04.03.1933
Neðri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (1330)

61. mál, útborgun á launum embættismanna

Flm. (Magnús Jónsson):

Mér þykir vænt um, að hæstv. fjmrh. tekur mjög

lipurlega í þetta mál, eins og líka búast mátti við. En vegna einnar athugasemdar hans vil ég taka það fram, sem ég gleymdi að benda á áðan, en kemur skýrt fram í till. sjálfri, að þar er gert ráð fyrir, að sumir embættismenn úti um land kæri sig ekki um að fá laun sín útborguð annarsstaðar en hér í Rvík, vegna þess að þeir þurfi að nota þau eða einhvern hluta þeirra hér. Í till. stendur, að skorað sé á stj. að láta greiða embættismönnum utan Rvíkur, þeim sem þess óska, laun sín á næsta pósthúsi. Það væri alveg rétt, að þeir embættismenn, sem vilja fá laun sín greidd utan Rvíkur, þyrftu að óska sérstaklega eftir því, því þeim getur ekki verið mikil óþægindi að því að taka laun sín hér, sem ekki vildu ómaka sig til að senda ríkisféhirði línu um, að þeir óskuðu að fá þau greidd heima fyrir.

Sá örðugleiki, sem felst í því, að launin eru ekki alltaf greidd út óskoruð, hefir líka verið tekinn til athugunar. Á spjöldum þeim, sem ríkisféhirðir lætur kvitta á, er tekið fram, hvaða laun þessi og þessi embættismaður á að fá, og hvaða frádráttur kemur þar til greina. Þessi spjöld ætti að mega senda út um land fyrir nokkra mánuði í einu. Vegna þess hvað samgöngurnar eru strjálar, þurfa pósthúsin að fá fyrirskipanir um, hvað þau eiga að greiða, fyrir lengri tíma í einu; annars hefði sennilega verið heppilegra að senda mánaðarlega ávísanir.

Ég get vel sætt mig við, að till. sé vísað til n., og leitar hún þá væntanlega umsagnar fjármálaráðuneytisins um málið.