22.08.1931
Efri deild: 39. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

132. mál, hýsing prestssetra

Jón Jónsson:

Ég er sammála hv. 1. landsk. um það, að það sé gott að gera byggingar úr varanlegu efni, og held líka, að frv. komi í veg fyrir, að svo verði ekki gert, með því að það ákveður, að stjórnarráðið skuli samþykkja teikningar að húsunum.

Hvað því viðvíkur, að brtt. mínar, ef þær verða samþ., muni koma prestunum í vandræði, þá held ég, að það sé misskilningur, því að þótt svo illa til tækist, að kostnaður færi allverulega fram úr því, sem áætlað er, þá er það ákveðið í frv., að ríkissjóður skuli greiða helming þess umframkostnaðar, og í annan stað, að ef presturinn á erfitt með að greiða hinn helminginn, þá er gert ráð fyrir, að kirkjujarðasjóður veiti honum viðbótarembættislán. Þá virðist hann vera tryggður, en ef reynslan sýnir annað, efast ég ekki um, að þingið myndi breyta ákvæðum frv. í samræmi við þá reynslu. Ég álít því rétt að takmarka upphæðina eins og gert er í brtt. mínum.