26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf ekki að vera margorður. Háttv. 2. þm. Reykv. var miklu rólegri nú en áður og þarf ég því litlu að svara. Það er rangt dæmið, sem hv. þm. tók af varaliði á Ísafirði. Hann veit sjálfur, að samkv. 6. gr. er aðeins leyfilegt að stofna til varalögreglu, ef nauðsynlegt öryggi bæjanna heimtar það. Þá veit hann og vel, að tilgangurinn með 7. gr. er ekki sá, að taka menn nauðuga í lögregluna. Þetta ákvæði er aðeins sett til þess að firra menn álasi og vinnutjóni fyrir það eitt að taka að sér þetta starf. Þetta verður borgaraleg skylda, líkt og að vera í hreppsn. Þó það sé skylda dettur víst engum í hug að taka menn nauðuga í hreppsnefnd. Varðskipin eru lögregla á sjó. Er því ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að skipshafnir þeirra teljist til lögreglunnar.

Þá hélt hv. þm. því enn fram, að lögreglan yrði notuð í venjulegum vinnudeilum til að kúga verkamenn. Las hann því til sönnunar upp 4. gr. frv. En það var nú heldur óheppilegt fyrir hann, því þar stendur: „Lögregluna má ekki nota til þess að hafa önnur afskipti af venjulegum vinnudeilum, en að halda þar eins og annarsstaðar uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum“. En þó hann lesi þetta upp, heldur hann því samt fram, að lögreglan verði notuð til að berja verkalýðinn í vinnudeilum. En við vitum báðir jafnvel, að það verður aldrei gert. Hv. þm. sagði, að ég hefði sagt eitthvað ósatt. En hann gleymdi að geta um, hvað það hefði verið. Nefndi ekkert atriði því til sönnunar. Þarf því ekki meira við það að fást.

Hv. þm. sagði, að í varalögregluliðinu væru menn, sem hefðu unnið glæpi. Ég þekki það ekki. Ég veit, að í því eru myndarlegir menn (Hlátur á pöllunum) — Hlægið þið bara, ef þið viljið. En þetta eru samt duglegir menn og myndarlegir menn. (Hávaði á pöllunum). Það er hægt fyrir ykkur að gera óspektir á pöllunum, en mér er sama, hvernig þið látið. En það er hart að kalla menn glæpamenn fyrir það eitt að gegna þjóðhagslegri nauðsyn. Og það er ómaklegt að hrekja þessa menn frá vinnu þess vegna. Til mín kom maður um daginn, samherji hv. 2. þm. Reykv., sem rekinn hafði verið úr vinnu. Hann var að biðja mig um ábyrgð fyrir legukostnaði vegna veikinda, er voru hjá honum; konan var veik. Það var hv. 2. þm. Reykv., sem hafði rekið þennan mann úr vinnunni.

Þá er það næsta fráleitt og ósanngjarnt að kenna lögreglunni um bardagann 9. nóv. En þegar ráðizt er á saklausa menn, verður að taka á móti. Hjá því verður ekki komizt. Það er gert alstaðar.

Um kostnaðinn er það að segja, að ég man ekki betur en hv. 2. þm. Reykv. hafi jafnan fengið þær upplýsingar um heildarkostnaðinn, sem hann hefir óskað. En hann vildi líka fá nöfn mannanna, en það vildi ég ekki, nema hann jafnframt lýsti yfir því, að hann léti vera að gera þeim óskunda. En ekki sá hann sér fært að gefa þá yfirlýsingu.

Þá nefndi hann lögregluna í Danmörku og fór þar, að því er ég gat bezt skilið, með mjög rangt mál. Í Danmörku er mjög öflug lögregla, og þar að auki auðvitað stór her. En þrátt fyrir það vildu jafnaðarmannaforkólfarnir um daginn auka lögregluna til muna.

Ég þarf svo ekki að segja meira við þessa umr. Ég skal geta þess, að þetta er í fyrsta skiptið, sem valdið er óspektum á pöllunum þau 20 þing, sem ég hefi setið; og það er einmitt gott, þegar útvarpað er umr., til að sýna öllum landslýð, að eitthvað þarf að gera til að halda uppi reglu.