01.06.1933
Neðri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (1888)

209. mál, víxilskuldir á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands 1931

Sveinn Ólafsson:

Ég hafði reyndar búizt við annari afgreiðslu á frv. okkar hv. þm. Seyðf. frá fjvn. en raun er á orðin. En ég verð þó að segja, ef tilætlunin er sú með þáltill. þessari, að rétta hlut þeirra manna að lokum, sem sviknir hafa verið af síldareinkasölunni, þá er till. góðra gjalda verð. En það verður nú hvorki séð af till. né heyrt af orðum hv. frsm., að til þess sé ætlazt. En ef það er eigi tilætlunin, þá verður þáltill. n. ný hengingaról um háls þeirra, sem tjónið biðu, því vitanlega auka vextirnir þessa skuldarupphæð því meir sem lengur dregst að gera skuldaskil. Þessir víxlar voru upphaflega 80-90 þús. kr., en eftirstöðvar munu við síðasta nýár hafa með vöxtum, er hlaðizt hafa á víxlana, numið um 80 þús. kr. Ég get vel skilið það, að skilan. vilji, vegna mála, er hún á í við kröfuhafa einkasölunnar, heldur slá þessu máli á frest en ganga að kröfu frv. um greiðslu á víxlunum. Ég verð því að segja, þótt mér þyki linlega á þessu tekið, að þá verð ég samt að láta mér lynda þessa lausn í bili og byggja á þeirri von, að þeim mönnum, er svo illa hafa verið leiknir, verði sýnd linkind, þó síðar verði, að þeir fari ekki á vonarvöl fyrir þau hastarlegu svik, sem síldareinkasalan hefir beitt þá, og sem reyndar eru hreint og beint saknæm. Ég get þó sætt mig við þetta í bili og í þeirri von, að réttur þessara manna verði síðar að fullu viðurkenndur.