07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (3130)

52. mál, friðun fugla og eggja

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Eins og nái. ber með sér, hefir allshn. klofnað um þetta stórmál ( ! ), sem hér liggur fyrir, um ófriðun svana og uglna hér á landi. Það liggur nærri, að broslegt sé, að tveggja nefndarálita skuli hafa þótt við þurfa um þetta frv., - eða sitt nefndarálitið um hvora fuglategund, sem um er að ræða !

Eins og nál. meiri hl. allshn. ber með sér, álítur hann, að sízt sé ástæða til þess að fara að ófriða fuglategundir í landinu meira en orðið er. Ég hygg, að það orki ekki tvímælis, að það sé álit flestra, ef ekki allra þeirra, sem alizt hafa upp í sveitum hér á landi, að fuglalífið sé það í íslenzkri náttúru, sem þeir myndu sakna mest, ef skert væri eða eyðilagt og að frekar sé ástæða til að hlúa að því og friða betur en að hefja eltingarleik til útrýmingar einstökum tegundum þess, eins og frv. þetta ætlast til. Og þar sem um svo sjaldgæfa fuglategund og svanina er að ræða, sem í mörgum héruðum sjást ekki nema endrum og sinnum, þó að sumstaðar sé margt af þeim, og uglurnar, sem eru svo sjaldgæfar, að ég gæti trúað því, að fáir af hv. þdm. hafi nokkurntíma séð þær, þá virðist það vera frekar einkennilegt að gera mikinn eltingaleik til þess að eyðileggja þessa fugla. Sérstaklega er það þó einkennilegt að því er snertir ugluna, því að hún mun vart ennþá hafa tekið bólfestu hér á landi.

Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun og veit, að allshn. lítur svo á líka, að frekar sé þörf á að friða fuglana betur en er heldur en að hörfa aftur inn á þá braut að ófriða og eyðileggja það, sem þegar hefir unnizt á hjá okkur í þessum efnum. Þessi friðunarlög okkar Íslendinga hafa frekar orðið til þess að auka hróður okkar út á við. Þau sýna það, að við kunnum að meta fuglalíf okkar og hlúa að því. Það mundi því verða okkur vafasamur sómi að höggva aftur skarð þar i.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, af því að ég tel þetta ekki svo mikið mál, að ekki sé hægt að afgr. það fljótt og umræðulítið, og vil ég ekki gefa tilefni til, að miklar umr. hefjist um það. Álít ég, að tíma þessa þings þurfi að verja til betri og alvarlegri hluta en slíkra frumvarpssmíða. Vil ég þess vegna ekki fara inn á það hlægilega og broslega við þetta frv., en um það mætti tala lengur. Ég tel þetta frv. ekki þess vert, að um það sé mikið rætt.