05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

1. mál, fjárlög 1933

Héðinn Valdimarsson:

Við hv. þm. Seyðf. skiptum þessum stutta ræðutíma á milli okkar. — Það voru aðallega orð hæstv. forsrh., sem koma mér til að tala nú. Ég átti vantalað við hann frá því í gær, en ég hafði hugsað mér að tala ekki um það nú. En nú kemur hann aftur með sömu orðin og í gær, til þess að reyna hræða menn út um land á því, að það séu byltingamenn og verkfallsmenn, sem hann og Framsóknarflokkurinn eigi í höggi við. Hann talaði um ábyrgððarleysi okkar jafnaðarmanna og þakkaði mér fyrir þá hreinskilni að segja, að við berum ekki ábyrgð á löggjöf og öðru, sem við samþ. ekki. Ég get ekki á sama hátt þakkað hæstv. forsrh. fyrir hreinskilni í sínum stjórnmálaræðum hér á þingi. Það er augsýnilegt, að það eru ekki rök, sem hann vill ræða í þessum málum, heldur tilfinningarnar og allan þann róg, sem Tíminn og önnur blöð stjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafa reynt að koma inn hjá þeim mönnum, sem ekki lesa málgögn jafnaðarmanna.

Hæstv. forsrh. kemur klökkur til okkar fyrir hönd stj. og biður okkur um að opna vasa landsmanna fyrir stj., sem situr á móti vilja þeirra. Hann vill fá okkur bókstaflega til að stela peningum þjóðarinnar, því að það mundum við gera, ef við létum stj., sem styðst við minni hl. þjóðarinnar og berst móti vilja meiri hl. í þingmálum, hafa ótakmarkað fé. Við jafnaðarmenn teljum okkur bera ábyrgð á okkar verkum gagnvart umbjóðendum okkar, alþýðunni hér á landi, en ekki á verkum andstæðinga hennar. En ég get í stuttu máli sagt það um þing Íslendinga, að það er ekki svo skipuð samkoma, að íslenzk alþýða ráði þar með fulltrúum sínum. Hún á hér enga fulltrúa nema Alþýðuflokksmennina, enda er það einungis innan Alþýðufl., sem alþýðan ræður, hverjir fulltrúar séu í kjöri, eins og það er einungis í Alþýðuflokknum, sem starfað er að hennar hagsmunum. Eins og kjördæmaskipun og löggjöf er nú, er ekki hægt að segja, að alþýðan eigi mikinn rétt í landinu, hvorki á þingi né utan þings. Hún ætti að hafa öll ráðin, og það er það, sem Alþýðuflokkurinn vinnur að. — Ég vil svo að endingu óska þess, að áheyrendur fylgi framvegis þeim flokki, sem þeir telja hafa beztan málstað, án tillits til þess, hvaða flokki þeir hafa áður fylgt. Góða nótt, þið öll, sem hlýðið á!