29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (3498)

71. mál, sauðfjármörk

Lárus Helgason:

Ég tel, að mér sé ekki vandlifaðra í því efni en öðrum að mega víkja ofurlítið frá efninu. Hæstv. forseti d. deildi á mig fyrir það, að ég hefði komið óheppilega fram í refamálinu fyrir nokkrum árum. Man ég ekki til þess, að ég hafi komið þarna óheppilega fram. Vann ég þá í landbn. og lagði ásamt meðnm. mínum mikið verk í refamálið. Sönnun hans fyrir því, að ég hefði ekki haft rétt fyrir mér í því máli, var sú, að tófur hefðu komið í Skaftafellssýslu sumarið eftir. En ég benti þá á það, að heppilegra myndi að snúa sér í málinu eins og Skaftfellingar gerðu, að eyða refunum algerlega, sem tókst svo vel, að refur sást ekki í V.-Skaftafellssýslu um 25 ára bil. Ég sleppi því að tala meira um þetta mál, og það því fremur, sem ekkert refamál er á dagskrá, en sný mér að því málinu, sem til umr. er. Hika ég ekki við að fullyrða, að sýslunefndir eru þeir réttu aðilar, er hafa eiga málið til meðferðar. Sé ég ekki, hvernig hægt er að ætlast til þess, að Alþingi geti útbúið lög, er átt geti betur við um allt land en það fyrirkomulag, sem verið hefir til þessa tíma. Hv. 1. þm. Árn. taldi upp svo og svo margar sýslur, þar sem fé gengi saman. Ættu menn að geta komið sér saman um að hafa ekki sammerkt í þessum sýslum. Veit ég ekki betur en að það sé sjálfsögð regla, þegar markaskrár eru prentaðar, að — fá markaskrár úr þeim sýslum, sem fé rennur saman úr, og hafa til hliðsjónar. Held ég, að ekki væri skaði að því, þótt málinu væri ekki hraðað úr hófi fram. A. m. k. ætti að vera óhætt að fara að ráðum minni hl. og láta málið ganga til héraðanna. Veit ég, að ekki er gott að meina mönnum að taka upp mörk, en mér þykir einkennilegt, ef menn sækjast eftir því að eiga sammerkt við menn, sem búa í nágrannasýslum. Það hlýtur að vera áhugamál allra hlutaðeigenda að koma þessu á an þess að hafa allsherjarlög fyrir landið. Er það verk sýslufélaga, þar sem fé gengur saman, að bæta úr annmörkunum.

Ég gleymdi áðan að minnast á það, að hv. 1. þm. Árn. var að beina því til mín, að ég væri svo þröngsýnn, að ég sæi ekkert út fyrir mitt umhverfi. Hv. þm. líkti mér í þessu efni við indverska fakira. Mér er það ekki lagið að horfa eins hátt og hv. þm. gerir venjulega, og við því er ekkert meira að segja. En ég læt mig það engu skipta, hvort hann telur mig þröngsýnan eða víðsýnan. Ég fer minna ferða fyrir því, enda þekkja mig fleiri menn heldur en hv. þm., sem ekki mundu undirstrika þessa samlíkingu.

Hv. 1. þm. Eyf. þarf ég litlu að svara. Hann vék litið að fyrri ræðu minni. Hann vildi halda því fram, að sýslunefndirnar væru ekki færar um að leysa þetta starf af höndum. Hann segir, að að það úi og grúi af sammerkingum og komi það að enn meiri sök en áður, vegna þess að vötn hafi verið brúuð og samgöngur því betri. Ég get látið duga sem svar við þessu hið sama og ég tók fram áður. Annars hygg ég að þess gæti nú ekki mikið í þessu sambandi, þó vötn hafi verið brúuð. Þau eru það víst óvíða uppi á fjöllum, þar sem þó féð heldur sig yfir sumartímann. En auk þess setur sauðfé það ekki fyrir sig, þótt það verði að synda yfir stórar, ef það hefir hug á að komast yfir þær. Það er sannanlegt, að fé hefir strokið úr Ölfusi í Árnessýslu og austur í Skaftafellssýslu og synt yfir allar þær stórar, sem þar eru í milli.

Ég skal svo ekki hafa mál mitt lengra. Ég tel víst, að rökst. dagskráin verði samþ., því ég tel, að hún eigi fullan rétt á sér.