að ég er, eins og fyrr, persónulega meðmæltur því, að persónufrádrattur sé gerður mismunandi eftir mismunandi dýrtíð í landinu. En ég býst varla við því, að deildin fallist á þetta fremur nú en þá,

Loks er b-liður till. Ég skal ekki gera hann neitt sérstaklega að umtalsefni. Það, sem þar er farið fram á, er sanngjarnt. En þó gæti það valdið óvissu og ruglingi í framtali manna.

Þá kem ég að brtt. 232, frá hv. 2. þm. Skagf. Um þessa brtt. var nokkuð rætt við 2. umr. Var brtt. þá tekin aftur eftir tilmælum n. En nú er hún aftur komin fram, og er þá um till. og liðinn í frv. að velja. Það getur naumast orðið mikið ágreiningsmál, hvor leiðin er farin. En telja má, að sú leið, að leggja verðlagsskrárverðið til grundvallar sé eðlilegasta og réttasta leiðin, því það er hið eina löggilta verðlag, sem til er. En ekki get ég þó gert það að verulegu ágreiningsatriði, hvor leiðin er farin. Þó verður þetta umstangsminna eftir frv.

Þá kem ég loks að hinum fyrirferðarmiklu brtt. hv. þm. Ísaf. á þskj. 209. þessum till. felast í raun og veru aðeins tvær verulegar efnislegar breytingar. Það er þá fyrst hækkun á skattstiganum. Það annað, að lagt er til, að félög séu skattlögð eftir nærri sömu reglu og einstaklingar. En þessi tvö atriði eru svo framsett í brtt., að þau verða að falla eða standa hvort með öðru. Að því er snertir skattstigann, þá gildir hið sama og ég hefi oft tekið fram áður, að sú hækkun, sem lögð er til, er beint tekin af skattstofni sveitanna og lögð til ríkisins. Þetta er alveg sambærilegt við till. sparnaðarn. 1922, sem átti að rannsaka, hversu mætti draga úr útgjöldum ríkisins. Hennar aðalbjargrað var það að taka útgjöldin af ríkissjóði og færa þau yfir á sveitirnar! Hér er um alveg sambærilega till. að ræða. Hún fer fram á að taka af skattstofni sveitarfélaganna og leggja þá til ríkisins. Af þeim ástæðum get ég ekki fallizt á till. hv. þm. Ísaf.

Hinar aðrar till. eru minni háttar, og getur verið álitamál, hvort ekki sé rétt eða a. m. k. meinlaust að samþ. sumar þeirra. Ég sé t. d. enga ástæðu til að leggjast á móti því, að gefnir séu lengri frestir hér í Reykjavík en annarsstaðar á landinu, ef það telst nauðsynlegt. — Ýmsar aðrar till. eru svo lítið frábrugðnar frv., að ég get látið alveg hlutlaust, hvort þær verða samþ. eða ekki. Ég vil þó sérstaklega minnast á 5.c-lið till. Hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá tekjum samvinnufélaga skal draga varasjóðstillag það, sem ákveðið er í 24. gr. laga nr. 30, 27, júní 1921. Af framlagi af ársarði hlutafélaga má draga 1/3 hluta“. — Ég minnist þess, að við 1. umr. þessa frv. taldi hv. þm. Ísaf., að sitt frv. um tekju- og eignarskatt væri frábrugðið frv. stj. að því leyti, að frádráttarheimildin á lögboðnu varasjóðstillagi samvinnufélaga væri nýmæli í sínu frv. En svo er ekki. Hv. þm. hefir sezt yfir þetta í 8. gr. stjfrv. og er betur frá því gengið þar.