09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2817)

30. mál, vigt á síld

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Ég skal strax taka það fram, að ég ætla ekki að fara að blanda mér í deilur þeirra hv. þm. G.-K. og hv. þm. Ísaf. En ég vil benda á, að hv. þm. Ísaf. hefir ekki treyst sér til að halda því fram, að ekki væri töf að því að vega síld. Kom þetta greinilegast í ljós eftir að hann hafði svarað ræðu hv. 1. þm. Rang., enda er enginn vafi á því, að slíku er ekki hægt að halda fram, a. m. k. ekki af þeim, sem einhverja þekkingu hafa á þessum hlutum. Sennilega er það því framkvæmdarstjóri Samvinnufél. Ísfirðinga einn, sem leyfir sér að halda því fram.

Þá sagði hv. þm., að annaðhvort þyrfti að vega alla síld eða þá mæla hana alla. Ég get ekki séð, að þetta sé nein nauðsyn og hv. flm. hefir engin rök fært fram til stuðnings þessum fráleita einstrengingshætti. Það er aðalatriðið fyrir mér, að útiloka ekki þann möguleika að mæla síldina þegar báðir aðiljar, seljandi og kaupandi, óska þess, því að það er af öllum, sem til þekkja, viðurkennt að vera miklu fljótlegra en að vega hana. Gerir það afgreiðslu skipanna því miklu greiðari. Auk þessa er frv. eins og það er nú beinlínis óþarft brot á samningsfrelsi manna, sem virðist með öllu óhafandi.