20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. Reykv. hefir áður tekið þá réttilega fram, að honum hefir ekki borið að standa mér reikningsskap af gerðum sínum sem eftirlitsmanni, enda hefir hann aldrei gefið mér neina skýrslu um þetta starf sitt. Ég minnist þess heldur ekki, að hv. þm. hafi nokkru sinni átt tal við mig um ástæður Stefáns Th. Jónssonar, og hefði heldur enga þýðingu haft, þar sem ég embættislega hefi aldrei haft með bankann að gera eða milljónaskuldendur hans. Töp Íslandsbanka skiptast á tugi manna, sem fengu meira eða minna ógætileg lán hjá bankanum. Þess vegna er ábyrgðin, sem hvílir á hv. 1. þm. Reykv. í þessu sambandi, sú, að hann atti að aðvara ekki eingöngu bankastj., heldur og einnig fjmrh., ef hann sá, að hætta var á ferðum, og fengi hann enga áheyrn hjá þessum aðiljum með aðvaranir sínar, bar honum skilyrðislaust skylda til að snúa sér til þingsins í þessum efnum. Töp Íslandsbanka á Copland einum námu á fjórðu millj. kr., og allverulegur hl. af þessari upphæð tapaðist eftir það, að hv. 1. þm. Reykv. atti að vera orðinn auga lands og þjóðar á bankanum. Það má vera, að hv. 1. þm. Reykv. hafi aðvarað bankastj., en hann brast skyldu sinni með því að aðvara þingið ekki í þessum efnum, eins og greinilega hefir komið fram í rannsókn hv. 2. þm. Reykv., sem er vinur og flokksbróðir hans, á útlánastarfsemi bankans, því að sú rannsókn leiddi m. a. í ljós, að Íslandsbanki hefði getað komizt hjá að tapa svo skipti hundruðum þúsunda á þessum manni einum, sem ég nefndi áðan, ef kippt hefði verið í taumana 1925, en að svo varð ekki, er að einhverju leyti sök eftirlitsmannsins, sem að vísu kann að hafa aðvarað bankastj., en brást algerlega þeirri skyldu að aðvara þingið a. m. k.