07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

66. mál, lögreglumenn

Jónas Jónsson:

Þegar frv. með svipuðu nafni og innihaldi var borið fram í Nd. fyrir 7 árum, þá mætti það mikilli mótspyrnu og ég hygg, að það hafi aldrei komið úr n., því að stj., sem bar það fram, komst að þeirri niðurstöðu, að í því formi, sem málið var þá, mundi það ekki verða sigurvænlegt. Síðan hefir það legið niðri, þangað til óeirðir, sem stafa af nokkuð vaxandi fylgi kommúnista hér í bæ, hafa 2—3 sinnum orðið í sambandi við bæjarstjórnarfundi og leitt til þess, að málið hefir verið tekið upp aftur, en þó að nokkru leyti á nýjum grundvelli. Ég geri ráð fyrir, að þó þetta mál hafi ekki verið tekið ýtarlega fyrir af Framsóknarflokknum, þá séu skoðanir manna þar nokkuð öðruvísi en hjá hinum tveim ræðumönnum, sem hafa talað hér nú. Ég geri ráð fyrir, að Framsóknarfl. vilji styrkja lögregluna í Rvík og vilji hjálpa til þess, að óróaseggir geti ekki hamlað fundum og starfsfriði manna og borgaralegu lífi hér í Rvík og annars staðar. En þó menn geti að þessu leyti verið samþykkir hæstv. ráðh., þá býst ég við, að skilji mjög á um leiðir, um formið. Ég geri ráð fyrir, að það verði hlutverk okkar framsóknarmanna að hafa nokkuð mildari áhrif á báðar hendur í þessu efni, eins og reyndar svo mörgum öðrum. Ég ætla fyrst aðeins að víkja að aðalefni frv. og ætla þá fyrst að taka það fram, að nafnið, sem er á þessari viðbót, verður ekki til þess að auka vinsældir. Fyrir landsmönnum, sem eru utan Rvíkur, stendur það þannig, að uppþot, sem hafa orðið hér nokkrum sinnum upp á siðkastið, séu nokkuð staðbundin við Rvík. Þessi uppþot hafa alltaf stafað af ósamkomulagi milli atvinnurekenda og verkamanna hér í bæ. Engin af þessum uppþotum hafa verið pólitísk, ekki til að kollvarpa þjóðskipulaginu. Þannig er þetta frv. eftir minni hyggju byggt á misskilningi. Það, sem Rvík virðist fyrst og fremst þurfa að gera, er það að styrkja sína eigin lögreglu, svo að hún sé a. m. k. sambærileg við það, sem gerist í öðrum bæjum af svipaðri stærð. Lögregluliðið hér í bæ þyrfti a. m. k. að vera helmingi stærra, þannig að í staðinn fyrir 30 lögregluþjóna yrðu þeir 60. Það er h. u. b. víst, að ef lögregluþjónarnir hefðu verið 60 9. nóv., hefðu þeir klárað sig alveg í uppþotinu, sem þó var það illkynjaðasta, sem fyrir hefir komið hér, af því bæði að kommúnistar reyna alltaf að nota sér slíka atburði til óeirða, og þar að auki var málið illa undirbúið af bæjarstjórninni, með því að hún hafði ekki einu sinni samúð sinna eigin flokksmanna yfirleitt. Það var yfirleitt álitið illt verk, sem meiri hl. bæjarstj. hafði gert. Og það er ómögulegt að neita því, að flokkur sá, sem styður hæstv. dómsmrh., spilaði upp í hendurnar á óróaseggjunum með því fyrst að skapa þetta tilefni, að færa niður kaup þeirra, sem ekki höfðu nema hálfs dags vinnu, í öðru lagi með því að láta hátalara kalla þessar umr. út á torgið, og í þriðja lagi með því, að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) hélt hina ósvífnu ádeiluræðu á fátæklinga bæjarins. (JakM: Það er tilhæfulaus haugalygi). Allur bærinn veit það. En menn eru náttúrlega ekki hissa á því, þó hv. þau. vilji ekki kannast við það fyrir þinginu. Þetta er einmitt sá þm., sem átti frekastan þátt í þeim hermdarverkum, sem urðu þá um daginn, vegna þess, sem hann sagði til hinna hungruðu í bænum. En meiri hl. bæjarstjórnar lærði það af reynslunni að halda fundi annarsstaðar en á opnum götum eins og hann gerði þá, og það er hyggilegra fyrir margra hluta sakir.

Ég býst við, að fjöldamargir þm. muni kæra sig jafnlítið um að taka málstað kommúnistanna og þeir kæra sig um að taka málstað þeirra manna, sem báru ábyrgðina á því, að þessar æsingar gátu orðið 9. nóv. Það virðist sem þessi framkoma meiri hl. bæjarstj. hafi verið löguð til þess að skapa ófrið, og það varð ekki til þess að auka sæmd meiri hl. bæjarstj. Til þess hafði hún í frammi of mikla ósvífni framan af deginum og of mikið hugleysi síðari hluta dagsins.

Það hvorki á né má kenna frv. við ríkislögreglu, heldur á þvert á móti að koma fram í nafni frv., að hér er eingöngu um það að ræða, að ríkið styðji Rvíkurbæ til að efla lögreglulið bæjarins. Því að það kemur vitanlega ekki til mála, að ríkið fari að taka að sér syndir þeirra manna, sem svo gálauslega fara með málefni Rvíkurbæjar og raun bar vitni 9. nóv. síðastl., enda er það kunnugt, að sumir áhugamestu flokksmenn hæstv. dómsmrh. vildu í haust vopna nokkur hundruð manns, og jafnvel nokkur þúsund, að því er mér skildist á hv. 2. landsk. þm., og slíkur liðsdráttur kostar mikla peninga, og er eðlilegast, að sá borgi brúsann, sem ölið kaupir, sem er Rvíkurbær, er hefir verið svo giftulaus að þurfa að hlíta handleiðslu íhaldsins um málefni sín. Landið hefir aðeins einu sinni þurft á her að halda, vorið 1931, þegar íhaldið fór geystu liði hér um götur bæjarins. Þá vorum það við framsóknarmenn, sem urðum fyrir óspektunum, en við sáum þó ekki ástæðu til að taka það hátíðlega og fara að hervæða jafnvel þúsundir manna, þótt þeim rynni í skap, æstustu íhaldsleiðtogunum hér í Rvík. Það er höfuðgalli þessa frv., að frv. er byggt á þeim misskilningi, að ríkið þurfi á slíku herliði mörg hundruð manna að halda, og með tilliti til þess, hvern hug flokkur hæstv. dómsmrh. hefir sýnt löggæzlunni og réttarfarinu í landinu með því að velja hann í dómsmálaráðherrasætið, verður sízt ástæða til þess að fara að heimila stj. ótakmarkaðan liðsdrátt á ríkisins kostnað. Ég álít það heilbrigt og rétt af löggjafarvaldinu, að það hjálpi Rvíkurbæ til að efla bæjarlögregluna sómasamlega, borið saman við lögreglu í jafnstórum bæjum erlendis, en þótt ég líti þannig á, að vel geti komið til mála, að ríkið styðji Rvíkurbæ að þessu leyti, jafnvel svo að nemi í 1/6 af kostnaði bæjarins vegna lögreglunnar, sem væri viðráðanlegt og gæti samsvarað kaupi þessara 10 manna, sem frv. tekur til, kemur þó ekki til mála, að fara að veita neinni ríkisstjórn né neinum öðrum vald til þess þannig, að hafa ótakmarkaðan liðsdrátt á ríkisins kostnað, og myndi enda opna dutlungafullum atvinnurekendum leið til þess þannig fyrst að fremja sín ósvífnu verk og síðan að heimta ríkisábyrgð á framferði sínu. Ég álít, að það eigi að vera rannsóknaratriði, hve mikið á að auka lögregluna hér í Rvík fram yfir hina venjulegu lögreglu, sem nú er. Gæti ég ímyndað mér, að sæmilegt væri að stækka lögregluna um helming, upp í 60 manns, og bæri Rvíkurbær 5/6 kostnaðar, en ríkið 1/6 kostnaðar, sem mundi gefa bænum nægilegt aðhald til þess að hafa viðbótarkostnaðinn ekki meiri en nauðsynlegt væri, en ef svo skyldi vilja til einhvern tíma, að fleiri manna þyrfti við, er hægurinn á fyrir hverja ríkisstj. sem er að gefa út bráðabirgðalög um slíka nauðsýnlega aukningu á lögreglunni. Ég álít, að það hafi verið skaði, að stj. skyldi ekki gera þetta nú, því að þótt þetta e. t. v. sé ekki fjárhagsspursmál, er hér þó um réttarfarsspursmál að ræða, sem getur verið hættulegt fyrir stj. í þessu efni. Ef einhver stj. undir slíkum kringumstæðum eykur lögregluna langt fram yfir það normala, hefir Alþingi í höndum sér að láta hverja slíka stj. standa reikningsskap af gerðum sínum.

Þeir, sem standa að þessu frv., mega búast við því, að erfitt verði að fá miðflokk eins og Framsfl. til þess að ganga inn á að heimila stj. að hafa ótakmarkaðan liðsdrátt á kostnað ríkisins, sem jafnvel getur orðið ár eftir ár, og ef þeim er alvara að leysa þetta mál á skynsamlegan hátt, eiga þeir að fallast á, að lögreglan hér í Rvík sé aukin, því að þá geta þeir verið vissir um samvinnu við marga úr Framsfl., ef ekki alla þm. flokksins. Því lengra hinsvegar sem gengið verður í þá átt að heimta ótakmarkaðan her og ótakmarkaða eyðslu vegna þessa hers, sem jafnframt mundi leiða til fjölgandi uppþota og óeirða, því meiri verður einnig mótstaðan á móti þessu frv. Spái ég því, að erfitt verði að halda þessu máli til streitu, ef hinar vinnandi stéttir í sveitum og bæjum landsins fylkja sér á móti málinu. Er hyggilegast að fara ekki lengra en svo, að fólkið í landinu, sem ber hita og þunga dagsins, sannfærist um það, að hér sé öllu í hóf stillt og aðeins svo að gert sem nauðsynlegt er að gera.

Ég vil gera nokkrar aths. út af ræðu hv. 2. landsk. þm., sem rakti hér nokkuð gang málanna 9. nóv. síðastl. Býst ég ekki við, að það verði gróði fyrir hv. þm. né flokk hans að ráðast á lögreglu bæjarins út af atburðum þessa dags. Fólk hafði safnazt saman svo þúsundum skipti til að hlusta á bæjarstjórnarumr., sem íhaldsmenn höfðu verið svo óhyggnir að láta varpa með hátölurum út á götu. Var mikill æsingur í mönnum vegna kauplækkunar bæjarstj., og þó ekkert síður vegna liðsdráttar og æsinga kommúnista, sem notuðu óspart þessa óhyggilegu kauplækkun íhaldsmeirihl. í bæjarstj. til þess að æsa fólkið upp. Varð þetta allt til þess að draga hina mörgu, rólegu og skynsömu verkamenn þessa bæjar út í æsingarnar, og þegar upphlaupsmennirnir ætluðu að ráðast á bæjarfulltrúana og meina þeim að komast burt, skarst lögreglan í leikinn, og geri ég ekki ráð fyrir, að það sé hyggilegt að áfellast lögregluna fyrir það. Lögreglan gat ekki annað gert, fremur en her gefur upp land og þjóð fyrr en hann er sigraður. Og hinni fámennu lögreglu hér tókst að bjarga bæjarfulltrúunum gegnum æsingahringinn. Lögreglan mátti ekki að því spyrja, hvort málstaður íhaldsmeirihl. í bæjarstj. var vondur eða góður. Lögreglan gat ekki yfirgefið bæjarfulltrúana, enda þótt hún fordæmdi málstað þeirra. Lögreglunni bar að vernda bæjarfulltrúana, úr því að þeir þurftu á vernd hennar að halda, og það var ekki lögreglunnar að skera úr því, hvort málstaður þeirra væri góður eða vondur út frá siðferðilegu sjónarmiði. Það er kjósendanna að segja bæjarfulltrúunum sína meiningu í því efni, þegar kosningar verða næst. Að lögreglan hefði átt að, bjarga sínu eigin skinni og láta óspektirnar ganga út yfir bæjarfulltrúana er ekki frambærileg ástæða, enda veit ég ekki, hvort hv. 2. landsk. þm. hefir átt við það. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að í þrönginni kringum templarahúsið, sem skipti þúsundum, var a. m. k. helmingurinn vinir og flokksbræður íhaldsmeirihl. í bæjarstj., og hefði ekki verið til mikils ætlazt, þótt að einhver af þessum fjölda stillti til friðar í þrönginni, en svo virðist sem ekki einn maður hafi haft manndóm í sér til að styðja lögregluna í því að vernda bæjarfulltrúa íhaldsins og sýnir það með fleiru, hve málstaður íhaldsmeirihl. í bæjarstj. 9. nóv. almennt var fordæmdur hér í bænum.

Ég vil þá aftur víkja nokkrum orðum að stj., sem ber þetta frv. fram, og vil ég þá fyrst benda á það, að í nálægum löndum er fengin glögg reynsla í þessum efnum. Fyrir nokkrum misserum kom þannig fyrir atvik í norðurhéruðum Svíþjóðar, sem getur verið gott að hafa í huga í sambandi við þetta mál. Það stóð þarna yfir verkfall, og landshöfðinginn kallaði til hermenn til aðstoðar. Varð þetta til þess, að í róstum lenti milli hermanna og verkamanna; gripu hermennirnir til byssunnar og skutu á verkamennina, og féllu nokkrir verkamenn dauðir til jarðar fyrir skotum þeirra. Þetta atvik hafði þau áhrif í Svíþjóð, er mér óhætt að segja, að allir flokkar þar í landi eru sammála um það, að slíkt megi ekki koma fyrir aftur. Sænska þjóðin lítur svo á, að ekki komi til mála að fara svo að verkamönnunum, og þessi niðurstaða Svía ætti að gera okkur enn varkárari í þessum efnum. Áður hafði ekki komið til slíkra átaka í Svíþjóð, enda gripu þessir atburðir djúpt inn í lífsskoðanir og stefnur borgaranna. Hermennirnir höfðu ekkert illt í hyggju, en þeim var skipað að skjóta á verkamennina og gerðu það, og eflaust óhapp að sumu leyti, hvernig fór. Samt er þetta almennt fordæmt í Svíþjóð, en hershöfðinginn, sem gaf hermönnunum þessa skipun, var kallaður morðingi í aðalblaði verkamanna. Ritstjórinn var lögsóttur fyrir meiðyrði. Hann fékk dóm, sem dómsmálastjórnin treystist ekki til að framkvæma, og nú er þessi ritstjóri kirkjumálaráðherra í landinu. — Hvílík fásinna það er, ef Alþingi heldur, að hægt sé að vopna t. d. 600 menn og leggja kostnaðinn af því á alþjóð manna, sést einmitt bezt á þessu, að þjóðirnar, sem hafa herinn, þora ekki að beita honum. af því að slíkt líðst ekki, að verkamenn séu skotnir niður eins og veiðidýr. Þótt ekki sé sagt í frv., að vopna eigi ríkislögregluna með byssum, þarf enginn að ætla, að lögreglan verði látin óvopnuð, og ég óska ekki eftir þeim degi, er stjórnin lætur vopnað lið, t. d. 1000 menn, ráðast að þeim 1000 sjómönnum, sem skapa verðmætin, sem þessi bær lifir af, til þess að berja þá niður, enda býst ég ekki við, að sjómennirnir gefi tilefni til þess, að auðurinn, sem þeir skapa, verði notaður á þennan hátt.

Ég vil að lokum mótmæla því, að frv. verði vísað til fjhn. Frv. er eðlilegt framhald af ríkislögreglufrv. Jóns Magnússonar og á eftir eðli sínu að fara til allshn. eins og það frv. Og ég tel það a. m. k. hæpið fyrir stj. að halda því fram, að hér sé fyrst og fremst um fjármál að ræða. Ég geri það því að till. minni, að málinu verði vísað til allshn., því að ég dreg ekki í efa, að málið verði látið ganga til 2. umr. og áfram. Það er í frv. viss kjarni, sem ég býst við, að allir séu sammála um, þótt búa þurfi hann öðrum umbúðum en stj. hefir gert.