09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2218 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

172. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er aðeins stutt aths. út af orðum hv. þm. Seyðf. Út af síðari hluta ræðu hans vil ég segja það, að mér er óhætt að fullyrða, að innan kreppun. er mikil samúð með þessum mönnum, sem hv. þm. vill nú koma að með till. sinni. En ég fyrir mitt leyti verð að halda fast við það, að ekkert er vitað né heldur liggur fyrir um þörfina eða hvað þetta mundi kosta mikið fé.

Ég var fyrir nokkrum árum síðan endurskoðandi Landsbankans um 4 eða 5 ára skeið. Ég setti mig þá talsvert inn í veðdeildina, en vitanlega er farið að fyrnast yfir það nú, en það stendur svo í mínu minni, að hér geti verið um allverulega háar upphæðir að ræða, að mikill þáttur af veðdeildinni muni geta komið undir þetta. Þess vegna vil ég endurtaka það, að ég get stutt það, að þetta sé athugað, og lofað mínum fyllsta velvilja, ef ég ætti um það að fjalla og ef rannsókn leiddi svipað í ljós um hag þessara manna eins og komið hefir í ljós viðvíkjandi landbúnaðinum.

Hv. þm. gat þess, sem er alveg rétt, að miklu einfaldara til þess að koma fram fresti á afborgunum á föstum lánum sé, að kreppulánasjóður láni lántakendunum beint og þeir notuðu það síðan til að borga afborganirnar. Þetta er alveg rétt. En það dregur þungan dilk á eftir sér. Hann er sá, að ef þetta verður gert, þá munu veðin missast í flestum tilfellum. Því að það er þannig háttað um veðdeildarlánin og ræktunarsjóðslánin, að það eru önnur lán á eftir þeim með uppfærslurétti. En ef sú leið er farin, sem við leggjum eindregið til, þá standa veðin áfram og kreppulánasjóður fær af sjálfu sér veð. Það flyzt frá bönkunum og yfir til kreppulánasjóðs. Það þarf ekki að gerast með þeim hætti, að bankarnir gerist lántakendur hjá kreppulánasjóði, heldur má finna einfaldari leið. Ég tel, að hún sé örugg, bæði að fé lánstofnunarinnar sé vel tryggt og hægt sé að hjálpa þeim mönnum, sem mest kreppir að.