21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2824)

30. mál, vigt á síld

Bjarni Ásgeirsson:

Ég hefi ekki fylgzt með í þessum umr., því að ég hefi verið veikur undanfarið og hefi af þeim ástæðum ekki getað sótt þingfundi, en vil þó hinsvegar gera grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Það getur ekki leikið neinn vafi á því, að nauðsynlegt er að leita einhvers óskeikuls úrræðis um afhendingu bræðslusíldar. Er það nauðsynlegt bæði vegna kaupanda og seljanda þessarar vöru, að ákvörðun síldarmagnsins sé fullkomlega örugg, og auk þess hefir þetta mikla þýðingu fyrir sjómenn, því að venjulegast er kaup þeirra að meira eða minna leyti miðað við afla skipanna, sem þeir eru á, vegna premiuráðningarinnar. Ég skal nú játa það, að fyrst þegar þetta mál var til umr. hér í þinginu, fyrir ári eða svo, var ég í nokkrum vafa um það, að rétt væri að fyrirskipa með lögum, að öll bræðslusíld skyldi vegin, og þá fyrst og fremst af því, að ég óttaðist, að órannsökuðu máli, að vigtun síldarinnar væri svo seinleg, að ekki yrði við unað, þegar mikið bærist að af síldinni í einu, eins og oft er, því að síldveiðarnar ganga í bylgjum, svo að eina stundina veiðist lítið eða ekkert, en aðra stundina fyllir hvert skip sig á augabragði, og ríður þá á, að losunin geti gengið greiðlega. Þá var mér og ekki heldur fullkomlega ljóst, hvort það yfirleitt væri heppilegra að vega síldina en að mæla, hvor aðferðin væri öruggari o. s. frv., en ég hefi nú aflað mér upplýsinga um þetta hjá fróðum mönnum á þessa hluti, og segja þeir mér, að það sé öruggara og nákvæmara að vega síldina en að mæla hana, og þó alls ekki seinlegra. Hníga þessar upplýsingar þannig í aðra átt en yfirlýsing forstjóra löggildingarstofunnar, sem hér hefir verið lesin upp, en ég verð að leggja meira upp úr kunnugleika þeirra manna, sem ég hefi mínar upplýsingar frá, enda hefir ýmislegt komið fram í umr., sem bendir til þess, að miklir örðugleikar séu bundnir við það að fá fram löglega mælingu á síldinni, t. d. verður það ekki tryggt, að hið lögboðna síldarmagn sé í málunum, vegna þess, hve síldin er misþung, þegar hún er afhent og mæld. Þó er annað, sem er enn þyngra á metunum í þessu máli frá mínu sjónarmiði en það, sem ég nú hefi nefnt, og er það, að alltaf má búast við, að upp rísi deilur út af mælingu síldarinnar. Er þar skammt að minnast Krossanesmálsins, sem var pólitískt illdeilumál hið mesta, og nú annað mál samkynja komið til, sem virðist ekki ætla að verða minna illindamál en hið fyrra var. Sýnir rétta, að mæling síldarinnar er það miklum vandkvæðum bundin, að alltaf má búast við deilum og rifrildi út af mælingunni. nú má að vísu segja, að jafnt megi svíkja hvort sem heldur er vog eða mæli, ef kaupendur síldarinnar á annað borð vilja leggja sig niður við slíkt, og er þetta að vissu leyti rétt. Vil ég í þessu sambandi taka það fram, vegna ummæla, sein fallið hafa hér í umr., að ég hefi haft margháttuð kynni af forstjórum Kveldúlfs nú í mörg ár, og vegna þeirrar viðkynningar er ekki skuggi af efa um það hjá mér, að þær misfellur, sem orðið hafa á Hesteyri í þessum efnum, hafa ekki orðið fyrir tilverknað eða með vitund forstjóranna, og þegar svo getur farið heiðarlegum mönnum í hvóvetna, að þeir verði fyrir þungum og alvarlegum ásökunum af þessum hlutum, hljóta menn að geta fallizt á það, að æskilegt sé að koma þeirri skipun á þessi mál, að slíkt komi ekki fyrir eftirleiðis. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hefi aflað mér um þessa hluti, þykir mér sem meiri trygging sé fengin fyrir þessu með því að vega síldina en með því að mæla hana, og af þeim ástæðum m. a. mun ég greiða þessu frv. atkv. mitt.