28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

463. mál, fátækralög

Magnús Torfason:

Ég á hér brtt. á þskj. 546, um það, að l. gildi aðeins til 31. des. 1935. Með henni vil ég lýsa skoðun minni á þessu máli, en hún er sú, að þetta beri aðeins að skoða sem tilraun, og það jafnvel tilraun, sem er ekki sem bezt undirbúin. Þessi brtt. þýðir því það, að þingið neyðist til að endurskoða þessa löggjöf eigi síðar en á þinginu 1935. Ég hefi ekki viljað ákveða frestinn lengri. Ef svo ólíklega vildi til, að Alþ. yrði ekki búið að endurskoða fátækralöggjöfina fyrir þennan tíma, þá má alltaf framlengja þessi lög frá ári til árs.

Það, sem gerir mig myrkfælinn við frv. þetta, er það, að mér virðist það ekki hafa fengið nógu rækilegan undirbúning. Í því efni vil ég leyfa mér að benda á, að engar ástæður eru færðar fram fyrir því, af hverju fátækraframfærið kemur svo misjafnt niður. Ekki eru heldur neinar upplýsingar um það, hvað af þurfamannastyrknum gangi til þurfamanna innansveitar og hvað til þeirra þurfamanna, er dvelja utan framfærslusveitar. En um þetta hefðu þurft að liggja fyrir gegnar og góðar upplýsingar, áður en málinu væri ráðið til lykta.

Það sem aðallega gerir mig myrkfælinn við þetta frv., er, að ekki er ólíklegt, heldur jafnvel sennilegt, að svona lagaðar breyt. geti orðið til þess að draga úr sparsemi manna á sveitarfé til fátækraframfæris. Dreg ég það af því, að reynslan hefir sýnt, að þar sem sveitarlimur hefir af einhverri ástæðu verið látinn vera áfram í dvalarsveit, sem hefir greitt 1/3 af framfæri hans, þá hefir ekki sama sparnaðar verið gætt og þar, sem þurfalingurinn dvelur í sinni eigin sveit. Kvartanir, kærur og úrskuðir hafa verið næstum óteljandi í þeim héruðum, þar sem ég hefi átt yfir þessum málum að segja. Ég held því, að þetta geti orðið til þess, einkum þar, sem lítil sveitarþyngsli eru, að ekki verði eins sparlega farið með sveitarfé. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að það er alsiða í sveitum, að bændur haldi gömul vinnuhjú sin endurgjaldslaust að öðru en því, að þau kunna að fá einhvern lítilsháttar styrk úr ellistyrktarsjóði. Ef þetta frv. verður samþ., er hætta á, að úr þessu dragi. Þetta er að vísu gert af mannúð gagnvart góðum og gömlum hjúum. En það er líka og e. t. v. öllu heldur gert af samhuga vilja manna um að spara sveitarfé. Ég þekki þessa hreint ekki svo fá dæmi. Þetta kemur fram sem samábyrgð bænda á hjúum sínum og er sízt að lasta.

Ennfremur get ég hugsað mér og býst við, að talsvert megi fara í kringum þessi lög. A. m. k. er einn útvegur til að geta fengið nokkuð í aðra hönd vegna þeirra gjalda, sem til hafa fallið. Það er að láta lítil útgjöld koma fram annað árið, en safna þeim til hins ársins og komast þar með yfir meðaltal, til þess að fá endurgreitt eitthvað af fátækraframfærinu. Eftir að sveitabúskapurinn fór að bera sig illa, þá hafa líka sveitargjöldin borgazt treglegar sum árin, og er þá hætt við, að menn noti sér þetta, til að fá jöfnuð á tekjur og gjöld sveitarfélaganna. Ég vil t. d. geta um Grafningshrepp. Eftir þeirri skýrslu, sem fylgir frv., voru þar engin útgjöld vegna fátækraframfæris árið 1930. Mun það og rétt vera. En nú er komin krafa á þennan hrepp upp á 3300 kr., sem eykst með mánuði hverjum. Þarna eru 82 menn. Ef þessu væri nú deilt á þá, og þeir tækju lán til þess að borga þessa upphæð, þá myndi sú skuld komast upp í nál. 40 kr. á hvern mann og er það sennilega meira en hið hæsta, sem getið er um í þessari skýrslu.

Ég get, af framansögðu, ekki neitað því, að ég er nokkuð myrkfælinn við þetta. En hinu er ekki heldur hægt að neita, að eðlilegt væri, að nokkur jöfnuður kæmist á fátækraframfærið.

Af því, sem ég hefi sagt, er það augljóst mál, að ég verð að greiða atkv. móti brtt. á þskj. 551.

Að því er þá brtt. snertir, að miða útgjöldin við tölu karla þeirra og kvenna, sem gjald greiða til ellistyrktarsjóðs, þá tel ég það betra en að miða við manntalið. Það er nú víða svo í sveitum, að fátt er þar af fólki, öðru en bornum og gamalmennum, en sárálítið af vinnandi fólki. Þessi mælikvarði er því réttlátari. Ennfremur mælir það með þessum mælikvarða, að þessar skýrslur, sem gerðar eru vegna ellistyrktarsjóðanna, eru teknar nákvæmast upp, nákvæmar en nokkrar aðrar skýrslur, sem ég þekki. Stafar það af elsku þeirri, er menn bera til ellistyrktarsjóðanna, að menn vilja efla gengi þeirra sem mest.

Ég sem sé skoða þetta sem tilraun og get því ekki gefið frv. atkv. mitt, ef brtt. mín á þskj. 546, sem takmarkar þann tíma, er þessi tilraun á að gilda, verður ekki samþ.

Hv. 4. landsk. var óblíður í garð brtt. á þskj. 526, um að færa sveitfestistímann úr 4 árum niður í 2 ár. Ég get ekki neitað því, að mér kom þetta nokkuð á óvart. Þessi till. fer í þá átt, sem á að vera stefna þessa frv., að framfærsla þurfalinga fari sem mest saman við dvalarsveit þeirra. Þessi till. fer lengst í þá átt. Og ef hún verður samþ., þá gefur hún reynslu á þessum tíma um það, hvernig þetta muni gefast. Ef á það verður fallizt, að dvalarsveitin eigi að ráða sveitfesti, þá yrði eftir þessa reynslu hægara að gera sér hugmynd um og mynda sér skoðun um það, hvað heppilegast mundi reynast. Hv. 4. landsk. hafði það einkum á móti þessari till., að hann taldi hana mundu verða til þess, að sveitarstjórnirnar færu að velta þurfamönnunum hver yfir á aðra. Vildi hann halda því fram, að þegar sveitfestistíminn var styttur úr 10 árum og færður niður í 4 ár, þá hefði þetta aukizt stórum. Mér er nú ekki kunnugt um, að þetta sé rétt. Ég þekki engin dæmi, er sanna það, hvorki úr mínu héraði né öðrum. Það er einmitt þvert á móti. Ég vil fullyrða, að slíkum tilfellum hefir fækkað. Þeim harðræðum, sem notað voru áður um þetta efni, hefir yfirleitt fækkað jafnt og þétt í þau 38 ár, sem ég hefi verið sýslumaður. Í gamla daga var það algengt að beita ýmsum brellum og harðræðum til að koma í veg fyrir að sveitfesta þurfamenn. Að þetta hefir minnkað býst ég við, að hækka megi vaxandi mannúð og því, að nú er litið þannig á þessi mál, að sveitarstjórnir telja sig ekki lengur geta verið þekktar fyrir slíkt athæfi. Það hefir því orðið stórbreyting í þessum sökum. Ég get í þessu sambandi vitnað í dæmi, sem voru þekkt og gerðust nokkru áður en ég kom í embætti. Það kom fyrir, að þurfamönnum, sem sveitarstjórnir voru orðnar leiðar á, var komið fyrir á visst heimili, af því að reynsla var fyrir því, að þar gátu þeir ekki lifað lengur en 2 ár, hreint ekki lengur. Slíkt hefi ég ekki orðið var við á síðari tímum. Og slíkt þróast nú ekki lengur, eftir því sem straumar tímans hafa fallið. Því hefir þessi tilhneiging, að velta þurfamönnum á milli framfærsluhéraða, minnkað jafnt og þétt, og eins eftir að sveitfestistíminn var færður niður í 4 ár. Þetta er mín reynsla, og ég hygg, að enn muni þokast í sömu átt, þótt þessi tími verði færður niður í 2 ár. Þessi till. hefir það einmitt til síns ágætis, að hún er spor í rétta átt til þess takmarks, sem mannúðarmenn leggja áherzlu á og vilja vera láta. En ég játa, að ég tel ekki gerlegt að taka stærra stig í þessu máli, er svo mjög snertir hvern mann á landinu. Ég tel betra að fara hægt og þoka þessu í áttina, eftir því sem reynslan sýnir, að bezt fer á.