20.03.1931
Neðri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (868)

20. mál, búfjárrækt

Jón Sigurðsson:

Ég ætlaði ekki að kveðja mér hljóðs við þessa umr., því að hv. frsm. hefir gert svo ítarlega grein fyrir afstöðu n., að engu er þar við að bæta frekar. En það var ræða hæstv. forsrh., sem gaf mér tilefni til þess að standa upp. Hann réðist á n. með þjósti miklum í gær og taldi okkur hafa spillt frv. með brtt. okkar. Nú hefir hann gefið form. n. og frsm. einskonar syndakvittun með skjalli sínu, svo að þá erum það við hinir nm., sem sitjum eftir í syndinni. Ég ætla ekki að bera fram varnir fyrir okkur; við munum standa jafnréttir þrátt fyrir stóryrði ráðherrans. En ég get ekki látið hjá líða að drepa nokkuð á frv. í heild og einstök atriði þess, einkum þau, sem við höfum flutt brtt. við.

Það kemur fram í frv. sú varhugaverða stefna, sem einkum hefir gert mjög vart við sig nú á síðustu árum, að ef einhverjum dettur eitthvað nýtt í hug, þá beri að lögbinda það umsvifalaust, án allrar frekari athugunar og reynslu, jafnvel þótt það hafi stórlega aukin útgjöld fyrir ríkissjóð í för með sér. Sumt í frv. þessu er tekið upp, vegna þess að það hefir verið reynt eitthvað erlendis, en þess ekki gætt, að þar eru allt önnur skilyrði fyrir hendi en hér. Sem dæmi má nefna, að norska ríkið á nokkra kynbótahesta, en það kemur ekki af því, að það sé í rauninni hörgull á kynbótahestum þar í landi, heldur er það vegna þess, að eigendur ágætra kynbótahesta hafa sett folatollinn svo háan, að fátækir bændur hafa ekki getað notað folana fyrir þá sök. Þessi ráðstöfun er þess vegna þarfleg eftir því, sem þar hagar til. Hér á landi hagar svo til, að folatollar eru yfirleitt afarlágir, sem stafar af því, að eftirspurnin eftir folunum er svo lítil, að eigendur hestanna fá ekki nógu margar hryssur, handa þeim og því gagnstætt því, sem er í Noregi. Svona er ýmislegt í frv., sem byggt er á skokkum grundvelli og miðað við kringumstæður og staðhætti, sem ekki eru fyrir hendi.

Ennfremur má í þessu sambandi benda á, að Búnaðarfélaginu, sem hæstv. forsrh. er formaður i, er ætlað að hafa með höndum ýmiskonar tilraunastarfsemi í búfjárrækt, meðal annars í ýmsu því, sem þetta frv. fjallar um. Búnaðarfélagið hefir nú og á undanförnum árum haft um kvart milljón króna til umráða frá ríkinu í því skyni, en ýmsar þeirra eru ógerðar enn. Ég held þess vegna, að við ættum að láta Búnaðarfélagið gera frekari tilraunir með ýmislegt, sem eftir frv. á að lögbinda, enda þótt engin fullnægjandi reynsla sé enn fengin um margt af því. T. d. má benda á samkeppnissýningarnar. Ég má segja, að Búnaðarfélaginu hefir verið skrifað eitthvað um það, og málið hafi legið fyrir Búnaðarþingi, en búnaðarþingið ekki viljað sinna málinu. En nú er þessu kastað óhugsuðu inn í þingið og á að lögskipast, aðeins af því að ráðunautarnir hafa stungið upp á þessu, en ríkissjóður á að borga brúsann. Þannig er það með flest af því, sem n. hefir lagt til að breyta; hún taldi sér skylt að sýna þá varfærni að lögbjóða það eitt, sem fullar líkur væru til að kæmi að verulegum notum, og binda ríkissjóði hóflegar skyldur á þessum erfiðu tímum.

Það var meira en broslegt, að heyra hæstv. forsrh. vera að belgja sig upp út af till. n., eins og hann gerði í gær, eftir að hv. frsm. hafði flutt ræðu sína. Fyrr mátti nú vera fádæma rembingur. Það var engu líkara, ef eitthvað mætti marka fullyrðingar ráðh., en að við værum með till. okkar að steypa landbúnaðinum ofan í það ástand, er ríkti hér á 17. öld, enda varð mörgum að brosa að gífuryrðum og bægslagangi ráðh. Ræðumaður virtist ganga út frá því, að þdm. hefðu ekkert vit á þeim málum, er verið var að ræða. Það má nú fyrr vera, að halda fram sínu máli, ellegar að hafa slíkar firrur og fjarstæður í frammi. Það er óviðfeldið að heyra þvílíkt úr ráðherrastóli. — Af því ráðh. hampaði mjög ráðunautunum og þóttist styðjast við þeirra vilja, þá skal ég geta þess, að ráðunautarnir störfuðu með n.brtt. okkar, og annar þeirra bauðst jafnvel til þess að semja brtt. viðvíkjandi nautgriparæktinni. Við vissum því ekki annað en að brtt. þær, er n. flytur, væru einnig samþ. og studdar af þeim. Það má nú vel vera, að þeim hafi fundizt við ganga heldur langt í einstöku till., en þar sem við nm. og ráðunautarnir vorum búnir að koma okkur saman um aðalatriði brtt. okkar, þá höfðum við ástæðu til að halda, að þeir stæðu fast við þær, eins og venja er í nefndum. Ég vildi aðeins geta þessa, vegna þess að hæstv. ráðh. flaggaði svo mikið með nöfnum ráðunautanna og þeirra skoðunum.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, ætla ég ekki að fara að taka að mér að verja gerðir n. Ég tel þess ekki þörf, par sem hv. frsm. hefir gert það svo rækilega í sinni ræðu; heldur vildi ég aðeins skjóta fram þessum aths. um einstök atriði í brtt. n.